Húsin úti í auðninni

Ég á minningu, sennilega úr 5. bekk grunnskóla. Við fórum strax í fyrsta tíma úr skólanum með Fimmunni (nú gengur enginn strætó framhjá Laugarnesskóla) og „niður í bæ“. Ég kannaðist aðeins við mig, þarna var Þjóðminjasafnið dálítinn spotta frá. Nema nú gengum við niður bratta brekku sem ég hafði aldrei fyrr farið; í töluverðum snjóþunga, sem við strákarnir gerðum okkur að sjálfsögðu strax að leik að renna okkur niður í, rúlla okkur eða beinlínis hrinda hver öðrum; á milli einhverra þeirra dapurlegustu skrifstofubygginga sem ég man eftir að hafa séð. Þær stóðu þarna í jaðri snjóhvítrar auðnarinnar, einsog við borgarmörkin, og ljós skein hér og hvar út um glugga í morgunmyrkrinu en ég man ekki hvort sást til nokkurrar manneskju inni. Síðan héldum við smáspotta út í þessa auðn, út í hús sem stóð þar eitt sér af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, mitt úti í öllu þessu ekkerti sem engar götur virtust liggja að.

Þetta hús var að sjálfsögðu Norræna húsið. Í mörg ár var mér það hulið eða ég pældi ekkert í því, en dapurlegu skrifstofubyggingarnar eru víst fulltrúar Háskóla Íslands í þessari minningu. Þar sit ég einmitt á þessari stundu þennan morgun og sötra kaffið mitt, í grútljótri skrifstofubyggingu sem bæst hefur í safnið síðan. Ég man hvað mér fannst óhugsandi að fólk gæti unnið hérna. Og ég man hvað mér þótti leiðinlegt að fara í þetta asnalega Norræna hús að læra um öll þessi norrænu leiðindi. Núna er fátt sem er mér meira að skapi en þetta norræna, þótt stundum berist vondar og undarlegar fréttir hingað út einsog sigur hægriflokkanna í Noregi í gær.

Það hefur margt breyst í þessu norræna síðan ég var í 5. bekk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *