Hálflesin Calvin & Hobbes, og drullusokkur sem lekur frá yfir allt gólf. Lyktin leynir sér ekki. Svona er að búa í húsi með gömlum pípulögnum. Ég vatt mér á næsta bás. Að vísu eru þeir til sem áttu verri aðkomu að baðherbergi en létu það ekki aftra sér, að ónefndri fyrrum nágrannakonu minni í Gellerup sem fékk rottu uppúr klósettinu meðan á notkun stóð. Það voru að sögn heljarinnar slagsmál. Ekkert sem klósettbursti vann ekki sigur á að lokum þó.
Í annars viðburðaslitlu hversdagslífi er margt sem bíður handan veggja baðherbergisins. Einkunnir fyrir tvær rannsóknir bíða birtingar, þaðan í frá mun ég sjá til hvort a.m.k. önnur þeirra sé birtingarhæf í ritrýndu tímariti. Próf hefjast svo á morgun. Eftir þá törn bíður mín það verkefni að sækja um doktorsnám hér í Árósum. Ég hef um 7 vikur til að formúlera umsóknina og rökstyðja að rannsóknarefnið sé algjörlega peninganna virði.
Önnin fer í öllu falli að hefjast og sumarplönin eru farin að verða til: miðju sumri ver ég annaðhvort í Uppsölum eða á handritanámskeiði í Kaupmannahöfn, og í ágúst er námskeið í fornleifafræði hérna í Árósum. Það ætti að tryggja mér sumartekjurnar ef ég verð spar á peningana. Ferðin til Indlands, Nepal og Bútan sem við nokkrir vitleysingarnir hérna plönuðum virðist því ekki alveg vera í myndinni sem stendur. Hver þarf enda norðanverðan Indíaskaga þegar næg ævintýri bíða inni á baðherbergi?