Skot í fótinn

Reglurnar í Árósaháskóla eru þær að sé tímasókn skikkanleg (75% eða meiri) fá nemendur sjálfir að velja sér prófspurningu, en að öðrum kosti er efnið valið fyrir þá. Misjafnt er svo hvernig prófað er eftir áföngum, ýmist munnleg próf, ritgerðir eða hvorttveggja í senn. Áfanginn Norræn goðafræði frá miðöldum til nútímans var af síðastnefndu sortinni, og ýmsir bekkjarfélagar mínir voru mér klókari í undirbúningi fyrir prófið.

Hver og einn átti að skila inn fimm blaðsíðna greinargerð og þá standast munnlega vörn fyrir verkið. Ég hef áður setið slík próf við HÍ og hafði nú engar stórfelldar áhyggjur af þessu, enda hafði ég skrifað um efni sem ég hef talið mig ansi fróðan um: heimildir og fræðilegt gildi þeirra. Þegar ég heyri orðin „munnlegt próf“ geri ég ráð fyrir ákveðnu ferli spurninga og svara sem nemandinn svo er metinn útfrá.

Á fimm blaðsíðum tókst mér að súmmera upp hérumbil hverja einustu heimild sem til er um norræna goðafræði, auk kosta þeirra og galla í fræðilegu tilliti. Þegar ég svo fór að gera grein fyrir þessu í prófinu gekk ég í retóríska bjarnargildru. Hún virkaði nokkurn veginn svona:

Ég fullyrði að engin varðveitt heimild sé æðri annarri, og að við þurfum að taka þær allar til greina. Það felur í sér að ég hafna því að unnt sé að rannsaka norræna goðafræði án þess að taka hverja einustu heimild sem við á, eftir tilfellum, til greina. Þær heimildir fela í sér ritaðar heimildir, á bókfelli og klappaðar í stein, frá fjölbreyttustu tímabilum (allt frá Gallastríðum Sesars til íslenskra sagna), auk örnefna og fornleifa – svona í grófum dráttum. Ómögulega er unnt að taka fornleifar til greina nema á forsendum fornleifafræðilegrar aðferðafræði.

Án þess að þessi, eftir á að hyggja augljósa, keðja orsaka og afleiðinga væri orðuð kom óhjákvæmilega spurningin:

„Þú segir að þverfagleg vinnubrögð séu nauðsynleg. Geturðu nefnt okkur dæmi um hvernig slík vinnubrögð skila okkur betri niðurstöðu?“

Þar lá hnífurinn í kúnni: það fyrirfinnst varla nokkur einasti fræðimaður á þessu sviði sem ástundar þverfagleg vinnubrögð, ef nokkur yfirhöfuð, svo það var ekki úr mörgum dæmum að velja. Einhver dæmi hefði ég ef til vill haft frá sjálfum mér ef ég stundaði ekki alfarið sagnarannsóknir utan kennslustofunnar, svo ég vissi ekki beinlínis hvar ég ætti að byrja.

Þegar ég svo hafði málað mig endanlega útí horn var dómurinn sá að ég hefði sýnt af mér tilkomumikla þekkingu á efninu, en ekki að ég kynni að beita henni til neins. Ég var gjörsamlega jarðaður.

Þegar ég svo gekk út mætti ég Kananum í bekknum. Hann hafði samið heilan fyrirlestur og glærusýningu. Algjörlega brilljant lausn sem ég vissi ekki einu sinni að væri leyfileg. En reglurnar segja víst að þótt meistaranemar megi ekki hafa með sér glósur í munnleg próf, þá séu vissar undantekningar á því – til dæmis ef maður er með glærusýningu!

Lexían er þá væntanlega sú að maður á aldrei að ganga að neinu sem vísu. Sú lexía kemur raunar helst til seint. Það eru engin önnur munnleg próf eftir á mínum námsferli.

Það sem rotið er í Danaveldi

Frá því ég hóf að skrifa fréttaskýringar og greinar með misjöfnu millibili á Smuguna hafa ýmsir orðið til að segja mér að, burtséð frá efni greinanna að öðru leyti, hafi ég í öllu falli sannfært þá um að flytja aldrei til Danmerkur. Ég hef ekki tölu á hversu oft viðmælendur mínir hafa vitnað í Hamlet þegar ég tjái mig um málefni Danmerkur, sbr. titil greinarinnar. Markmiðið með skrifunum hefur öðrum þræði verið að benda á þau baráttumál sem fyrirfinnast í pólitík í Danmörku, til að mögulega opna augu lesenda fyrir þeim gríðarlega mun milli orðræðunnar hér og heima, og ef til vill í leiðinni hefur þeim verið ætlað að vera víti til varnaðar.

Alstaðar í Evrópu sækja hægriöfgamenn í sig veðrið, köllum þá bara nasista – það er það eina heiðarlega sem hægt er að segja um þetta lið – og það er ekki loku fyrir það skotið að þessi fjöldahreyfing fordóma og fávisku nái að skjóta rótum á Íslandi líka áður en langt um líður. Gegn því þarf að berjast, og mín skrif hafa helst verið stiklur úr baráttunni hérnamegin Atlantshafsins. En hvað sem líður markmiði þessara skrifa minna gæti það orðið vinum mínum erfitt ef ekki ómögulegt að flytja hingað innan skamms, í ljósi nýjustu tíðinda héðan.

Fyrir nokkru kynntu stjórnvöld áform sín um að auka eftirlit við Eyrarsundsbrúna sem liggur milli Kaupmannahafnar og Malmö. Engin tilraun var gerð til að dylja markmiðið með þessu, það er að segja, að stemma stigu við fólksflutningum þeirra sem ekki hafa norrænt yfirbragð, frá Svíþjóð. Þetta fannst ráðherrum góð hugmynd að segja opinberlega, og það má alveg virða það við Lars, Lars og Lene í Kristjánsborg að þau eru ekkert að skafa ofan af mannfyrirlitningunni, kannski ekki á svipaðan hátt og við sláum okkur á lær þegar við sjáum kött sem lítur út einsog Hitler, en kannski ekki svo langt frá því heldur. Í öllu falli minnir þetta ekki á síður á Hitler en köttur með „óheppilegan lit á feldinum“. Svona talandi um óheppilega liti.

Stjórnvöld eru þess fullviss um að hert eftirlit við ekki aðeins Eyrarsund, heldur á grensunni líka, þ.e. við Þýskaland (sem skyndilega datt í umræðuna eftir að allir höfðu annað hvort sætt sig við eða gleymt því að loka ætti á þessa leiðinlegu Svía og þeirra sjaríaóðu kebabsala), standist reglugerðir Schengen. Evrópusambandið er ekki alveg á því enda er Schengen ekki sjálfstæð eining frá sambandinu sjálfu, og landamæraeftirlit innan sambandsins stenst ekki reglugerðir þess burtséð frá mögulegum formgöllum Schengensamkomulagsins. Ekki að ég yfirhöfuð nenni að fara út í einhverjar tæknilegar ástæður þess að þetta er rangt – þetta er kolrangt, ógeðslegt og mannfjandsamlegt hvað sem Schengen og Evrópusambandinu líður. Hinsvegar gæti þetta orðið til þess að Danmörk hreinlega missi stöðu sína innan sambandsins og verði þvinguð út í horn. En þá yrði markmiðinu aðeins endanlega náð: Danmörk vill loka sig af frá restinni af Evrópu. Ef dönsk stjórnvöld fá ekki allar þær undanþágur sem þau vilja fá frá alþjóðalögum og þjóðasáttmálum, þá má restin fara andskotans til fyrir þeim. Þá geta þau sinnt sínum hreinsunum í friði.

Nei, mergurinn málsins er nefnilega sá að það skiptir engu máli fyrir þá sem brjóta skal á hvort það standist einhverja samninga eða reglugerðir einhverra bjúrókrata í Brüssel. En það kaldhæðna er að ekkert af þessu er gjörningur danskra stjórnvalda sem slíkra, heldur hækjunnar þeirra í Danska þjóðarflokknum (lesist: nasistaflokknum). Það eru ekki bara Lars, Lars og Lene sem standa fyrir þessum óskapnaði, eða nýi innflytjendaráðherrann (já, innflytjendaráðherrann) Søren Pind, sem einmitt lýsti því yfir tveim dögum eftir embættistöku að hann væri þreyttur á þessu bulli um aðlögun (integration), nú væri kominn tími á samlögun (assimilation). Sannarlega er ekki skafið ofan af ógeðinu í orðræðu þessara ágætu stjórnmálamanna, en þeirra ógeðfelldustu gjörningar komast þó fyrst og fremst í gegn fyrir sakir markaðstorgs hugsjónanna, sem nasistarnir sem bjarga þeim frá falli eru duglegir að nýta sér. Þar ganga hagsmunamálin kaupum og sölum og Pia Kjærsgaard er í raun eina ástæða þess að loka á landamærum Danmerkur enn frekar, einsog það sem hingað til hefur verið gert sé ekki nóg til að hrekja burt fólk og halda öðrum fjarri (sjá fyrri pistla mína um efnið). Þessu verður hrundið í framkvæmd á næstu tveim til þrem vikum.

Nokkru áður en þetta mál komst í hámæli ferðaðist vinur minn frá Amsterdam að hitta mig í Árósum. Lestin var stöðvuð við landamæri Þýskalands og Danmerkur og var svört kona með tvö börn sérstaklega tekin fyrir. Hún hafði ekki vegabréf og sagði vörðunum að hún væri á leið til Noregs, og tolleftirlit Þýskalands hefði sagt henni að hún þyrfti ekkert vegabréf vegna Schengensamkomulagsins. Það stóð ekki á svari hjá dönsku landamæravörðunum: „Þetta er ekki Þýskaland, nú ertu í Danmörku,“ og var henni með því vísað úr lestinni.

Já, það er kannski innistæða fyrir þessari síendurteknu klisju að eitthvað sé rotið í Danaveldi, og stjórnvöld eru of mikið samansafn ræfla til að sporna við uppgangi nasistanna – og fá bágt fyrir frá stjórnarandstöðunni, sem ég raunar fæ ekki séð að sé hótinu betri. Einsog stjórnmálamönnum í krísu er einum lagið hefur ríkisstjórnin auk þess ákveðið að halda kosningarnar í haust fremur en í vor, enda þótt yfirlýst markmið þeirra í upphafi síðasta kjörtímabils hafi verið að halda þær um vorið. Nema Danmörk sökkvi enn dýpra í ormagryfjuna leyfi ég mér að vona að þá standi ekki á reikningsskilum þessarar ógeðfelldu hugmyndafræði hér í landi. Miðað við uppgang nasistaflokka hér og í Svíþjóð, í Noregi, Finnlandi og Hollandi, Þýskalandi og Frakklandi, er ég þó mögulega að gera mér upp von um réttlátt samfélag öllum til handa sem þrá það eitt helst að lifa í friði. Það er erfitt að leyfa sér að vona undir þessum kringumstæðum.

Ef ekki verður spornað við misyfirlýstum nasisma í Evrópu óttast ég að þetta leiði til tilgangslausra átaka um þjóðernishópa, trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir og landfesti. Ekki tel ég mig eiga Landspítalann þótt ég hafi fæðst þar, og reyni þaðanafsíður að girða hann af og sparka út þeim börnum sem þar fæðast sem ekki eru „norræn“ í útliti, en það mætti kannski að ósekju spyrja forsætisráðherra hvort slíkur gjörningur samræmdist stefnu stjórnarinnar. Í öllu falli nægir henni ekki að Evrópusambandið treysti ytri landamæri sín til að halda hinum „óæskilegu“ frá, heldur stefnir hún nú ljóst að því að treysta sín eigin til að endanlega verða eyland innan hins stærra eylands: ein þjóð, eitt ríki, ein Pia.

Nú fullyrði ég að þeir sem kalla nasista „þjóðernissinna“ séu óþarflega kurteisir í orðavali, enda skuli kalla þá sínu rétta nafni: nasista. Það þarf ekki mikið hugvit til að sjá hliðstæðurnar við blóði drifna sögu 20. aldarinnar. Það verður að berjast gegn þeim sem reyna leynt og ljóst að drepa öllu sem er gott og fallegt í heiminum á dreif með viðbjóðslegum hatursáróðri. Pia Kjærsgaard er nasisti, og þótt hún viðurkenni það ekki í orði tala verkin sínu máli. Geert Wilder er nasisti. Perus Jussi er nasisti. Svíþjóðardemókratarnir er nasistaflokkur. Oddviti þeirra í Malmö skar hakakross í enni sér á síðasta ári og kenndi múslimum um, þótt réttarlæknir segði augljóst að hann hefði veitt sér áverkana sjálfur. Þá höfum við líka fengið einstaka nasista inn á þing á Íslandi, sem ég nafngreini ekki, af því það er skemmtilegra að vera ekki kærður af vissum hæstaréttarlögmönnum fyrir ærumeiðingar, þótt ekki sé nú mikilli æru fyrir að fara þar á bæ. Nasistar flögguðu einnig á Austurvelli í mótmælum á síðasta ári, en voru snarlega stöðvaðir af grandvörum mótmælendum sem létu ekki bjóða sér hvað sem er. Blessunarlega.

Allar hugmyndir um sérstaka norræna menningu og sérstakt norrænt yfirbragð eru nasískar – slíkar hugmyndir voru grundvöllur hugmyndafræði tiltekins dvergvaxins Austurríkismanns með stórar ambisjónir (um hann lásum við í sögubókum, en virðumst mörg hver hafa gleymt því fyrir hvaða hugmyndafræði hann stóð). Allt það sem beinist á einhvern hátt frá skilgreindri miðju gegn tilgreindum eða ótilgreindum jaðar er fasismi – það sem snýst upp í „þau“ á móti „okkur“, og sértu ekki með „okkur“ þá ertu með „þeim“. Þau sem kaupa slíka tvíhyggju eru kannski ekki fasistar sjálf, en þau hafa það í sér að verða það.

Í Danmörku ríkir nasistaflokkur sem er ekki einu sinni í ríkisstjórn, og það sættir ríkisstjórnin sig við svo hún geti haldið völdum, enda þótt hún komi engum málum í gegn án þess að selja sálu sína í staðinn. Slík eru áhrif hötuðustu hugmyndafræði veraldarsögunnar sem fólk rífur nú af útsölurekkunum ofan í innkaupakörfurnar einsog nýju fötin keisarans, blint á að það sem er að gerast núna í Evrópu hefur sannarlega gerst áður. Og það verður með engum öðrum orðum lýst en ég hef gert í þessum pistli: þetta eru nasistar. Nasistar sem íbúar Evrópu hlaða nú atkvæðum, ómeðvitaðir um að dómur sögunnar er löngu fallinn.

Nasistar stýra Danmörku, og að segja það rotið er kannski ekki verri leið til að lýsa því en hver önnur. Það má þó leyfa sér að vona að Íslendingar sjái gegnum slíkan hatursboðskap í framtíðinni. En hvort sú von eigi sér innistæðu verður tíminn að leiða í ljós.

Birtist fyrst á Smugunni þann 15. maí 2011.

Næstu vikur og mánuðir

Mörg eru umhugsunarefnin á næstu vikum og mánuðum, en aðalatriðið er að hafa ekki miklar áhyggjur. Í lok næsta mánaðar mun það vonandi hafa skýrst hvar ég kem til með að búa eftir að samningurinn minn hér rennur út. Um svipað leyti kemur í ljós hvort ég muni yfirhöfuð búa í Danmörku eftir áramót.

Svo það má segja að öll mín tilvera rambi meira eða minna á barmi sömu mánaðamóta – bæði nám mitt og heimili. Og hvað tekur við á þeim tímamótum er háð mörgum breytum. Auk þess sem ég get leyft mér að gera.

Í nóvember er mér boðið í brúðkaup vinar míns á Indlandi. Það er boð sem ég held ég geti ómögulega hafnað (hann var auk þess búinn að lofa að sýna mér Tíbet og Bútan í leiðinni). Og í desember er þjóðfræðiráðstefna í Tartu í Eistlandi sem ég vil fyrir alla muni sækja, auk þess að ég þarf að skila af mér meistararitgerð um það leyti.

Hvort hún verður hluti af stærra verkefni hér og nú eða síðar og annarsstaðar kemur í ljós í júní. Svo það er margt sem leitar á hugann um þessar mundir. En ef ekkert fer eftir áætlun finn ég útúr því þegar þar að kemur, jafnvel þótt það þýði atvinnuleit á Íslandi meðan ég sæki um annarsstaðar.

Ögn úr hversdagslífinu

Ég bý milli tveggja einna mestu umferðaræða borgarinnar. Gatan sem húsið mitt liggur við gengur alla leið niður í bæ beinustu leið framhjá einu stærsta markaðstorgi Árósa á fyrri árum, Vesterbro Torv, og að Ráðhústorginu sem liggur steinsnar frá lestarstöðinni, en sé haldið enn lengra áfram götuna endar maður við umferðarmiðstöðina, sem ég nota mikið. Það er sannarlega þægilegt að geta hjólað niður eina götu og komist allra sinna ferða innan Danmerkur. Sé farið upp götuna endar maður á svonefndu Stjörnutorgi þar sem ég hef bankaþjónustu og þurrhreinsun. Það er því engin ástæða til að yfirgefa hverfið í raun.

Handan götunnar liggur Superkiosken. Hún er að vísu ekkert súper miðað við vöruúrval, en ég versla þar mikið. Eigendurnir eru Írakar og eru alræmdir fyrir að hundleiðast sjoppan og þeir sem versla þar, horfa ekki í augun á fólkinu sem þeir afgreiða og vera almennt tíkarlegir. Þetta er mikill misskilningur raunar, þeim er bara drullusama um fólk sem verslar þar einu sinni og kemur kannski aldrei aftur. Venji maður komur sínar þangað fær maður aftur á móti skemmtilegt spjall með innkaupunum, milli þess sem þeir lauma inn afslætti á verðinu og aukafalafel í pokann. Þegar ég versla þar um helgar tíni ég bjórana beint í pokann og segi þeim hversu marga ég er með, enda treysta þeir sínum fastakúnnum, og það þarf ekki að biðja þá um sígarettur, þeir leggja pakkann bara á borðið enda vita þeir hvaða tegund ég reyki. Svona eru nú múslímar mikil helvítis óargadýr.

Ef við hinsvegar snúum okkur aðeins að vestrænni hnignun þá þykir mér sýnt að eitístískan sé búin að hasla sér völl á nýjan leik. Það sannfærðist ég endanlega um í dag þegar ég sá lifandi eftirmynd Rick Astley ganga niður götuna með uppbrettar ermarnar á beislita frakkanum sínum. Hér ganga orðið allir um með uppbrettar ermar á of víðum yfirhöfnum, og í of víðum buxum, með undarlegar uppahárgreiðslur í merkilegum litasamsetningum. Yfirvaraskegg virðast komin í tísku aftur sem og of stór gleraugu. Mér sýnist með öðrum orðum að kynslóð foreldra minna sé þarna loksins að fá uppreisn æru.

Annars ver ég dögunum mest á hjólinu með nýja fína hattinn minn milli þess sem ég rannsaka skrímsli og viðlíka skemmtilegheit. Hattar virðast einnig komnir í tísku aftur sem að sjálfsögðu er fagnaðarefni. Ég myndi birta mynd af mér við minnismerki Margrétar I. Valdimarsdóttur drottningar (1353 – 1412), en einsog það var hallærislegt að standa þar með macbókina að taka sjálfsmynd þá varð útkoman ennþá verri.

Þeim sem áttu von á skemmtilegri bloggfærslu er bent á að fylgjast með Smugunni næstu daga þar sem ég mun fara mikinn. Engin ástæða til að fara mikinn hérna þegar ég get farið mikinn þar.