Með hjartað á réttum stað

Ég kynntist honum hvergi nándar nærri eins mikið og mig langaði til. Við hittumst heldur aldrei, þótt það hafi komið til tals. Og nú er hann dáinn. Það síðasta sem hann sagði við mig, í stríðni: „Þú hefur svo fallega sál.“ Eitthvað fannst mér það nú vera alveg öfugt.

Það er óvanalegt þegar manneskja sem lengst maður þekkti undir dulnefni hefur jafn djúpstæð áhrif á mann. Sigurbirni kynntist ég skömmu eftir að hann fór að skrifa um málefni kynjanna. Undir fyrirsögninni „Sigurbjörn verður til“ birtust eftirfarandi inngangsorð:

Mér hefur lengi blöskrað það sem Pjattrófurnar og Hlín Einars skrifa um karlmenn. Það virðist sem þær þekki bara eina tegund karla, aumingja.

Sigurbjörn sagði allt það sem mörg okkar hinna höfðu ekki dug í okkur til að nefna, sérstaklega karlar, og skóf aldrei ofan af hlutunum. Hann varð strax einn minn uppáhaldspenni, síðan hans varð daglegur viðkomustaður.

Hið sorglega við þá samfélagsgerð fyrirlitningar sem Sigurbjörn barðist gegn, þetta tæpa ár sem hann var virkur í umræðunni, er hversu óvanalegt það var að karlmaður léti í sér heyra. Og það gerði hann svo rækilega að fáir máttu sín nokkurs gegn honum. Hans síðustu grein skrifaði hann fyrir Druslugönguna sem haldin var í júlí sem leið.

Manninum bakvið Sigurbjörn fékk ég síðar örlítið að kynnast. Við skrifuðumst ögn á og hrútskýrðum femínisma hvor fyrir hinum. Í gegnum okkar stuttu kynni komst ég að því að ekki einasta var þar á ferðinni maður með hjartað á réttum stað, heldur var hann kærleiksríkur og lífsglaður eiginmaður og faðir.

Hann var mikill húmoristi, einsog raunar allir femínistar sem ég hef kynnst. Hann var hvunndagshetja og fyrirmynd margra. Hann var hetja mín og fyrirmynd. En fyrst og fremst var hann Gunnar Hrafn. Fyrir það vildi ég geta þakkað honum.

Birtist fyrst á Smugunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *