Hans og Grétu syndrómið

Ég var óskaplega stoltur af sjálfum mér í dag. Mér nefnilega tókst að klára nærri heilt páskaegg nr. 4. En svo áttaði ég mig á því að hér búa fleiri og því er líklegra að einhver annar hafi étið eitthvað af þessu. Þegar ég var lítill gat ég étið þrjú svona en það er liðin tíð.

Einhverjir voru að tuða undan þessu súkkulaðibrjálæði á netinu og birtu eitthvert óttalegt tilfinningaklám í ætt við „it’s hard to be a little girl when you’re not“, einsog páskaeggjaát sé ekki spurning um hvorutveggja öfgar og val. Líklega eru Íslendingar fyrstir í heimi til að vera allt í senn feitastir, sveltastir og fátækastir allra. Bestir í öllu því einsog öllu öðru. En í hugarheimi sums fólks er semsagt ekki hægt að gefa börnum súkkulaði nema með kalkúnasprautu. Sjálfsagt mætti kalla það Hans og Grétu syndrómið.

Fyrir nokkrum árum máttu ekki vera púkar ofan á páskaeggjum frá Nóa samkvæmt einhverjum prestinum því eggin væru táknmyndir sjálfs kristindómsins og jafngilti gjörningurinn því djöfladýrkun. Annar séra viðhafði svipuð orð um Draugasetrið á Stokkseyri en komst þar raunar nær guðfræðilegri teóríu en hinn. Fátt má út af bera gagnvart djöflatrúnni og nú munu fermingarbörn vera svívirt af öllum þorra guðlausra Íslendinga. Hinn kúgaði meirihluti lætur ekki að sér hæða.

Ekki þarfyrir að umræðan á Íslandi hafi ekki alltaf verið snargeðbiluð. Meiraðsegja Þóru Arnórsdóttur tókst ekki að bjóða sig fram til forseta án þess að vera kölluð strengjabrúða í valdaráni kommúnista. Voða sem fólk getur verið lítið í sér, hve mikil ósköp sem oft er erfitt að vera til fyrir öllum þessum kommúnistum, trúleysingjum og páskaeggjum. Sjálfsagt er það ekki svo fjarri Hans og Grétu syndróminu heldur að telja sér trú um að allir í kringum mann séu vondir og eigi skilið að vera skutlað í ofninn.

Miðbær Árósa
Og nú með ótrúlegri tengingu við Hitler má svosem nefna að ég skrapp til Danmerkur á dögunum (einhverra hluta vegna er ég alltaf á einhverjum þvælingi). Þar rétt svo tókst mér að missa af fámennum útifundi nasista sem aflaði sér um tífalt fleiri ósáttra gesta og skarst í brýnu þeirra í milli og svo lögreglunnar sem reyndi að verja þá fyrrnefndu. Lögreglustjórinn í Árósum lýsti yfir í kjölfarið að betra hefði verið að láta nasistana bara eiga sig.

Stundum velti ég fyrir mér að gera einmitt það hvað kommentakerfi vefmiðlanna snertir, en ég held nú að hatursorðræðan skjóti því sterkari rótum sem hún er hunsaðri. Ef ekki er hægt að tala um páskaegg, fermingar eða forsetaframboð án þess að einhver sé berlega orðaður við samsæri eða ofbeldi þá er líklega lítil von á vitrænni umræðu næstu kynslóðirnar, og því síður sem orðræða fábjánanna er látin óátalin.

Sem raunar minnir mig á píslarsögu Krists: í henni virðast nær allir tjá sig einsog fábjánar svo lyktar með að maður einn er tekinn af lífi og fyrir því höldum við upp á páskana enn þann dag í dag. Kannski eru páskarnir þá eftir allt saman bara ágæt hátíð til að annaðhvort troða í sig páskaeggjum eða grenja undan páskaeggjaáti annarra og eipa almennt einsog fábjáni. En því miður er enginn hörgull á þessu síðastnefnda aðra daga ársins svo einhverjum kann að þykja tengingin hæpin. Hitt verð ég að játa að páskarnir hafa verið með ágætasta móti þetta árið, ekki síst fyrir það að líklega eru þetta fyrstu páskarnir á þessari öld sem ég er í fríi. Oft getur munað um minna.

9 thoughts on “Hans og Grétu syndrómið”

 1. Ekki gleyma femínistunum. Þeir eru víst með samsæri líka og óttalegt öfgafólk, ef ekki nasistar bara.
  Líklega hefur fábjánum ekkert fjölgað en þeir verða vissulega sýnilegri svona í öllum þessum opnu kommentakerfum.

 2. Ég held það sé ágætt að hafa í huga að maður „læknar“ ekki heimsku annarra – að minnsta kosti ekki með því að kalla þá fábjána og þær áfellisbendingar eru víst ekkert betri fyrir það að maður telji sig hafa á réttu að standa um heimsku annarra – en maður hefur alltaf ráð á að verða betri sjálfur. Það er bara spurning um hvort maður hafi rænu á því.

 3. Ég get tekið undir allt það. Sameinað andóf gegn skoðunum sem almennt er viðurkennt að eru heimskulegar (t.d. nasisma) getur á hinn bóginn verið mjög effektívt til að koma þeim sem þær hafa í skilning um að þeir eigi sér fáa fylgismenn. Þetta er visst form af einelti kannski en það er þess virði. Margir þeirra líta óhjákvæmilega á sig sem píslarvotta í framhaldinu en það taka hvort eð er fáir mark á því. En vissulega eru fáar skoðanir svo almennt taldar tilheyra fábjánum, og ekki batnar það við að kalla þá sem þær hafa fábjána, en stundum stenst maður ekki mátið. Fólk skynjar líka oft reiði í svona skrifum sem (a.m.k. í mínu tilviki) er ekki til staðar, en stundum er bara þægilegra að blammera stutt og e.t.v. ómálefnalegar fremur en að gera það hægt og í vel rökstuddu máli, þótt maður sé ekkert frekar froðufellandi yfir tölvunni á páskadag en ella (ekki að ég haldi að þú hafir sagt eða haldið það, en fyrirvarar á netinu eru til alls fyrstir).

 4. Það er nú reyndar upp og ofan hvað svona andóf getur verið gagnlegt. Og nægir að minna á að það var feykilega mikið andóf gegn þessum blessaða nasisma á sínum tíma – sem hafði á endanum fyrst og fremst þær afleiðingar að pólarísera Þýskaland og þvinga alla til þess að taka afstöðu með öðrum hvorum gargandi pólitíkusnum – sem var ekki alltaf sósíalistunum í hag. Altso, þeim mun meira sem andstæðingar Adolfs hermdu upp eftir honum gargið, þeim mun minna skar Adolf sig úr hópnum. Victor Klemperer benti rækilega á þetta í bókinni Lingua Tertii Imperii, sem er til í afbragðs þýðingu Maríu Kristjánsdóttur – hvernig það varð sífellt algengara í öllum æsingnum að svonefndir andstæðingar nasismans hreinlega styddu hann ómeðvitað með því að taka upp orðræðu hans, taka upp æsinginn. Og er auðvitað feykilega mannlegt. Ef þú talar í efsta stigi eru meiri líkur til þess að ég svari þér í efsta stigi og meiri líkur til að þú svo svarir mér í efstasta stigi og ég svari þér í efstasta stigi og þú svarir mér í efstastasta stigi og ég svari þér í … og á endanum eru allir orðnir kengbilaðir.
  Og þarf ekki heldur að snúast um orðalag, það getur einfaldlega snúist um að við hættum að taka mark hvert á öðru, hættum að hlusta. Ég held sem dæmi að það sé afskaplega vond og vitlaus hugmynd að gera lítið úr ótta þeirra sem hræðast útlendinga – sá ótti er raunverulegur og breytingarnar sem þeir upplifa eru raunverulegar. Við höfum mikið til dílað við útlendingafóbíu sem mannvonsku, en ég held það væri til mikils bóta að skoða hana meira einsog hverja aðra fóbíu – bara einsog lofthræðslu. Það er mikilvægt að gera ekki lítið úr þeim sem eru hræddir, ýta þeim út í horn og einangra þá. Tabúið er bara til þess fallið að styrkja þá í utanförskapet (viðutaninu?) – fyrir utan auðvitað hitt að sú fyrirlitning er jafn ávanab(l)indandi og áfeng og fyrirlitningin sem henni er stefnt gegn.

 5. Það er alltaf hægt að ræða hlutina hlutlaust og yfirvegað og benda á gallana í málflutningi þeirra sem hafa andstæða skoðun, meiraðsegja þegar rætt er við rasista einsog Eva Hauks gerði tilraun til. Ég er bara ekki sannfærður um að það sé endilega frjórra en hitt og spurningin hlýtur að vera sú hvort annarlegum sjónarmiðum sé gert of hátt undir höfði með því að ræða þau einsog öll sjónarmið eigi rétt á sér. Í umræðu um aðbúnað eldri borgara er alveg hægt að rökstyðja að það ætti bara að kasta þeim út á guð og gaddinn sem ekki geta séð um sig sjálfir þar sem þetta kosti ríkið og samfélagið óhemju mikla fjármuni, en ég sé ekki ástæðu til að ræða slík sjónarmið.
  Ótti rasista er sannarlega raunverulegur og full ástæða er til að beita öllum leiðum til að koma þeim í skilning um að ótti þeirra sé ástæðulaus, einsog þegar er gert með fjölmenningarhátíðum og öðru. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem berst gegn fordómum á yfirvegaðan hátt, en baráttan er marglaga og ég játa bara skefjalaust að ég hef ekki þolinmæði til að hlusta á andstæð sjónarmið við sjálfsagða hluti einsog mannréttindi innflytjenda. Mér finnast þau bara ekki eiga rétt á sér og ég virði þau ekki viðlits, en ég er sammála því sem þú segir með upphrópanirnar. Ég get alltaf haldið því fram að þessari bloggfærslu hafi ekki verið ætlað að vera innlegg í neina tiltekna umræðu, en óhjákvæmilega er hún það samt og ég veit upp á mig sökina.
  En ætli endapunkturinn sé ekki sá að umræða um pólitík eða önnur hitamál mun seint ef nokkurn tíma sannfæra neinn sem þegar hefur mótað sér skoðun, og líklega jafnt við alla að sakast þar. Ég veit ekki hvernig best er að díla við rasista, kannski er það ágætis nálgun að líta á það sem fóbíu, að rasistar séu óttaslegnir því þeir viti ekki betur. En er þá ekki að sama skapi talað niður til þeirra?
  Með tengingunni við Árósa í þessari færslu rifjast upp fyrir mér að ég átti alltaf eftir að vinna úr viðtali sem ég tók við tvo ungpólitíkusa í Enhedslisten sem orðið hafa fyrir árásum og ofsóknum nýnasista fyrir að tala opinberlega gegn þeim. Það er líklega kominn tími til að klára það og birta. Að því sögðu þekki ég líka til veikra einstaklinga þar sem (hafa talað um að) mæta með rörbúta á samkomur nasista til að berja á þeim (og boðið mér með, sem ég afþakkaði), svo þetta helst að mörgu leyti í hendur við það sem þú segir – báðar hliðar virðast álíka brjálaðar.

 6. Ég er ekki viss um að það sé endilega þörf á því að „rökræða“ þetta, það er ekki beinlínis það sem ég á við. Ég held að harkalegar rökræður, jafnvel þótt þær séu sanngjarnar í einhverjum stærðfræðilegum skilningi, séu ekkert endilega til þess fallnar að auka okkur mennsku og samlíðan – sem ég lít á sem endanlegt markmið allrar samræðu. Þar skiptir kannski mestu máli að bera virðingu fyrir þeim sem maður talar við og sýna „málefninu“ sanngirni. Þannig gæti ég kannski nefnt að ótti rasista er alls ekkert „ástæðulaus“. Það að díla við t.d. flóttamannavandamál heimsins – eða bara fátæktarvandamálið, þrælkunarvandamálið – með því að opna fyrir landamæri er langt í frá sársaukalaus prósess og mun reynast velferðarsamfélögunum þungur baggi. Fólk sem hefur alist upp í stríði eða í flóttamannabúðum kemur með mikinn farangur með sér – mikla tortryggni, mikinn ótta. Ekki allir, auðvitað, en margir. Ofbeldi getur af sér ótta sem getur af sér ofbeldi. Málið er þannig ekki að sýna þeim fram á að ótti rasistanna sé ástæðulaus – og vísa þeim þannig einfaldlega á bug sem einhverjum vitleysingum – heldur að játa því einfaldlega að hann eigi rétt á sér, it’s OK to be scared, og benda þeim síðan á hvernig það er rétt og nauðsynlegt að opna landamærin samt, hvernig plúsarnir vega upp mínusana, sérstaklega til lengri tíma litið, og biðja þá að hjálpa okkur að standa eins vel að þessu og hugsast getur. Eða þannig, þú skilur.
  Vandamálið við þessa samræðu er síðan ekki bara að „þeir“ hagi sér stundum einsog asnar og vilji ekki hlusta, heldur að „við“ (þau sem Jakob Bjarnar kallar góða fólkið) erum búin að ákveða að það sé ekki við „þau“ ræðandi. Þannig skríða allir ofan í sína skotgröfina, þar sem dátarnir stappa hver í annan stálinu og styrkja sjálfsmynd hvers annars, án þess að þurfa að horfast í augu við að veröldin er flóknari en svo.

 7. Þá skil ég þig betur. Ég neyðist því miður til að kúpla mig út hérna en tek fram að það er ekki vegna þess að ég sé þér í grundvallaratriðum ósammála eða vilji ekki eiga í þessari umræðu. Þetta er áhugavert.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *