Leiðarvísir um Borgarbókasafn

Í rúm fjögur ár hef ég starfað á Borgarbókasafni og allan þann tíma hef ég ítrekað hjálpað sama fólki sem virðist fyrirmunað að læra jafn einfaldan hlut og að finna safngögn. Þess vegna langar mig til að skýra flokkunarkerfi Borgarbókasafns í fáum orðum. Það er hið svokallaða danska Deweykerfi.

Fyrsta reglan er að það þarf ekki að læra á flokkunarkerfið sjálft, aðeins hvernig bókunum er raðað. Það þarf semsé ekki að muna að 850 eru fornsögurnar og að 136-168 er kukl/sjálfshjálp. Það þarf bara að muna númerið og finna það. Önnur reglan er að kerfið er til staðar til að einfalda þér leitina, ekki til að flækja hana.

Með þetta í huga má hefjast handa við að skýra kerfið en það er tvíþætt – í Sólheimasafni er það að vísu þríþætt. Fyrst er það flokkurinn, þriggja stafa tala frá 000 upp í 999. Flokkum er raðað í talnaröð frá öðrum enda safnsins til hins. Þá er það höfundur og titill. Höfundum er raðað innan flokkanna eftir stafrófsröð og titlum er raðað í stafrófsröð eftir höfundum. Þannig kemur 994 Þór Ísl (Íslenzkur aðall) á undan 994 Þór Ofv (Ofvitinn), og 994 Þór Ásg (Þórður Kakali eftir Ásgeir Jakobsson) kemur þar á eftir, af því stafrófsröð efri línu yfirskipar þá neðri. Og nei, bókum er aldrei raðað í útgáfuröð.

Þriðji þátturinn sem er einskorðaður við Sólheimasafn er ef bækur eru merktar 4to eða 4° (lesist: kvartó). Það merkir að bækurnar eru af tilteknum stærðarflokki sem hentar ekki venjulegum hillum og því eru þær hafðar sér.

Utan kerfis standa svo skáldverk á íslensku – bæði þýdd og frumsamin. Þeim er aðeins raðað eftir stafrófi. Um stafrófsröð höfunda gildir almennt sú regla að íslenskum höfundum er raðað eftir fornafni en erlendum eftir eftirnafni (þá ber að hafa í huga að Kínverjar bera flestir en þó ekki allir ættarnafn sitt á undan eiginnafni). Skáldsögum á erlendum málum er hinsvegar raðað eftir flokki á undan stafrófi (sem er flokkur fyrir viðkomandi tungumál, t.d. 830 fyrir bækur á ensku, og sama gildir um mynddiska). Þær eru þó oft hafðar í sérhillu utan hefðbundinnar röðunar, t.d. á eftir íslenskum skáldsögum.

Þetta er nú allur galdurinn. Eina sem maður þarf er að kunna að telja og þekkja stafrófið. Flokkarnir byrja á einum enda safnsins og enda hinumegin, og ýmist á undan eða eftir flokkunum eru skáldritin geymd. Þá eru mynddiskar einnig hafðir sér og um röðun þeirra gildir sama og um röðun flokkabóka (þ.e.a.s. bókin The Secret hefur sama flokkunarnúmer og mynddiskurinn og sama gildir um bækur og myndir Davids Attenborough). Eina sem þarf að gera ef manni líst ekki á að leita blindandi í (yfirleitt) litlum myndbandadeildum safnanna er að slá upp viðkomandi titli í leitartölvu og finna númerið. Rest ætti alveg að koma af sjálfu sér.

Það er ekkert að því að biðja um hjálp, ég segi það ekki. En mér finnst alveg sjálfsagt mál að daglegir gestir á bókasöfnin læri þó inn á þetta tiltölulega einfalda kerfi. Önnur kerfi, t.d. það á Landsbókasafni, er hefðbundið Deweykerfi þar sem allt er merkt eftir flokkum. Bæði kerfi hafa sína kosti og galla en okkar kerfi er í það allra minnsta nógu einfalt til að hver sem er ætti að geta lært að nota það á kortéri. Þjálfunin sem nýir bókaverðir fá er altént ekki meiri en sú sem þú fengir ef þú gengir upp að næsta starfsmanni og bæðir um aðstoð við að læra á flokkunarkerfið.

6 thoughts on "Leiðarvísir um Borgarbókasafn"

 1. JBJ skrifar:

  Ég legg fæð á Dewey-kerfið þar sem það er ekki staðlað. Sama bók getur haft mismunandi Dewey-númer milli safna, allt eftir hentisemi bókavarða.
  Dæmi á Gegni: http://gegnir.is/F/MRIHS16HJ6K79TRHCQJEPGGG352SLE43TT9HJ3LJ4FEGM22JRM-04714?func=item-global&doc_library=ICE01&doc_number=001060141&year=&volume=&sub_library=
  Bækur úr sömu ritröð eftir sama höfund lenda svo stundum víðs fjarri hvor annarri, ég þurfti að benda starfsfólki í bókasafni á að bækur sem ég hafði gefið úr ákveðinni ritröð lentu nokkrar í 823 og aðrar í einhverju sci-fi númeri (sýnist að þær séu komnar í 823 núna).

 2. Einsog ég sagði hafa bæði kerfin sína galla. Munurinn sem þú sérð á flokkunarnúmerum þarna er munurinn milli danska Deweykerfisins og þess staðlaða. Það er nefnilega ekki rétt hjá þér að Deweykerfið sé ekki staðlað, Borgarbókasafn notar bara einfaldaða gerð þess. Það má svo gagnrýna það einsog annað. Svo eru til enn önnur kerfi sem öll hafa sína kosti umfram Deweykerfið en líka galla.
  Bækur innan sömu ritraðar eru ekki flokkaðar saman ef efnið er ólíkt, t.d. eru greinasöfn Þórbergs í 045 á Borgarbókasafni, Edda er með ljóðabókum og skáldævisögurnar eru meðal ævisagna. Ég er þó sammála að það að flokka sumar skáldsögur sama höfundar sér nær ekki nokkurri átt.

 3. Óli Gneisti skrifar:

  Í raun er JBJ að kvarta yfir því að Dewey kerfinu sé ekki fylgt og þá er ekki við kerfið sjálft að sakast þó það sé vissulega meingallað.

 4. Skarpi skrifar:

  Gerði mér ekki grein fyrir þessu með kínamennina, gæti komið sér vel. Mín reynsla er sú að ég finn alltaf allt á endanum, ef það er í hillu, en rekst líka í leitinni og leiðinni á eitthvað sem ég vissi ekki að var til. Leitin er góð.
  Ég fór í “bókasafnstíma“ í grunnskóla og lærði þar grunninn í þessu sem þú ert að segja, sbr. stafrófsröðina ofl. Gerðu það ekki allir? Á stærra safni einsog niðrí bæ mætti þó alveg vera lítið kort af hillunum með númerunum og efni þeirra til hliðar, dettur mér í hug. Gegnir er svo kapítuli útaf fyrir sig.
  Og til lukku með Þórberg, hlakka til að renna yfir hann.

 5. Björn Unnar skrifar:

  Blessaður Arngrímur, þetta er gott og rétt og þarft og satt en mig langar að spyrja um tvennt, og þá helst sem notandi á Borgarbókasafni frekar en annað. Vel að merkja, ég hef aldrei, skamm skamm, stigið fæti inn á Sólheimasafn.
  Í flokkun Borgarbókasafns eru Íslenskur aðall og Ofvitinn báðar merktar 994 Þór Þór, þar sem ævisögunum er raðað fyrst eftir nafni þess sem fjallað er um og þá nafni þess sem skrifar. Ég vissi reyndar ekki að fjórða flokkunarröðin væri titlar-í-stafrófsröð, en það meikar sens. Svona er þetta amk. í öðrum söfnum BBS og svo skráð í Gegni, eða er þessu öðruvísi háttað í Sólheimasafni?
  Ég skil kannske ekki hvað þú átt við þegar þú ræðir 4to merkinguna. Ég finn þær bækur oftast í neðstu hillu í viðeigandi stæðu, stundum staflað á hliðina svo þær komist nú fyrir. Þetta er líka venjan á Þjóðarbókhlöðunni (og væntanlega að danskri fyrirmynd; mig rámar allavega í að hafa séð þetta gert á Konunglega bókasafninu). Er annar standard á þessu í Sólheimunum?

 6. Óli: Einmitt punkturinn sem ég gleymdi.
  Skarpi: Takk fyrir það! Útgáfudagur er 10. ágúst. Og það er satt sem þú segir um leitina, hún skilur oft ýmsu skemmtilegu.
  Björn Unnar: Ég kannaði ekki merkinguna áður en ég skrifaði en það er rétt sem þú segir, sé ég eftir á, að ævisögur eru ekki flokkaðar eftir titli heldur þeim sem skrifað er um og næst höfundi bókarinnar, þess vegna 994 Þór Þór. En grunnreglan sem ég fylgi er að ég raða bókum um sama mann eftir stafrófsröð eftir sem áður – eftir merkingum þar sem við á. Þar sem Þórbergur er undantekning þá er best að hafa hann í stafrófsröð.
  Ég hefði átt að taka betra dæmi, t.d. ýmsar bækur um Halldór Laxness. Honum vil ég raða þannig að bók Halldórs Guðmundssonar kæmi á undan bókum Hannesar Hólmsteins, en bækur Kiljans væru í stafrófsröð á milli þeirra tveggja. Um þetta eru þó engar samræmdar reglur, en það kemur ekki að sök fyrst allar bækurnar eru hvort eð er á sama stað.
  Það er misjafnt eftir söfnum hvernig þau raða 4to merktum bókum en hér eru þær hafðar alveg sér. Í öðrum söfnum sem ég hef unnið í (öllum nema Gerðubergi) hefur reglan verið að leggja bækurnar með kjölinn upp ef þær passa ekki, en á réttum stað að öðru leyti. Ég man ekki eftir að hafa séð 4to neðst í hillum samkvæmt reglu en það kann vel að vera að þannig sé það einhversstaðar.

Lokað er á athugasemdir.