Sögur úr Árósum

Hér er hópur skandinava í einhverslags dönskuskóla sem hefur farið nokkuð í taugarnar á mér undanfarna eina og hálfa viku. Dagskipunin virðist hafa verið að taka öll bæjarhjól Árósa strax á fyrsta degi og halda í þau. Þau standa hér í röðum á daginn og eru læst inni á næturnar og menn greinir á um hvort þessi gjörningur sé meira siðlaus en hann er lágkúrulegur.

Vinur vinar míns hérna, sannkallaður heimsborgari, fannst dauður hér á lóðinni einhversstaðar í morgun. Svo virðist vera sem hann hafi ætlað sér að fara heim en ekki komist lengra, svo þess í stað fékk hann að vakna við gólin í sænskum stelpum að tuða undan umgengninni eftir grillveislu gærkvöldsins. Síminn hans var horfinn og hjólið hans líka, svo hann tók umgengnina áreiðanlega ekkert sérlega nærri sér. Enda þótt óhjákvæmilega velti maður því fyrir sér hvernig sami maður plumaði sig í eilítið harðara landi.

Þegar við hin höfðum lifnað við á nýjan leik tókum við að sjálfsögðu til og var það auðgert. Valur Gunnarsson, einn góðkunnugur Árósafari, gerðist þá svo frakkur að kasta á þær kveðju síðar um daginn. Kvað ein þeirra hafa gargað á hann og spurt hvort hann væri þangað kominn til að biðjast afsökunar á umgengninni.

Svo það er nokkuð ljóst að sænska sameignarstefnan einsog hún er iðkuð hér við Risskov er ærið blandin eftir tilefni hverju sinni.

Sami Valur mun hafa hitt forna sígaunakonu við haf úti undir skógarrótum um miðja nótt og beiddist hún ásjár hans, enda er hann maður eigi pervisinn. Hafði hún á orði við hann að danskir karlmenn væru ræflar ólíkt honum, og að einhverjir durtar héldu sér fanginni í húsi inni í skóginum. Hann fór hikandi af stað með henni gegnum skóginn og elti hana að lundi þar sem sannarlega stóð hús, og kvaðst hún skyldu inn í hús að sækja töskuna sína, og hann yrði tilbúinn þar fyrir utan ef í harðbakkann slægi. Þar stóð hann tilbúinn að hringja á lögregluna, ekki alveg sama um kringumstæður, uns hann rak augun í skilti við húsið. Þar stóð að umrætt hús væri geðveikrahæli.

Þannig gerast ævintýrin enn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *