Nú þykir ýmsum sem blikur séu á lofti í dönskum stjórnmálum og að sá möguleiki sé nú fyrir hendi að vinstristjórn verði mynduð að kosningum loknum. Búist er við því að Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, boði senn til kosninga og að þær verði haldnar í vor fremur en síðar á árinu, sem jafnframt væri taktískt besta útkoman fyrir laskaða ríkisstjórnina sem vandséð er hvort lifað gæti fram á haust.
Einsog ég hef getið í fyrri pistlum mínum samanstendur ríkisstjórnin af Venstre og Konservative Folkeparti, með Dansk Folkeparti sem hækju – sem aftur hafa óspart nýtt sér oddasæti sitt til að troða ýmsum umdeildum málum gegnum þingið. Eftirmaður Lene Espersen í formannssæti Konservative, Lars Barfoed, lýsti hinsvegar nýverið yfir að flokkurinn myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum starfa með DF að loknum kosningum. Í sama streng tók Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre, og bætti við að hann væri í engum vafa um að stjórnin stæði eftir sem áður sterk eftir kosningar án stuðnings DF.
Nú hefur Løkke hingað til ekki verið reyndur að mikilli athyglisgáfu, nema þess þá heldur að um innihaldslaust skrum sé að ræða. Fólk getur sjálft gert upp við sig hvor möguleikinn er líklegri, en hitt er dagljóst að þessi draumaríkisstjórn þeirra nafna mun ekki líta dagsins ljós einsog staðan er orðin.
Þótt áreiðanlega megi rekja lengri aðdraganda að tilvistarkreppu ríkisstjórnarinnar mætti segja að vandræðin hafi hafist þegar fyrrum flokksformaður Konservative, Lene Espersen, neyddist til að biðjast afsökunar á því að hafa tekið fjölskyldufrí á Mallorca framyfir fund með ráðherrum Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands og Rússlands síðastliðið sumar, þar sem rædd var framtíð, landhelgi og skipting á því hafsvæði sem nú er að opnast í norðurheimskauti – málefni sem skiptir Grænland og þar með Danmörku gríðarlegu máli, ekki síst vegna olíuhagsmuna.
Ekki leið á löngu áður en spjótin beindust aftur að Espersen fyrir að hafa blákalt logið að þinginu til að breiða yfir grímulausa spillingu forvera síns í embætti heilbrigðisráðherra, Lars nokkurs Løkke, núverandi forsætisráðherra. Løkke, sem aðeins örfáum mánuðum áður hafði varið Espersen gagnrýni, lýsti þá yfir að sér þætti Espersen bera skyldu til að biðja þingið afsökunar – þótt ekki væri þetta smámál nú afsagnarsök. Þegjandi og hljóðalaust tók hún upp hanskann fyrir Løkke, afsakaði sig að endingu fyrir þinginu og lét gera sig að blóraböggli í einu stærsta spillingarmáli Danmerkur á síðasta áratug.
Þrautagöngu Lene Espersen var þó ekki lokið. Í desemberlok kallaði Løkke hana á fund án samráðs við þingflokkana þar sem þau sættust á efnisatriði frumvarps hans um afnám eftirlauna og hækkun lífeyrisaldurs. Þingflokkur Konservative varð snarhoppandi brjálaður þar sem frumvarpið, sem í fyrsta lagið samrýmist ekki stefnu flokksins að þeirra sögn (um það má efast), var í öðru lagi samþykkt án samráðs við samstarfsflokkinn af formanni sem í þriðja lagi hafði ekkert umboð frá sínu baklandi. Afsagnar hennar var krafist, og því varð hún við. Þannig tókst Løkke að spila á Espersen einsog hörpu trekk í trekk í glæsilega fléttuðum spuna til að dreifa athyglinni frá eigin flokki yfir á samstarfsflokkinn; meðan ófá hneykslismál hafa skekið Konservative undanfarið ár ætlar Venstre að komast undan vetri með nokkuð hreinan skjöld, jafntíðis því að þeirra umdeildustu mál ætla að verða að veruleika. Stríðsyfirlýsing verkalýðshreyfingarinnar á hendur Løkke vegna eftirlaunafrumvarpsins virðist hafa koðnað niður í fæðingu, og það er von hans að sú gagnrýni sem hann verður fyrir vegna þess muni verða gleymd þegar líður að kosningum.
Nýr flokksformaður Konservative, Lars Barfoed, er aftur hæstánægðursjálfsagt með sína stöðu við hásæti nafna síns – en hann á eftir að vinna sér inn traust samflokksmanna sinna sem margir hverjir eru æfir, svo bakland formannsins er eftir sem áður óljóst. Þeirri atburðarás sem nú hefur verið hrint í gang verður nefnilega ekki auðveldlega beint inn á beinni brautir. Nýverið varð þingflokkur Konservativetil dæmis allt í einu einhuga um að andmæla harðneskju stigakerfisins sem Venstre leiddi í lög og vill nú breyta því svo þúsundum verði ekki vísað úr landi að ósekju, á „ómanneskjulegum grundvelli“ einsog það var orðað. Venstre undra sig á gagnrýninni og harðneita að breyta kerfinu, jafnvel þótt það þýði að fólki sem búið hefur í Danmörku í áraraðir verði nú gert að yfirgefa landið hið snarasta.
Meðan ljóst er að samstarfsflokkur Venstre styður nú ekki tvö umfangsmestu málefni ríkisstjórnarinnar á þessum vetri að óbreyttu, hugsa vinstriflokkarnir sér gott til glóðarinnar. Sosialistisk Folkeparti og Socialdemokraterne eru þegar farin að gera með sér málefnaskrá og Enhedslisten fylgir þeim eftir með nauðsynlegu aðhaldi. Á feminískum grundvelli hyggjast SF og S til að mynda leggja bann við vændi og nektardansstöðum, einnig þar sem þeim þykir sýnt að núverandi löggjöf sé öll á kostnað kvenna í neyð og geri þar með ekkert til að draga úr vandamálinu. Þá hafa flokkarnir kynnt tillögur sínar í skattamálum, sem Enhedslisten krefst breytinga á ef koma eigi til stuðnings þeirra á þingi. Þá hugsar hinn kaldhæðnislega nefndi hægri-við-miðjuflokkur Radikale Venstre sér gott til glóðarinnar einnig og gerir nú hosur sínar grænar fyrir Sósíaldemókrötum sérstaklega.
Ef við treystum stjórnmálamönnum fyrir eigin afstöðu mætti draga upp myndina af pólitíska landslaginu þannig, einsog sakir standa, að aðeins einn möguleiki sé á hægristjórn eftir kosningar: draumastjórn Larsanna tveggja, Konservative Folkeparti og Venstre. Sú stjórn verður þó áreiðanlega aldrei mynduð nema með stuðningi eða aðild Dansk Folkeparti, eða flokka á borð við Radikale Venstre sem gætu í anda slíkra framsóknarflokka vel sveiflast langt inn á hægri vænginn. Möguleikar á stjórnarmyndun á vinstri vængnum eru fleiri: Socialdemokraterne og Socialistisk Folkeparti, með stuðningi eða aðild Enhedslisten annarsvegar, eða Radikale Venstre hinsvegar – þar sem fyrrnefndi neitar að starfa með síðarnefnda. Þá neita allir vinstriflokkarnir sömuleiðis að starfa með DF. Auk þessa benda sumir á hina ýmsu smáflokka sem mögulegar hækjur, en það held ég að fáum muni lítast sá kostur vel að mynda veikburða fjölflokkastjórn.
Þótt blikur séu nú á lofti og vel megi hugsa sér að samstarf náist á vinstri vængnum eru þó enn margir sem hrista hausinn yfir bjartsýninni. Hafi núverandi stjórnarflokkar þá möguleika eina að gefa eftir eða halda völdum með hjálp nasistanna í Dansk Folkeparti, þá muni þeir að sjálfsögðu svíkja loforðið og hoppa í sæng með nasistunum. Það kann því sitthvað að vera til í þeim orðum Piu Kjærsgaard, formanni DF, þegar hún aðspurð hleypti í brýn og svaraði því til að það væri ekki undir stjórnarflokkunum komið hvort DF tæki þátt í ríkisstjórn eða ekki – þangað færu þau nú bara samt, hvort sem samstarfsflokkunum litist það betur eða verr!
Það sýnist mér í öllu falli munu verða tilfellið ef hér verður áfram hægristjórn við lýði að völd Piu Kjærsgaard muni færast í aukana, svo ábyrgð kjósenda er síst minni nú á þessum tímamótum en áður. Stærsti möguleikinn á vinstrivængnum kann svo aftur að verða þriggja flokka stjórn Sósíaldemókrata, SF og annaðhvort Radikale Venstre eða Enhedslisten. Enn er þó fullsnemmt að spá fyrir um framvindu mála þar sem hið pólitíska landslag er síbreytilegt milli vikna og fylgið rokkar milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu. Miklar vonir eru bundnar innan Konservative við nýjan flokksformann og standa þær helst til að hann nái að rífa upp fylgið eftir stormasamt kjörtímabil og leiti aftur í gömlu gildi flokksins – burt frá þeirri hugsjónasölu sem farið hefur fram undanfarin ár. Hann, ásamt Løkke, á þó við ramman reip að draga þar sem báðir tóku við embætti á miðju kjörtímabili, og hefur hvorugur því nokkurt umboð kjósenda flokkanna til forystu innan ríkisstjórnarinnar.
Nú fá kjósendur á hinn bóginn loksins tækifæri til að leiðrétta þann óskapnað núverandi ríkisstjórnar sem áður var danska velferðarkerfið. Enn getur brugðið til beggja vona, en enda þótt erfitt sé að segja til um hvernig fer að endingu er þó ljóst að kosningarnar í vor verða með áhugaverðasta móti, og að fréttaritari Smugunnar í Danmörku verður að sjálfsögðu með puttann á púlsinum.
Birtist fyrst á Smugunni þann 17. febrúar 2011.