Þrautagangan

Lesendur Bloggsins um veginn ættu að kannast við að ég hef ekki beinlínis átt sjö dagana sæla í Danmörku. Nú er sú dvöl á enda runnin, með sérdeilis viðeigandi hætti líka sé tillit tekið til allra þeirra erfiðleika sem ég hef átt við að etja síðan ég flutti fyrir rúmu ári.

Fyrsta íbúðin mín var ógeðsleg, nær óíbúðarhæf, og á versta mögulega stað. Á endanum var ég varla fáanlegur útúr húsi fyrir þunglyndi, hékk bara þarna og lét mér líða illa. Meðan ég bjó þar lauk gríðarstórum kafla í mínu persónulega lífi, og við bættist að ég fékk ekki að halda jól einsog aðrir. Jólamaturinn var bjór og einhver bakkelsisviðbjóður í Kristjaníu, en alla aðra daga fram að áramótum vann ég að rannsóknum.

Með naumindum tókst mér að flytja eftir að ég var skilinn eftir lyklalaus með búslóðina bakvið læsta girðingu, og það kostaði mig um 23.000 krónur fyrir 40 mínútna vinnu. Undir eins og ég var fluttur á betri stað tók við þriggja mánaða vinna sem skilaði mér litlu nema reynslunni, og svo fór allt í köku þegar kom að prófunum. Ég er enn að glíma við afleiðingar þess þar sem ég fæ ekki allar einingarnar sem ég lauk vegna einhvers formsatriðis sem klúðraðist í meðförum starfsmanna skólans.

Tvisvar í sumar var mér húrrað upp á slysadeild. Á mér hvílir óskiljanleg krafa vegna einhverrar internettengingar sem ég fyrir lifandis löngu sagði upp. Að ótöldu tekjuleysi síðasta spottann og því að allir vinir mínir eru fluttir burt frá Árósum að einum undantöldum. Svo fékk ég þau tíðindi í gær að ég fái ekki íbúðina sem mér hafði verið lofað, og ekki tjóir að búa á götunni meðan maður skrifar mastersritgerð. Það er ekki smuga að ég fái aðra íbúð með þessum fyrirvara, svo ég er að koma heim til að skrifa ritgerðina.

Ekki bætir úr skák að ég er að sjálfsögðu heimilislaus á Íslandi líka og nýbúinn að selja bílinn minn. En það er þó betra að vera heimilislaus í eigin landi en öðru. Eins mikið og ég elska Árósa þá var dvölin orðin ansi þrúgandi, enda var ég aleinn nánast 8 mánuði samfleytt, sem er ekkert gaman þótt maður að vísu afkasti miklu þannig.

Áætlun næstu daga er eftir tilefni sérlega áhugaverð. Ég held til Danmerkur í fyrramálið og flyt eigur mínar með fulltingi Jakobs vinar míns heim til hans, þar sem hann er svo ljúfur að leyfa mér að breyta fínu stofunni sinni í geymslu. Þar gisti ég uns ég svo held aftur utan og í þetta sinn til Ítalíu. Þaðan svo aftur til Árósa að fjarlægja lagerinn af heimili Jakobs og afhenda Eimskipum. Eftir það veit ég ekki hvað verður um mig, en mig grunar þó að ég eigi í ýmis góð hús að venda meðan ég ræð ráðum mínum um framhaldið.

Af bloggi

Ég var á fjölmennum fundi í gær, sem haldinn var í minningu valinkunns bloggara og vinar. Þar velti Gísli Ásgeirsson því upp að bloggið hefði breyst svo mikið í seinni tíð frá því sem áður var, þegar venjulegar sögur úr hversdagslífinu – væru þær vel sagðar – gátu verið dagleg upplyfting. Þegar fólk kom hreinlega til dyranna einsog það var klætt.

Þegar hann sagði þetta þá uppgötvaði ég skyndilega að ég var staddur nánast á sellufundi þeirra bloggara sem ég hef kynnst smámsaman yfir alnetið, allt frá því ég byrjaði 2003 til dagsins í dag, bloggara sem ég hef kallað vini mína í mörg herrans ár en þó aldrei hitt áður. Gísla má fyrstan nefna. Hann hafði ég aldrei hitt, en þó lesið og tjáð mig við einstaka sinnum í nokkur ár.

Baunina hafði ég aðeins hitt tvisvar áður, þar af eitt skipti þegar mér var boðið á ríkulegt heimili hennar að drekka kaffi. Þar hitti ég Hjálmar líka í fyrsta sinn, sem ég veit raunar ekki hvort bloggi en hafði séð hér og þar á Facebook, og að sjálfsögðu baunarbarnið æskuvinkonu mína Ástu. Betu baun las ég áður en ég vissi að þær væru mæðgur.

Parísardömuna hitti ég í fyrsta sinn í gær líka, svo ég muni altént, þótt persónulegu kynnin væru stutt þar sem ég þurfti að fara. Ef hægt er að kalla þau kynni eitthvað persónulegri en þau sem við höfum átt á netinu. Allt fólkið þarna finnst mér ég þekkja eins vel og mína nánustu. Hildigunnur Rúnars var þarna, og hana hef ég aðeins hitt einu sinni áður – þegar hún flutti Vídalínsstykkið sitt – og svo systir hennar Hallveig sem ég hafði aldrei hitt.

Elías Halldór var þarna, og dóttir hans og vinkona mín Erla. Elíasi kynntist ég fyrst á blogginu en hef þó hitt talsvert oft síðan, og svo eftir að ég kynntist Erlu fór ég að lesa bloggið hennar.

Þarna var líka Þórunn Hrefna, eða Tóta paunk, sem ég þekki einna best, ekki síst í gegnum samstarf við Þórbergssetur. Þá var þarna margt annað fólk sem ég hef kynnst í eigin persónu áður en netvinátta hófst, svosem Drífa, Þorsteinn Vilhjálms, Þorgerður Sigurðardóttir og Gerður Kristný, og svo enn önnur manneskja sem ég aðeins hafði talað við á netinu, Eyja Margrét.

Flestöll kynntumst við í dagsins önn og ekki gegnum einhver merkilegheit, bara með því að vera við sjálf, og leyfa okkur að vera við sjálf opinberlega – á netinu. Öðrum kynntist ég í gegnum pólitík eða ritlist, en flestöllum hefur okkur hreinlega bara litist svo vel hvert á annað að við höfum myndað órjúfanleg tengsl yfir þá dómadagsmaskínu, alnetið.

Einsog Gunnar Hrafn sagði, þá þarf alnetið knúz miklu oftar, því annars breytist það bara í vígvöll. Eftir að Gísli opnaði augu mín fyrir því ennfrekar, hvað vinátta getur verið sterk þrátt fyrir að aldrei hafi maður einu sinni hitt viðkomandi, þá hallast ég ennþá meir að því að gamla bloggið sem eitt sinn við öll stunduðum, sum enn en sum okkar ekki, sé langtum hollari vettvangur skoðanaskipta en þetta argaþras sem stöðugt dynur yfir blogggáttina.

Í einu herbergi voru saman komnar fleiri og fleiri manneskjur sem ég lít á sem vini mína, og enn aðrar manneskjur sem ég hafði aldrei áður hitt. Margir komust ekki þótt viljað hefðu, gamlir bloggvinir einsog Þórdís Gísla, gamlir félagar úr ljóðlistinni einsog Hildur Lilliendahl, og svo fólk sem ég nýverið hef fengið löngun til að kynnast, einsog til dæmis Hildur Knútsdóttir tískubloggari.

Þetta er öflugur hópur fólks, og flestöll kynntumst við gegnum netið. Segið svo ekki að alnetið geti ekki ýmislegt þegar það fær smá knúz.

Með hjartað á réttum stað

Ég kynntist honum hvergi nándar nærri eins mikið og mig langaði til. Við hittumst heldur aldrei, þótt það hafi komið til tals. Og nú er hann dáinn. Það síðasta sem hann sagði við mig, í stríðni: „Þú hefur svo fallega sál.“ Eitthvað fannst mér það nú vera alveg öfugt.

Það er óvanalegt þegar manneskja sem lengst maður þekkti undir dulnefni hefur jafn djúpstæð áhrif á mann. Sigurbirni kynntist ég skömmu eftir að hann fór að skrifa um málefni kynjanna. Undir fyrirsögninni „Sigurbjörn verður til“ birtust eftirfarandi inngangsorð:

Mér hefur lengi blöskrað það sem Pjattrófurnar og Hlín Einars skrifa um karlmenn. Það virðist sem þær þekki bara eina tegund karla, aumingja.

Sigurbjörn sagði allt það sem mörg okkar hinna höfðu ekki dug í okkur til að nefna, sérstaklega karlar, og skóf aldrei ofan af hlutunum. Hann varð strax einn minn uppáhaldspenni, síðan hans varð daglegur viðkomustaður.

Hið sorglega við þá samfélagsgerð fyrirlitningar sem Sigurbjörn barðist gegn, þetta tæpa ár sem hann var virkur í umræðunni, er hversu óvanalegt það var að karlmaður léti í sér heyra. Og það gerði hann svo rækilega að fáir máttu sín nokkurs gegn honum. Hans síðustu grein skrifaði hann fyrir Druslugönguna sem haldin var í júlí sem leið.

Manninum bakvið Sigurbjörn fékk ég síðar örlítið að kynnast. Við skrifuðumst ögn á og hrútskýrðum femínisma hvor fyrir hinum. Í gegnum okkar stuttu kynni komst ég að því að ekki einasta var þar á ferðinni maður með hjartað á réttum stað, heldur var hann kærleiksríkur og lífsglaður eiginmaður og faðir.

Hann var mikill húmoristi, einsog raunar allir femínistar sem ég hef kynnst. Hann var hvunndagshetja og fyrirmynd margra. Hann var hetja mín og fyrirmynd. En fyrst og fremst var hann Gunnar Hrafn. Fyrir það vildi ég geta þakkað honum.

Birtist fyrst á Smugunni.

Breivik var ekki einn

Einsog svo margir fylgdist ég dofinn með beinni útsendingu norska ríkissjónvarpsins á dögunum, þegar Anders Behring Breivik sprengdi fyrst forsætisráðuneytið í Osló og myrti þvínæst unga jafnaðarmenn í hrönnum á Utøya. Þessi voðaverk hefðu alstaðar verið hræðileg, en urðu því ógnvænlegri sem þau voru okkur nálægri, hefur gjarnan heyrst í kjölfarið. Huggun harmi gegn var hann einn að verki, hefur einnig heyrst.

Þá er kannski best að benda á nokkur atriði.

Breivik er þjóðernissinni, og sem slíkur er hann ekki einstakur. Ég sagði fyrst frá upplifun minni af íslenskum þjóðernissinnum í grein á Múrnum sáluga árið 2006. Inni á Kofa Tómasar frænda sátu þeir í myndarlegum hóp og ræddu Júðana, að Pólverjar væru armasti angi hins hvíta kynstofns, og að Hitler hefði bara alls ekkert verið slæmur maður. Á meðal þeirra sat drengur á að giska fjórtán ára, drakk bjór og reykti sígarettur. Á handlegginn hafði hann tússað hakakross og þóttist vera í góðum félagsskap. Í horninu sat aumingjans maður af asískum uppruna meðan á þessum ósköpum stóð og hlýddi áhyggjufullur á hvert einasta orð. Þetta voru hreinræktaðir nasistar.

Í mótmælum við Austurvöll á síðasta ári mættu nokkrir sjálfsyfirlýstir þjóðernissinnar með nasistafána, sem snögglega voru rifnir af þeim og réttilega brenndir. Í kjölfarið börmuðu þau sér nokkuð á síðum DV yfir að skoðanir þeirra væru réttmætar og því hefði eign þeirra að tilhæfulausu verið eyðilögð. Þau væru sko engir nasistar, þau væru bara þjóðernissinnar sem vildu losna við óæskilega kynstofna úr landinu. Á vefsíðu þeirra, sem ekki kemur til greina að ég tengi á, kemur fram að allir þeir sem ekki styðja málstað þeirra séu föðurlandssvikarar.

Í Svíþjóð komust Svíþjóðardemókratar í fyrsta sinn inn á þing á liðnu hausti. Systurflokkur þeirra er Danski þjóðarflokkurinn, sem fúnkerar nú sem hækja dönsku ríkisstjórnarinnar og stýrir úr oddasætinu í raun öllum þeim málefnum sem á einn eða annan hátt snerta innflytjendur. Báðir flokkar hafa opinberlega lýst því yfir að þeim sé kappsmál að stemma stigu við aðsókn innflytjenda sem ekki eru „norrænir“ útlits. Þannig hljóðar hin opinbera stefna, en í raun réttri gera flokkarnir tveir allt sem í sínu valdi stendur til að beinlínis hrekja innflytjendur burt. Til þess beita þeir ýmsum meðulum. Frægt er orðið þegar, í miðri kosningabaráttu í Svíþjóð, oddviti Svíþjóðardemókratanna í Malmö risti hakakross í enni sér og hélt því fram að múslimar hefðu gert það. Áreiðanlega bar hann krossinn stoltur.

Í Finnlandi komust Sannir Finnar til valda og í Hollandi er Frelsisflokkurinn undir forystu Geerts Wilders sífellt að færa sig lengra upp á skaftið. Sambærilega þróun innan evrópskra stjórnmála má sjá í Þýskalandi, Frakklandi og víðar. Alstaðar vex þjóðernissinnum fiskur um hrygg. Þeirra sáust einnig merki í íslenskri flokkapólitík þegar Frjálslyndi flokkurinn hljóp snögglega undir merki þjóðernisstefnunnar og þurrkaði sig rækilega út á landsvísu í kjölfarið. Ekki þar fyrir að þeir þar hafi ekki notið kjörþokka meðal sumra.

Í Árósum eru nasistar sérstaklega áhrifamiklir hef ég eftir áreiðanlegum heimildum. Tveim ungum stjórnmálamönnum mér kunnugir, sem á vettvangi Einingarlistans hafa opinberlega beint spjótum sínum að nasistum, hefur verið hótað lífláti. Annað þeirra hefur ítrekað orðið fyrir alvarlegum líkamsárásum, misst tennur og hlotið varanleg ör. Ég hef tekið að mér að skrá eftir þeim þessa atburði alla, en sökum ótta við afleiðingarnar hefur reynst erfitt að fá þau til viðtals. Ítarleg saga þeirra bíður betri tíma til birtingar.

Í þessum hafsjó öllum er Anders Breivik engin undantekning nema að því leyti að hann hafði í hyggju að framkvæma það sem aðrir hafa hingað til aðeins hugsað – og sú áætlun var allítarleg einsog Haukur Már Helgason hefur fjallað um og tekið til rækilegrar greiningar. Haukur Már bendir ennfremur á að í einu og öllu aðhyllist Breivik nákvæmlega sömu hugmyndafræði og ofangreindir stjórnmálaflokkar, hefur skoðanir sem enduróma vítt og breitt um bloggsíður og athugasemdakerfi fjölmiðla, ekki síst á Íslandi.

Nálægðin við hryðjuverkin í Noregi verður ennþá meiri þegar þau eru sett í samhengi við þá þróun sem átt hefur sér stað í Evrópu á undanförnum áratug. Að það sé huggun harmi gegn að hann hafi starfað einn get ég á engan hátt tekið undir á meðan völlurinn eykst á heilu samtökum samskonar sálarleysingja vítt og breitt í álfunni. Menn einsog Breivik starfa aldrei einir, ekki hugmyndafræðilega, og það er í hugmyndafræðinni sem rót ofbeldisins liggur – ekki í sálarkirnu einstaks brjálæðings.

Birtist fyrst á Smugunni.