Gyðingar og nasistar

„Ísraelar hegða sér bara alveg einsog nasistar gagnvart Palestínumönnum, þeir eru engu betri en Hitler. En Hitler var nú raunar ekki alslæmur. Hann hafði sitthvað til síns máls þegar hann talaði um gyðinga, og þeir hafa nú sýnt það hvernig þeir eru innst inni.“

Kannist þið röksemdafærslu af þessu tagi? Hún er mjög algeng á íslenskum bloggsíðum um þessar mundir og felur í reynd í sér tvær röksemdafærslur sem stangast hvor á við aðra:

Röksemdafærsla 1
1. Nasistar voru vondir
2. Gyðingar eru einsog nasistar
3. Þar af leiðandi eru gyðingar vondir

Röksemdafærsla 2
1. Nasistar sáu að gyðingar eru vondir
2. Nasistar brugðust við því
3. Þar af leiðandi voru nasistar góðir

Þegar ég segi að röksemdafærsla af þessu tagi sé algeng á íslenskum bloggsíðum, þá meina ég í raun nákvæmlega þessi röksemdafærsla fremur en afbrigði af henni, og ekki bara blogg heldur allt netið, allt samfélagið. Og þetta er ekki röksemdafærsla sem eintómir bjánar fara með þótt hún sé augljóslega heimskuleg þegar hún hefur verið tekin í sundur, heldur er þetta nokkuð sem ég heyri víða, hjá ólíklegasta fólki. Og ég velti fyrir mér hvað á sér stað í hugsanaferlinu þegar svona niðurstaða spýtist út.

Meira var það ekki, ég vildi bara vekja athygli á þessu. Mér finnst þetta merkilegt.