Bechdelprófið

Hinn stórmerki vinur minn og hellenophil Ásgeir Berg benti mér um daginn á Bechdelstaðalinn fyrir ásættanlegt kynjahlutfall í kvikmyndum, sem Alison Bechdel setti fram í teiknimyndasögu sinni Dykes to Watch Out For. Staðallinn sem prófa má eftir felst í þrem einföldum liðum. Kvikmynd skal hafa:

1. Tvær (nafngreindar) kvenpersónur
2. sem tala saman
3. um eitthvað annað en karlmenn.

Það eru ótrúlega margar kvikmyndir sem standast ekki þetta einfalda próf, ekki síður þær sem gefa sig á einhvern stórfurðulegan hátt út fyrir að vera feminískar (Sex & the City). Hér má sjá statistík yfir þær myndir sem hafa verið skoðaðar með tilliti til Bechdelstaðalsins.

Þetta einfalda próf segir ótrúlega margt um þau (lítt) duldu viðhorf til kvenna sem finnast innan dægurmenningarinnar rétt einsog samfélagsgerðarinnar sjálfrar, og eins einfalt og það er eru niðurstöðurnar eftir sem áður, ég veit ekki hvort ég ætti að segja fyrirsjáanlega, sláandi. Þetta er einfaldlega nokkuð sem margir leiða hugann ekki sérstaklega að.

Bechdelstaðallinn gildir auðvitað ekki bara um kvikmyndir heldur bókmenntir líka, og ég held að í einfaldleika sínum gæti það orðið áhugaverð stúdía að beita fyrir sig Bechdelstaðlinum við lestur bóka. Það er það sem koma átti á framfæri.

4 thoughts on “Bechdelprófið”

  1. Sniðugt próf – en um leið meingallað. Einhver Alien-myndin fellur á því veit ég, og það þykir mér ansi hart þegar eina mennska persónan þar sem einhverju skiptir er kona – karlarnir eru bara geimverufóður.
    Fellur samt Sex & the City virkilega á því? Ég hef ekki séð myndina en þótt þær tali vissulega mikið um karlmenn í þáttunum þá tala þær um ýmislegt annað líka …
    En hér er vídjó fyrir þá sem nenna ekki að skoða gröfin – það er sæt stelpa að kynna það þannig að við getum bara talað um hana í okkar bíómynd þar sem við tölum bara um stelpur …
    http://www.youtube.com/watch?v=bLF6sAAMb4s

  2. Alien3 mun vera sú eina sem fellur á prófinu, þegar Ripley lendir í karlafangelsi. Prófinu er enda meira ætlað að gefa vísbendingar en endanlegan sannleik.
    Sex & the City kolfellur trekk í trekk á prófinu þótt sjálfsagt séu til þættir þar sem þær tala saman um eitthvað annað en karla. Eina atriðið í myndinni sem snýst ekki um karla snýst um að hressa sig við eftir sambandsslit með merkjavöruflippi.
    Þegar undantekningarnar eru þetta fáar hefur það litla þýðingu fyrir heildarniðurstöðuna.

  3. Mér finnst eins og fleiri karlmönum en konum þyki Sex & the City fremur lítillækkandi fyrir konur. En gefi menn sér að þetta umhverfi og lífsstíll sé visst norm er kannski vel hægt að sjá lífsleikini og lífslyst kvennanna í þáttunum sem dæmi um styrk og kvenlegt sjálfstraust, hvað sem eilífum umræðum í þáttunum um sambönd og sambandsslit líður.

Skildu eftir svar við Arngrímur Vídalín Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *