Af hrakförum og ferðalögum

Seinheppni minni og klaufaskap er engin takmörk sett. Eftir ágætis göngutúr með Christian um fegurri hluta gettósins – gömlu Brabrand og umhverfis hið gullfallega Brabrandvatn – lá leið mín niður í bæ að næla mér í eitthvað til að nærast á. Ég hef komið mér upp þeim sið hérna þegar ég fer yfir fjölfarnar umferðargötur að líta fyrst til vinstri og færa mig svo á miðja götuna þartil hægst hefur um umferðina úr hinni áttinni.

Svo ég leit til vinstri við Ráðhúsið og sá engan bíl. Ég steig út á götu og fékk umsvifalaust kjaftshögg. Þegar ég hafði áttað mig eftir höggið leit ég til hægri en sá engan, þar til ég leit niður á götuna og sá stúlku sem hélt bölvandi og ragnandi um ennið á sér. Hún hafði verið að flýta sér og hljóp eins hratt og mannlega er mögulegt með höfuðið á undan, skallandi mig í smettið þegar ég steig út á götu. Kona kom aðvífandi í vígamóð hrópandi á mig einsog ég hefði ráðist á stúlkuna, en hún kom mér til varnar og sagði að þetta væri í lagi. Þegar hún var farin sá ég að sólgleraugun mín lágu í molum á götunni. Annað samskonar parið sem ég glata á jafnmörgum mánuðum.

Eftir þetta ákvað ég að drífa mig heim svo ég tæklaði örugglega ekki fleira fólk niður í götuna, en þegar tók að rökkva beið mín ekkert betra. Ég hef þann vanann á að hafa gluggann opinn á kvöldin af því ég reyki inni, og þegar ljóst var að ég myndi ekki sofna aðra nóttina í röð setti ég mynd á í tölvunni. Þá verð ég skyndilega var við að ekki aðeins einn heldur tveir risavaxnir geitungar sveima hatrammlega um herbergið, svo stórir að ég hélt fyrst að þetta væru býflugur.

Ég laumaðist til að opna gluggann betur í von um að þeir fyndu leiðina út en þá fylltist allt skyndilega af geitungum svo ég varð að loka glugganum. Tugir ef ekki hundruð geitunga smullu á glugganum að utanverðu og sífellt bættist í hópinn. Ég hef ekki fríkað svona út í áraraðir – þetta hef ég aldrei séð. Og þó er ég enginn aukvisi í tortímingarfræðum geitunga. Ég taldi finngálknin í herberginu og sá að þau voru fjögur. Þegar tvö þeirra lágu í valnum bættust tvö önnur við, eitt af hverjum ég spreyjaði með salernishreinsi og lokaði inni á baði. Hin skrímslin kipptu sér lítið upp við það svo ég sótti rússneska málfræðibók fram og hóf að murrka úr þeim líftóruna með bókstafnum. Salernishreinsirinn kom sér vel þegar ein skepnan faldi sig í lampanum mínum. Eftir hasarinn sem stóð í á milli 30 til 45 mínútna voru sex kvikindi dauð og herbergið angandi einsog nýhreinsað klósett. Í morgun fann ég það sjöunda við skrifborðið mitt. Sjálfsagt hef ég talið vitlaust.

Í fyrradag eftir órabið fór ég í bankann til að kvarta undan að því að kortið mitt væri ekki komið, en var tjáð að það hefði verið sent heim til mín þann 25. ágúst. Þá brá ég á það ráð að gá á hæðina fyrir ofan hvort allur pósturinn sem ég hafði ekki fengið leyndist nokkuð þar. Það stóð heima, og nú var ég loksins orðinn handhafi bankakorts og sjúkratryggingakorts. Danir taka jarðhæðina greinilega hátíðlegar en Íslendingar svo klúðrið skrifast á mig. Hinsvegar vissi ég ekki að þjónustufulltrúinn hafði skráð kortið sem vákort, fyrst það var glatað. Hann amk hafði ekki fyrir að segja mér það. Svo þegar ég fór í hraðbankann áðan gleypti hann kortið.

Á dagskránni á morgun er því enn ein ferðin niður í Jyske Bank að endurheimta kortið. Þar eru allir peningarnir mínir. Ekki seinna vænna heldur, ég fer til Álaborgar á föstudaginn og þaðan með ferju til Oslóar. Að sjálfsögðu tek ég þessu öllu með jafnaðargeði, enda ef allt gengi snurðulaust fyrir sig fengju allir fimm lesendur Bloggsins um veginn (eða Bloggsins um vælið einsog einhver stakk upp á) ekki að lesa allar þessar skemmtilegu hremmingarsögur af undirrituðum.

Í Álaborg gistum við Christian og Mathias eina nótt heima hjá heimsborgara einum sem er góðkunningi síðuritara jafnt sem lesenda. Í Osló gistum við jafnframt eina nótt eftir því sem ég best veit áður en við tökum lestina til Bergvinjar (vinur minn kvartaði undan því að ég talaði um Bergen á sama tíma og ég nefni mína borg Árósa, og staðarheitið Björgvin get ég ómögulega látið út úr mér, vona að honum þyki millivegurinn ásættanlegur).

Í Bergvin sækjum við ráðstefnu um aðferðafræði í miðaldarannsóknum þar sem margir helstu hausanna verða, þám Rudolf Simek sem allir lesendur þessarar síðu skyldu kannast við. Þar verðum við þrjár nætur en tökum svo lestina til Gautaborgar þar sem við dveljum tvær nætur hjá einhverjum náunga. Að endingu er ferðinni heitið heim með lest eftir endilangri vesturströnd Svíþjóðar, sem síðuritara skilst að sé óviðjafnanlega falleg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *