Kúltúrsjokk

Fyrirsögnin er kannski fullyfirdrifin miðað við tilefni en þó er vel hægt að upplifa kúltúrsjokk í Danmörku. Stærsta kúltúrsjokkið, sem kann að koma lesendum þessarar síðu á óvart, var að fólk vílaði ekki fyrir sér að snýta sér lon og don undir miðjum fyrirlestri. Í fyrstu þótti mér ógeðfellt að ekki aðeins Spánverjinn í hópnum heldur Danirnir líka snýttu sér í tíma og ótíma og tróðu svo pappírnum í vasann, en svo rann það upp fyrir mér að ef til vill væri það þrátt fyrir allt meiri kurteisi en að standa í sífellu upp til að fara fram að snýta sér.

Snýtihefðir meginlandsbúa voru mér meira kúltúrsjokk en þegar ónefndur aðili mætti í grillveislu með töskufylli af bareflum og reyndi að fá fleiri til lags við sig til að halda útí skóg til að lumbra á nasistum (við heldur dræmar undirtektir). Eða þegar ég tók strætó til Tilst og skyndilega voru bara búrkuklæddar konur eftir í vagninum. Eða sú staðreynd að þriðji hver maður virtist reykja heimaræktað kannabis að staðaldri – nokkuð sem ég varð engan veginn var við í fyrra. Og að þeir Hollendingar sem ég hitti höfðu aldrei heyrt um Icesave (ekki spyrja mig hvers vegna ég yfirhöfuð minntist á það).

Stærsta kúltúrsjokk þeirra sem í fyrsta sinn ferðast til útlanda er væntanlega hversu einsleitt mannkynið í raun og veru er þegar allt kemur til alls, og að sjá svo gegnum fingur sér með það litla sem er ólíkt milli hinna aðskildustu hluta heimsins. Þegar maður hefur áttað sig á þessu er auðvelt að sjá hversu smáar sumar þjóðir eru að vilja banna bænahald annarra en þeirra sem játast undir sama guð og sömu doktrínu, og amast við því að útlendingar opni matsölustaði í þeirra landi og selji sinn framandi mat þeirra hreinu og óspilltu börnum. Það er alltaf sjálfsyfirlýst miðja sem skilgreinir jaðarinn, sem gerir að verkum að án jaðarsins væru normin ekki til. Það hefur lítið breyst í þjóðarvitund margra síðan íslenskir Grænlendingar drápu skrælingja án umhugsunar, án þess að reyna að tala við þá, af því þeir voru öðruvísi. Hálfgerð skrímsli.

Ég á hinn bóginn er fyrir löngu búinn að átta mig á þessu, allt frá því ég bjó á Ítalíu, og er þess vegna þeirrar skoðunar að öllum börnum sé hollt að kynnast öðru landi innanfrá einhverntíma á uppvaxtarskeiðinu. Það eykur á víðsýni þeirra síðar meir. Þess vegna leyfi ég mér oft að einblína á það sem þó er öðruvísi, í þeirri trú að fólk átti sig á að mér er aldrei full alvara með mínum þjóðernislegu dilkadráttum (ég á stundum til að segja til dæmis að Þjóðverjar séu leiðinlegasta þjóð Evrópu – þótt auðvitað sé það ekki og geti ekki verið satt – þjóðir geta ekki verið leiðinlegar, frekar en þjóðir geta verið hryðjuverkamenn).

En í öllu falli er hæpið að ég taki mér þann sið til fyrirmyndar að snýta mér undir fyrirlestrum, eða slást við nasista en jafnframt gútera gettóvæðingu úthverfanna. Það er eitthvað algjörlega framandlegt við margt það skilningsleysi sem ég hef orðið vitni að í Danmörku gagnvart fólki af öðru menningarupplagi, þegar nasjónalistar hatast við yfirlýsta nasista einsog það sé í raun einhver gríðarlegur munur milli þeirra. Sumir hata gyðinga en aðrir hata múslima og sumir hata einfaldlega bara allt sem er dekkra en MacBook.

Þegar öllu er á botninn hvolft er fólk alstaðar meira eða minna eins þótt siðirnir séu ólíkir eftir hvar maður er staddur hverju sinni. Og þegar kemur að því að taka sér upp erlenda siði þá fellur evrópska dagdrykkjan mér öllu meir að skapi en margt það annað sem ég hef kynnst á ferðalögum mínum. Fyrr drekk ég bjór fyrir hádegi en snýta mér í kennslustofu, eða skipta mér af því hvaða þjóðernishópar berjast innbyrðis í Danmörku af gagnkvæmu skilningsleysi gagnvart öllu því sem talist getur sammannlegt.

7 thoughts on “Kúltúrsjokk”

  1. Þú flokkar það sem sagt undir kúltúrsjokk að hafa rekist á einhverja útúrdópaða Hollendinga sem fylgjast ekki með ekonomíu; hvorki helstu deilum um útlánapólitík né bjúrókratískri baráttu um túlkun á flóknum alþjóðalögum? Mér þykir þú nú ansi lítið sigldur.

  2. Kommon, ef þú þekkir mig hætishót þá sérðu að pistlinum var ekki ætlað að vera sérlega alvarlegur.

Skildu eftir svar við Eiríkur Örn Norðdahl Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *