„Goðafræði“

Bakið mitt hefur ákveðið að sálga sér hvort sem ég er fastur við það eða ekki. Svo ég er lagstur í flet meðan minni stórfjölskyldan situr að veisluborði frammi í stofu. Til allrar hamingju missi ég bara af kjúkling en ekki nautalund.

Á þessum tímapunkti finnst mér ég þurfa að játa það að ég hef algert óþol, jaðrar við ofnæmi, fyrir orðinu goðafræði. Í fyrsta lagi vísar orðið framhjá trúnni sjálfri og þar með vísar það í fyrirbæri sem aldrei hefur raunverulega verið til (heiðið fólk hafði sannarlega sína trú og fróðleik, sem er ekki það sama og fræði). Það má að vísu kalla eftirheimildir á borð við Snorra Eddu „goðafræði“ í því ljósi að Snorri reyndi að setja fram á skipulegan (fræðilegan) hátt tiltekna staðlaða gerð af trú sem þó aldrei var stöðluð og hann þekkti aðeins úr öðrum heimildum en ekki af eigin reynslu.

En, og í öðru lagi, þá eru engar heimildir til um „goðafræði“ sem ekki eru heimildir um trúna sem „goðafræðin“ á að lýsa. Þar sem þetta eru allt sömu heimildir er nærtækast að líta á þær sem heimildir um norræna trú en ekki goðafræði, eða gríska og rómverska trú, o.s.frv.

Í þriðja lagi er „goðafræði“ í reynd aðeins þýðing á orðinu mythology, sem er orð margra merkinga en er einhverra hluta vegna helst haft yfir heimildir um hina ýmsu útdauðu fjölgyðistrú; orðið er algerlega merkingarlaust þannig. Það er líka misvísandi að kalla þetta „fræði“ af nákvæmlega sömu ástæðum og það væri misvísandi að kalla Gamla testamentið fræðirit, eða Kóraninn, eða Bhagavad Gita, eða Gilgameskviðu.

Auk þess fjallar „goðafræðin“ ekki aðeins um goð heldur um allan fjandann annan frá sköpun heimsins til endaloka hans. Þess vegna á fólk að hætta þessari steypu og tala um norræna trú en ekki „goðafræði“.