Af ófreskjum, sögu og smjöri

Það tekur því ekki lengur að plögga hluti á bloggsíðum, en þetta Smjörfjall sögunnar hér gleður mig. Mér finnst ég hafa heyrt eitthvað um þetta sama smjörfjall í þeim skilningi sem þau lögðu upp með, sennilega hef ég bara heyrt þetta hjá sjálfum aðstandendum síðunnar einhvern tíma áður, en konan mín er á hinn bóginn þaulkunnug þessu smjörfjalli í 1980 merkingunni og birtir dæmi þarna í athugasemdum.

En nóg um það, þetta er gott framtak. Mig langar að nýta tækifærið og halda áfram að ræða smjör í, kannski ekki sögulegum skilningi strangt til tekið – og þó.

Í ágætu yfirlitsriti sínu um ófreskjur (The Monstrous Races in Medieval Art and Thought) bendir John Block Friedman á að algeng leið til að framandgera andstæðinga, allt frá árdögum mannkyns til okkar daga, er að benda á óvenjulegar matarvenjur þeirra. Það þekkja margir t.d. úr styrjaldarmyndum þegar bandamenn kalla Þjóðverja ‘Krauts’. Með því að nefna þá eftir tiltekinni fæðu, í þessu tilviki súrsuðu káli, þá fara þeir á svig við mennsku Þjóðverjanna. Þeir eru enda ekki menn, heldur sá viðbjóður sem þeir borða: súrkál.

Friedman nefnir mörg dæmi um slíka virka sýnekdókunotkun, en ýmsar þjóðir voru þekktar af fæðu sinni á miðöldum í gegnum hina sívinsælu alfræði Plíníusar eldri (Naturalis historia), t.d. þjóðin sem aðeins át fiska (ichtyophagi) og hinir skelfilegustu anthropophagi sem varla tjóir að skýra hvað merkir. Þessar þjóðir þóttu ekki aðeins óvenjulegar, heldur jafnvel ófreskjum líkar, sakir mataræðis síns eins.

Glöggur lesandi áttar sig nú á því hvert stefnir. Í Ketils sögu hængs segir frá kappanum Katli sem lendir í hrakningum norður af Finnmörk og gistir af þeim orsökum hjá þarlendum manni sem nefnist Brúni. Hann býður Katli að liggja hjá Hrafnhildi dóttur sinni, sem hann þiggur, en þá breiðir Brúni yfir þau uxahúð, og þegar Ketill spyr hvers vegna þá svarar Brúni að bragði:

„Ek hefi hingað boðit Finnum, vinum mínum […] ok vil ek eigi, at þit verðit fyrir sjónum þeirra. Þeir skulu nú koma til smjörlaupa þinna.“

Og viti menn:

Finnar komu ok váru eigi mjóleitir. Þeir mæltu: „Mannfögnuðr er oss at smjöri þessu.“ Síðan fóru þeir í burt.

Lesandinn veit þegar að Finnar eru varhugaverðir. Þetta er undirstrikað með því að Brúni fær þeim smjörið sem Ketill hafði haft með sér; þeir eru smættaðir niður í smjörið eitt, framandgerðir. Í framhaldinu Örvar-Odds sögu kemur svo eftirfarandi í ljós um barnið sem varð undir hjá Katli og Hrafnhildi þessa örlagaríku nótt þegar Finnar sóttu smjörlaupana:

Grímr hét maðr ok var kallaðr loðinkinni. Því var hann svá kallaðr, at hann var með því alinn, en þat kom svá til, at þá þau Ketill hængr, faðir Gríms, ok Hrafnhildr Brúnadóttir gengu í eina sæng, sem fyrr er skrifat, at Brúni breiddi á þau húð eina, er hann hafði boðit til sín Finnum mörgum, ok um nóttina leit Hrafnhildr út undan húðinni ok sá á kinn einum Finninum, en sá var allr loðinn. Ok því hafði Grímr þetta merki síðan, at menn ætla, at hann muni á þeiri stundu getinn hafa verit.

Sterklega er gefið í skyn að þetta eigi sér stað vegna þess að Finnarnir eru yfirnáttúrulegir og ómennskir, ekki ólíkt súrsuðum andstæðingum bandamanna eða hinum kynlegu fiskætum Plíníusar.

Smjör getur þannig á ýmsan hátt verið afdrifaríkt. Þótt það geri okkur ekki öll loðin á kinn hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti, eða að við beinlínis föllum í valinn sakir þess líkt og Gunnar á Hlíðarenda, og hvort sem því sjálfu var hlaðið í loðinn stafla af eigin myglu í Skálholti eða ekki þá hefur smjör með ýmsu móti haft áhrif á gang sögunnar. Það er því bara ágætt að blogg um sagnfræði sé kennt við smjör því þegar vel er að gætt er smjörið síst ómerkilegra en sagan: oft er nefnilega engin saga án smjörs.

One thought on “Af ófreskjum, sögu og smjöri”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *