Við vitum öll hvað í vændum er þótt enginn vilji horfast í augu við það. Fólk lýgur að sjálfu sér, leiðir hið óhjákvæmilega hjá sér, segir við sjálft sig að þetta muni fjandakornið aldrei verða – við sjálft sig, vegna þess að það vogar sér ekki einu sinni að impra á því við aðra manneskju. En það mun verða, sama hvað tautar og raular. Það er óhjákvæmilegt verði gerð mynd um Stephen King að Jim Carrey mun leika hann.
King hefur nú upp á síðkastið verið nokkuð í fjölmiðlum og nýtur aukinnar virðingar minnar fyrir það að krefjast aukinnar skattheimtu á þá efnamestu, þar með talið sjálfan sig. Þegar maður les um skattprósentuna, tuttugu og átta prósent, þá eiginlega hlær maður bara. Þetta finnst sumum alveg hræðileg píning. En Stephen King er greinilega sama sinnis og ég, enda gefur hann stoltur tuttugu og tvö prósent til viðbótar til ýmissra góðgerðarmála og til grunnþjónustunnar.
Þetta verður auðvitað hápunktur myndarinnar með Jim Carrey, sem verður einskonar Man on the Moon fyrir mainstreamið, en þá verður auðvitað svoleiðis búið um hnútana að persóna hans flytji þrumandi ræðu um skattamál í öldungadeild Bandaríkjaþings við grátur og gnístran repúblíkanatanna. Einhver frjálshyggjuplebbinn á Andríki mun misskilja myndina og skrifa um að King geti trútt um talað á sínum listamannalaunum og Davíð mun segja í leiðara Morgunblaðsins að hann hafi nú eitt sinn lesið bók eftir King og ekki fundist hún neitt sérstaklega góð, hvort þessi strákauli ætti ekki bara að halda kjafti. Titillinn verður „Nokkrir góðir dagar án Stebba kóngs“ og mun ýmsum þykja ritstjórinn sérlega ósérhlífinn í valinkunnum blammeringum sínum.
Hvað Stephen King varðar er gott að komast að því að hann sé svona mikill kommúnisti. Hann verður þá ábyggilega ekkert of leiður yfir bókinni sem ég stal eftir hann á netinu (sem ég lofa að kaupa ef mér finnst hún góð).
En já, Jim Carrey. Hann yrði sjálfsagt fínn Bjarni Ármanns ef Oliver Stone færir sig af Wall Street niður í Borgartúnið. Corey Feldman gæti þá leikið Lárus Welding. John Goodman sem Davíð (fyrst Orson Welles er dauður) og Rupert Everett er fæddur í hlutverk Bjórgólfs Thors. Brian Dennehy gæti birst örsnöggt sem Matti Jó og Nicolas Cage gæti leikið lánþega sem snappar. Held svei má þá að ég sé með eitthvað hérna. Hringi kannski í Sigurjón Sighvats til að tékka á stöðunni.
Þá er ég búinn að bulla nóg í bili milli þess sem ég hef teygað kaffi og ofurstjúppabbast í sækingum, skutli og undanlátssemi. Það er ágætt að hafa þó náð því þegar allur botn þess að ég hafði bílinn í dag féll úr síldartunnunni á fyrstu metrunum, með tilheyrandi fýlu og tímasóun. Lítið hægt að stóla á annað fólk stundum. Litla fékk að vera ein heima meðan ég keyrði þá eldri og það gladdi gamla hjartað að ekkert logaði þegar ég kom heim. Þá var hún raunar farin til vinkonu sinnar einsog ég gaf henni leyfi til svo ég fæ smá næði núna til að vorkenna sjálfum mér vegna hins sem ekki heppnaðist eins vel í dag.
Hananú, þá hringir hún dyrabjöllunni.