Um dyttinn og dattinn

Þá hef ég sótt um svo mörg sumarstörf að ég man ekki einu sinni lengur hvaða störf ég hef sótt um. Eitt hjá Borgarbókasafni, annað hjá Bókmenntafræðistofnun, og eitthvað fleira. Þrjátíu og átta í heildina. Árni Magnússon láti gott á vita.

The Blob, eða „Árás útfrymisins“.
Mikið um umsóknir þetta misserið og ráðstefnugögn. Námsumsókn, styrkumsókn, alltaf sömu meðmælendur. Það ætti að leggja af akademísku meðmælakröfuna. Það er gefið mál að allir, sama hversu mjög þeim er gefin andlega spektin, hafa að minnsta kosti tvo meðmælendur, svo það er allteins gott að sleppa þessu og spara námsmönnum það að pirra kennara sína og kollega með þessu sýknt og heilagt. Það er einmitt síðasta fólkið sem maður vill ergja með svona snatti.

Dyttumdatt á heimilinu líka. Það sem fannst í vatnslásnum sannar tilgátu mína um að yfirnáttúra geri helst vart við sig í heimahúsum. Helstu sérfræðingar Íslands í dularfræðum lögðu til þá augljósu skýringu að þetta hafi verið útfrymi líkt því sem Lára miðill smurði sig með gestum sínum til hryllings (meiri hrylling hefur handklæði hvorki fyrr né síðar vakið með fólki, hef ég fyrir satt). Hengja upp myndir og annað slíkt. Allt að gerast. Eða ekkert, eftir því hvernig litið er á það. Allt ósköp notalegt.

En þú, þarna fávitinn með svarta hundinn á Rauðarárstíg 3! Ef þú skilur aumingjans hundinn þinn aftur eftir vælandi og ráðalausan fyrir utan að mér sjáandi þá sé ég til þess að þú verðir kærður fyrir vanrækslu. Mér skilst þú sért ofboðslega góður við dýrið en ekki fannst mér nú þetta vera eftir lýsingunni. Svona gerir maður einfaldlega ekki og þú mátt vita það að hefði ég fengið að ráða værirðu að díla við lögregluna núna.

One thought on “Um dyttinn og dattinn”

  1. Maður losnar ekkert við meðmælastússið þótt maður hætti að vera námsmaður. Ég þarf af og til að bögga fyrrum leiðbeinandann minn sem og samstarfsmenn mína með beiðnum um meðmæli. Líklega losnar maður ekki við þetta fyrr en maður kemst í fasta stöðu (ef það verður þá einhvern tímann).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *