Þegar Sæmundur lærði tamíl

Það verður ekki af honum Helga Guðmunds tekið að hann heldur manni svoleiðis á snakki að kaffið kólnar í hitabrúsanum á meðan. Ég þekki engan annan sem hefur slíkan samræðumátt að ég gleymi kaffibolla. Hann er einnig þeirri gáfu gæddur að ef hann þarf að mæla á eitthvert annað tungumál þá segir hann „þú skilur þetta“ og þá einsog fyrir galdur skilur maður allt, og þó það væri á tamíl.

Svo tekur alvaran við á kontórnum. Jökulkalt kaffi úr hitabrúsanum og kontóristinn sem er það skyni skroppinn að hann hefur skattstjóralegasta mögulega hringitón, sem málning flagnar undan, á farsímanum sem hann skildi eftir og hringdi auðvitað linnulaust meðan hann gekk örna sinna í lengri tíma. Hinsvegar hringir aldrei neinn í hann í þau fáu skipti sem hann er viðlátinn til að ansa.

Þetta er ekki til að auka á ánægjuna, en til allrar hamingju eru flúrljósin þæg sem stendur svo þetta er ekki sem verst. Dagsverkin vildi ég að gætu orðið drýgri en raunhæft er en þannig er það líka þegar maður vinnur að sjö hlutum í einu meðan hugurinn stefnir í áttundu átt. Sennilega þarf ég bara kaffibolla til en þá á ég á hættu að ramba aftur á Helga og glata þannig restinni af vinnudeginum í Anjou og Sæmund fróða — og kannski smá tamíl í leiðinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *