Enn meira úr daglega lífinu

Bankakortið fékk ég blessunarlega í hendurnar aftur í dag svo ég get haldið ótrauður til Álaborgar á morgun. Ég ákvað að verðlauna sjálfan mig þolinmæðina með feitum hamborgara við ána, en þeir kostuðu tæplega 3000 krónur svo ég hélt lengra inn í bæinn og fann Buffhús Jensens sem var örlítið ódýrara. Það er hægara sagt en gert að finna alvöru hamborgara hérna svo ég lét slag standa og pantaði hamborgara sem ég átti sjálfur að setja saman.

Salatbarinn var raunar ekki sérlega frumlegur fyrir þá sem setja ekki fusilli á hamborgara svo ég valdi mér bara allt þetta venjulega. Mér leið hálfpartinn einsog dólgi sitjandi við borðið mitt andartaki síðar á tiltölulega fínum stað skerandi dvergtómata og gúrkur. En mikið óskaplega var þetta gott. Fyrir herlegheitin og einn bjór borgaði ég rúmlega 3000 krónur. Það er fátt gefins hérna.

Ég lét annan kennarann minn vita að ég væri að fara á ráðstefnu í Noregi svo hann héldi ekki að ég væri vísvitandi að skrópa í næstu viku. Honum leist svo vel á það að ég fékk það verkefni að kynna ráðstefnuna fyrir bekkjarfélögunum þegar ég kem aftur, í stað þess að endursegja fræðigrein eftir, Torfa Tulinius? Ég man það ekki. Eftir því sem ég best veit les hinn kennarinn minn, Bergdís, þessa síðu líka og veit væntanlega að ég er að fara. Svo ég vona að hún verði eins umburðarlynd þótt ég hafi misst af fyrsta tímanum í fyrradag.

Ástæða þess er að ég hef ekki getað sofið þrjár nætur í röð. Ég þó pyntaði mig til að fara á fætur í dag og tókst að skríða framúr klukkan hálfeitt. Vonandi verður það til þess að ég geti sofnað fyrr í kvöld. Þá er bara að ganga endanlega frá sjálfsnáminu við skrifstofuna svo ég vona að ég verði eitthvað nettengdur á væntanlegu ferðalagi. Ég er þegar búinn að velja mér ritgerðarefni sem ég hlakka mjög til að tækla: Spatial and liminal differences between ghosts, monsters and the other in Sagas and Þættir of Icelanders.

Ég hafði að vísu enga hugmynd um hvað ég vildi skrifa fyrr en í strætó í dag, þá laust í mig þessari hugmynd (ekki það að farþegarnir hafi verið svona draugalegir þó). Það er líka ansi freistandi að tengja þetta við Fornaldarsögur í framhjáhlaupi en það væri eflaust að bera í bakkafullan lækinn. Þar er líka ólíku saman að jafna þótt af nógu sé að taka. En ég hef þegar lesið yfrið margt um þetta efni og hlakka til að lesa meira, og endurnýja kynnin við Þórólf bægifót og púka Þorsteins skelks.

Lærdómur síðastliðinna fjögurra vikna er að iðjuleysi gerir mig geðvondan. Ég hef ekki verið iðjulaus í fjögur ár fram að þessu og það venst illa. Kannski er ég bara ekki týpan sem tekur sér frí.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *