Katanesdýrið

Ármanni til upplýsingar get ég fullyrt að ég sá Katanesdýrið liggja í makindum sínum á gólfi danskrar lestar, svo skömmu síðan sem í gær. Þarmeð hefur það fylgt í fótspor ýmissra þeirra sem flúið hafa kastljósið gegnum tíðina, svosem Elvis, Hoffa og Geirfinnur. Samkvæmt eðli horfinna hefur aldur ekkert með það að gera að fólk heldur áfram að sjá viðkomandi aðila á vappinu hér og þar; Elvis mun enn sjást að 50 árum liðnum. Að sama skapi sá ég Katanesdýrið og held fastur við minn keip.

Sumir kvörtuðu undan viðurvist Katanesdýrsins um borð í lestinni, bentu ýmist á að skrímsli væru ekki leyfð um borð í lestum (það er bannmerkið fyrir neðan reykingamerkið), eða sögðu að í það minnsta væri hægt að geyma skrímslið annarsstaðar en á miðjum ganginum þar sem nægt væri plássið. Samgangur manna og skrímsla heldur þannig áfram að vera hversdagslegt áhyggjuefni. Þá má benda á að umrædd skytta sem fengin var til að veiða Katanesdýrið var einmitt langafi Vésteins Valgarðssonar, samkvæmt því sem ég hef heyrt. Og skilst mér að Vésteinn sjálfur segi söguna best allra manna.

Annars í viðleitni til að skemma góðar sögur finnst mér lítið hafa verið athugað að þeir fyrstu til að beita fyrir sig Katanesdýrinu sem skálkaskjóli voru ungir smalar sem týndu sauðfé. En tímarnir breytast og skrímslin með. Ég væri í öllu falli til í að sjá unglinga nútímans reyna að beita fyrir sig skrímsli sem afsökun í vinnuskólanum.