Eikin og eplið

Það hefur stundum orðið vart við undrun fólks yfir orðatiltækinu að sjaldan falli eplið langt frá eikinni, því auðvitað vaxi ekki epli á eikartrjám. Iðulega er bent á að í íslensku sé þetta einfaldlega látið stuðla sem títt er hér á landi, sem ekki er gert í t.d. ensku þar sem sams konar hugsunarvilla kemur þ.a.l. ekki fram: „The apple doesn’t fall far from the tree.“

En til er önnur skýring ólíkt skemmtilegri, þótt sennilega þyki mörgum sú fyrri duga. Í Völsunga sögu (kap. 3) koma fyrir ótal orð yfir eitt og sama tréð:

Svo er sagt að Völsungur konungur lét gera höll eina ágæta og með þeim hætti að ein eik mikil stóð í höllinni og limar trésins með fögrum blómum stóðu út um ræfur hallarinnar en leggurinn stóð niður í höllina og kölluðu þeir það barnstokk. […] Svo er sagt að þar voru miklir eldar gerðir eftir endilangri höllinni, en nú stendur sjá hinn mikli apaldur í miðri höllinni sem fyrr var nefndur.

Apaldur er forníslenskt orð yfir eplatré, getur raunar staðið fyrir hvers konar tré sem ber ávöxt, enda þætti það nú sennilega konunglegri eign að hafa í höllinni en eitthvert eikartré. Hvað segir þá orðabók Fritzners um það að sama tré skyldi vera kallað eik?

Ordet [eik] synes […] at være brugt om større Træer i Almindelighed […] Især har det dog været brugt om frugt- bærende Træer (se under apaldr 2, aldin, epli, jvf gsv. bærandz træ se Gloss. til Schlyters Udg. af Östgöta- lagen og M. Erikssons Landslag), idet eik og apaldr uden Forskjel betegnede ethvert Træ der har epli eller aldin Flat. I, 10210; Herv. 3307; ligesom apaldr og eik Völs. 877.

Og þar höfum við það. Hefðin fyrir því að rugla saman eikartrjám og eplatrjám er að minnsta kosti jafngömul Völsunga sögu, áreiðanlega talsvert eldri. Ef einhver leiðréttir ykkur um eikina og eplið þá getið þið bent viðkomandi á þetta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *