Af bankamálum

Í lok mánaðar held ég til Árósa til að taka fyrsta áfangann minn á meistarastigi og bíð núna ferðastyrks sem ekkert bólar á. Þess vegna hef ég þurft að eyða öllum peningum sem ég átti í húsaleiguna úti, þartil styrkurinn kemur í hús.

Svo ég hringdi í Byr áðan og bað um hógværan yfirdrátt. Þjónustufulltrúinn spurði mig þá fyrst hvort ég væri námsmaður, sem ég játti. Þá spurði hann mig hvort ég væri kominn með vinnu, sem ég játti, enda hef ég unnið á Borgarbókasafni í fjögur ár. Þá spurði hann mig hvar ég væri að vinna, sem kom honum andskotans ekkert við en ég sagði honum það samt. Þá sagði hann mér að þetta væri komið.

Nema þetta var ekkert komið, svo ég hringdi aftur seinna og spurði hvað málið væri. Þá bíður þetta afgreiðslu! Fyrir tæpum mánuði greiddi ég upp hálfrar milljón króna yfirdrátt í sama banka og finnst helvíti hart eftir að hafa alltaf staðið í skilum að vera skyndilega grillaður undir yfirheyrslu og umsóknin bíði samt samþykkis hjá bankanum.

Þá frétti ég það hjá vinnufélaga að hún hafi ekki mátt stofna bankareikning þarsem ökuskírteinið hennar var útrunnið, einsog það komi málinu einhvern fjandann við. Og ekki nóg með það, hún þurfti að framvísa vegabréfi. Það er ekkert annað en ólíðandi helvítis yfirgangur [leiðrétt í athugasemdum].

8 thoughts on “Af bankamálum”

  1. Var það ekki bara spurning um að framvísa skilríkjum? og útrunnið ökuskírteini ekki tekið gilt? væri ekkert skrítið við það í sjálfu sér. annars áttu samúð mína.

  2. Einsog hún sagði frá þessu var ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að ökuskírteini viðskiptavina þurfi að vera í lagi óháð öðrum skilríkjum, fyrst hún þurfti líka að sýna vegabréf. Nema henni hafi bara sagst svona undarlega frá. Já, það er líklegra.

  3. Það þarf núna að sýna ‘opinbert’ skilríki einu sinni, til að staðfesta auðkenni sitt eða eitthvað álíka, ný löggjöf. Sem kom mér illa um daginn því ég hef ekki bílpróf og geng ekki með vegabréf á mér dagsdaglega. Sú sem ég ræddi við fullvissaði mig hinsvegar um að það séu að koma debetkort með þessari virkni vegabréfs, ef það má kalla það svo. Ég var svo pirraður við konuna að ég fékk bækling! — Svo er víst hægt að fá nafnskírteini enn skilst mér.

  4. Já, ég spurði hana nánar útí þetta og þeir tóku ekki við ökuskírteini heldur þurfti að framvísa vegabréfi. Nú á ég ömmu sem á ekkert vegabréf og hefur ekkert með það að gera, hefur aldrei farið úr landi.

  5. Það er löngu kominn tími á það á Íslandi að fara að gefa fólki tækifæri til að fá sér nafnskírteinin svokölluðu. Engin íslensk skilríki nema vegabréfin eru tekin gild sem alvöru skilríki, neins staðar, og þau kosta pening. Allir þegnar eiga að geta fengið útgefin ókeypis, gild skilríki. Og hana nú! Vork með að bíða eftir styrk (en samt, halló, þú fékkst þó alla vega styrk;) Og góða ferð og allt það!

  6. Það er nefnilega málið, það er ekki hægt að dýfa tánni í Skandinavíu nema detta um styrk. Þetta er ekki eitthvað sem maður sækist eftir sérstaklega, heldur erum við látin sækja um styrkinn sem við fáum svo átómatískt (sem Skandinavar, að sjálfsögðu).
    Sammála með nafnskírteinin, að svo miklu leyti sem mér finnst skilríkjaflass eiga rétt á sér.
    Og takk takk, ferðin verður áreiðanlega góð.

  7. Til hamingju með styrkinn – sem þú vonandi færð greiddan mjög fljótlega.
    Sammála þessu með skírteinin, auðvitað á fólk að geta fengið ókeypis gild skilríki, fyrst það verður að sýna þau.

Skildu eftir svar við Erla Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *