Einhverntíma var gjarnan sagt í gríni að það væri til marks um að bloggarar ættu sér líf þegar þeir blogguðu hvað minnst. Það er kannski eitthvað til í því þótt ég viti nú ekki hvort sé orsakasamhengi í mínu tilfelli.
Lífið hefur þó tekið stakkaskiptum síðustu þrjá mánuði. Ég er fluttur aftur til Reykjavíkur eftir þriggja ára útlegð í Hafnarfirði og eins árs námsdvöl í Árósum. Og ég bý ekki einn lengur, heldur með Eyju. Temmileg viðbrigði það.
Ekki þarfyrir, ég hef jú skrifað ýmislegt þótt ekki hafi það verið blogg að heita mætti. Ég sit ásamt valinkunnu fólki í ritstjórn Knúzz og hef skrifað lítið eitt þar. Kandídatsritgerðin tekur sinn tíma líka; það er víst nóg hægt að skrifa um skrímsli.
Mikil afmælis- og fagnaðavertíð hefur verið að undanförnu, ýmis afmæli og annað slíkt sem hefur tekið sinn tíma, til að mynda lítil bróður- og mágkonudóttir sem er sú fyrsta sinnar tegundar hvað mig varðar. Sóllilja fékk hún að heita. Svo fórum við stelpurnar í bústað uppí Biskupstungur eina helgi þar sem ég fékk það hlutverk að verma kaldasta heitapott sem sögur fara af.
Þá má ekki gleyma því að mjaka sér líka innar eftir og koma sér betur fyrir. Ég flutti allskonar drasl með mér bæði af Karls Vernersvegi sem og Suðurgötunni, svo ýmislegrar skipulagningar er þörf heima við. Lífið er allt öðruvísi þessa dagana en ég hef upplifað áður, bæði spennandi og spontant, á svipaðan hátt kannski og að hjóla í fyrsta sinn án hjálpardekkja, og á sinn hátt dálítið skrýtið í leiðinni, einsog að ganga á hjálpardekkjum. Skrýtið en ljúft.