Mín ýmsa framtíðarsýn

Markmið eru misjöfn
Það hvarflar stundum að mér að ég sé hvorutveggja áhrifagjarn og sveimhugi, sem birtist meðal annars í því ýmsa sem ég hef verið staðráðinn í að taka mér fyrir hendur í lífinu.

Eitt sinn fundust mér til dæmis engin örlög merkilegri en þau að verða íslenskukennari í framhaldsskóla, svo ég reri öllum árum að því að klára stúdent svo ég gæti skráð mig í íslensku í HÍ. Um skeið hvarf sá draumur ofaní löngun til að verða leikari, og þá lék ég í nokkrum stuttmyndum sem vinir mínir gerðu auk þriggja smávaxinna hlutverka í uppfærslu Herranætur á Hundshjarta eftir Búlgakov.

Nokkru áður átti ég þann draum æðstan að verða frægur gítarleikari og söngvari í hljómsveit. Ég hef ekki tölu á því hversu margar hljómsveitir ég stofnaði sem þó aldrei komu saman til að spila, né hversu mörg lög ég hef samið. Ég spilaði á gítarinn að jafnaði 10 tíma á dag. Ég keypti mér bæði The Musician’s Bible, sem að sönnu hafði ýmsar praktískar ráðleggingar, og handbók um gítarsmíði – af því þá hafði ég bitið það í mig að fátt væri meira töff en að smíða sinn eigin gítar úr tilfallandi viði. Ég las hana alla, en vitandi að ég er með öllu hæfileikalaus til handíða þorði ég aldrei að prufa. Ég hef hlotið ein verðlaun fyrir frumsamda rómönsu á klassískan gítar, en þá var ég eftir sem áður búinn að gefa drauminn upp á bátinn.

Ef við skautum yfir þann stutta hluta ævi minnar þegar ég hafði ambisjónir til pólitískra metorða (það entist í u.þ.b. þrjá mánuði), þá hef ég haft ævilangan metnað til myndlistar og ritstarfa. Ég byrjaði að semja myndasögur sem barn og hélt áfram að teikna allt til 2004 eða þar um bil, en gafst þá upp. Það síðasta sem ég teiknaði að mig minnir er geimskip fyrir tölvuleik sem enn er á hugmyndastigi. Sjálfsagt er tölvuteikningin sem gerð var eftir hönnuninni ennþá til einhversstaðar.

Eftir stúdent fór ég í íslensku í HÍ, einsog ég stefndi upphaflega að, og hóf störf á Borgarbókasafni samhliða. Námsleiði gerði vart við sig á fjórða misseri og ég fór að gæla við þá hugmynd að vera bókavörður til æviloka, eftir að ég hefði klárað grunnnámið. Einhverntíma á þeim starfsferli íhugaði ég í léttu rúmi að flytja til Finnlands og sjá til með bókavarðarstöðu þar. Að grunnnámi loknu sagði ég hinsvegar upp stöðunni og flutti til Árósa í framhaldsnám sem ég hef enn ekki lokið.

Framtíðarsýn dagsins í dag er sú sama og ég lagði upp með þegar ég flutti utan: að ljúka doktorsprófi í norrænum miðaldabókmenntum. Kannski liggur leið mín þaðan í framhaldsskólakennarann sem mér eitt sinn fannst að hlyti að vera toppurinn á tilverunni, kannski hlotnast mér einhver önnur staða. Framtíðin er í öllu falli óskrifað blað, og ef maður ætti sér enga kjánalega drauma til að elta inni á milli yrði lífið örugglega fljótt svolítið leiðinlegra.

Að ganga á hjálpardekkjum

Gengið á hjálpardekkjum
Einhverntíma var gjarnan sagt í gríni að það væri til marks um að bloggarar ættu sér líf þegar þeir blogguðu hvað minnst. Það er kannski eitthvað til í því þótt ég viti nú ekki hvort sé orsakasamhengi í mínu tilfelli.

Lífið hefur þó tekið stakkaskiptum síðustu þrjá mánuði. Ég er fluttur aftur til Reykjavíkur eftir þriggja ára útlegð í Hafnarfirði og eins árs námsdvöl í Árósum. Og ég bý ekki einn lengur, heldur með Eyju. Temmileg viðbrigði það.

Ekki þarfyrir, ég hef jú skrifað ýmislegt þótt ekki hafi það verið blogg að heita mætti. Ég sit ásamt valinkunnu fólki í ritstjórn Knúzz og hef skrifað lítið eitt þar. Kandídatsritgerðin tekur sinn tíma líka; það er víst nóg hægt að skrifa um skrímsli.

Sóllilja Þórðardóttir
Mikil afmælis- og fagnaðavertíð hefur verið að undanförnu, ýmis afmæli og annað slíkt sem hefur tekið sinn tíma, til að mynda lítil bróður- og mágkonudóttir sem er sú fyrsta sinnar tegundar hvað mig varðar. Sóllilja fékk hún að heita. Svo fórum við stelpurnar í bústað uppí Biskupstungur eina helgi þar sem ég fékk það hlutverk að verma kaldasta heitapott sem sögur fara af.

Þá má ekki gleyma því að mjaka sér líka innar eftir og koma sér betur fyrir. Ég flutti allskonar drasl með mér bæði af Karls Vernersvegi sem og Suðurgötunni, svo ýmislegrar skipulagningar er þörf heima við. Lífið er allt öðruvísi þessa dagana en ég hef upplifað áður, bæði spennandi og spontant, á svipaðan hátt kannski og að hjóla í fyrsta sinn án hjálpardekkja, og á sinn hátt dálítið skrýtið í leiðinni, einsog að ganga á hjálpardekkjum. Skrýtið en ljúft.