The truth is out there

Um daginn – lesist fyrir uþb þrem vikum eða mánuði – leiddist mér nógu mikið til að þræla mér gegnum kvikmyndina The Arrival með Charlie winning Sheen. Í miðri myndinni kynnist hann loksins aðalaukapersónunni sem áhorfandinn hafði fengið að fylgjast með inná milli. Hann neitar henni um kynlíf og svo bara sisvona er hún stungin til dauða af sporðdrekum sem földu sig undir rúmlakinu hennar.

Ef til vill liggur dulinn boðskapur þarna einhversstaðar milli línanna um hættur skyndikynna og gildi þess að spara kynlífið fyrir hjónabandið. Það hnussaði í mér. Hver tæki ekki eftir tugum sporðdreka í litlu hótelherbergi? Tveim vikum síðar, eða þar um bil, var ég bitinn af könguló í eigin herbergi. Í fótinn, rétt einsog konan í myndinni, nánar tiltekið tvisvar í hásinina.

Það sem hófst sem óskemmtileg og nokkuð sjokkerandi lífsreynsla – köngulær bíta jú fjandakornið ekki – endaði sem farsi þegar ég í Kaupmannahöfn daginn eftir var orðinn svo stokkbólginn að ég gat varla gengið og vinir mínir húrruðu mér útá Amager Hospital um miðja nótt til stífkrampasprautunar og inntöku ofnæmislyfja – dauðadrukknir, skálandi við hjúkkurnar á göngunum. Í fyrradag var ég svo bitinn aftur, í andlitið, en það var þó líkast til bitmý. Annar vinur minn var bitinn í olnbogann af ókenndri skepnu fyrir um 10 dögum og það hefur ekki jafnað sig enn.

Við heimkomu til Árósa í dag fannst mér við hæfi að opna út á svalir til að lofta út. Fyrr en varði voru komnar inn fleiri veiðiköngulær og bitmý, sem ég í nýfundinni hysteríu slátraði hverju á fætur öðru. Ég heyri þó útundan mér að fleiri köngulær ganga lausar hér um herbergið – þær eru nógu stórar til þess að hægt sé að heyra í þeim, en ég er ráðalaus til aðgerða gagnvart þeim þar sem erfitt er að ganga á hljóðið. Það verður þá bara að fara sem verða vill.

En það má ef til vill spyrja sig hvort boðskapur The Arrival hafi óvænt reynst annar en til stóð; það eru ekki geimverur sem við þurfum að óttast, einsog myndin vill gefa í skyn, heldur aðrar og hversdagslegri ógnir – geimverurnar eru duldar í myndinni, en hin raunverulegu skrímsli ekki. Það má hlæja að manneskju sem sér ekki sporðdreka í tugavís á viftunni, ljósakrónunni, vaskinum, rúminu og gólfinu í tiltölulega auðu herbergi, en í raun erum við sófaspekingarnir kannski engu skárri: við sjáum ekki ógnina í okkar nánasta umhverfi. Svo kannski mætti þrátt fyrir allt segja um þessa mynd að the truth is out there.

Eftirmáli til gamans
Í umræddri Kaupmannahafnarferð enduðu þrír á slysó með tveggja daga millibili, einn eftir köngulóarbit og hinir tveir eftir barsmíðar á Holmbladsgade, skömmu eftir að ég yfirgaf þá á Jagúarnum til að fylgja fjórða heim. Einn var handtekinn fyrir bjórstuld úr lest en var að lokum sleppt. Einn var steggjaður á Aquatónleikum í Tívolí. Einn varð óforvarendis einhleypur. Annar komst á séns. Einn varð svo óléttur komumst við að. Allt í allt fremur viðburðaríkir 12 dagar.

4 thoughts on “The truth is out there”

  1. Þetta var hrollvekjandi lesning. Hvernig köngulær eru það eiginlega sem bíta svona í Danmörku? Veistu hvaða tegund þetta er? Myndir?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *