Veraldarsögur

Ég nefndi veraldarsögur í bloggi í fyrradag. Þótt það segi sig að nokkru leyti sjálft hverslags bókmenntir það eru er kannski til nokkurs að segja samt lítillega frá þeim, hvað það er sem gerir þær að mínu mati að einna merkilegustu bókum sem til eru.

Veraldarsögur byggja á hugmynd heilags Ágústínusar frá Hippó um heimsaldra (lat. aetates mundi) sem oftast eru taldir vera sex, stundum sjö ef tíminn eftir heimsendi er talinn með.

Fyrsti heimsaldurinn er tíminn frá sköpun mannsins, Adams og Evu, fram að Nóa. Annar heimsaldurinn nær frá Nóa til Abrahams. Þriðji heimsaldurinn nær frá Abraham til Davíðs konungs og sálmaskálds. Fjórði heimsaldurinn nær frá Davíð til herleiðingar gyðinga inn í Babýlon. Fimmti heimsaldurinn nær frá þeirri tíð til fæðingar Krists. Sjötti heimsaldurinn hefst með Kristsburði og honum lýkur þegar hann snýr aftur við heimsendi að dæma lifendur og dauða.

Þannig hefjast veraldarsögur jafnan á sköpunarsögunni og þaðan er mannkynssagan rakin eftir Biblíunni, sem var talin vera eina örugga heimildin um veraldarsögu enda komin til okkar frá Guði. Inn í veraldarsöguna var svo jafnan fléttað öðrum sögulegum viðburðum sem voru þekktir úr heimildum sem taldar voru áreiðanlegar. Þannig er sögu Rómar, Alexanders mikla og Trójustríðsins — svo eitthvað sé nefnt — skeytt inn í frásögnina í tímaröð. Veraldarsögum líkur svo vanalega í samtíð skrifarans sjálfs, sem lifir á hinum sjötta og síðasta heimsaldri fyrir endalok veraldar. Í þeim skilningi er veraldarsögum ætlað að vera tæmandi frásagnir af sögu heimsins og mannsins. Það mætti að vissu leyti segja að menn væru að skrá það sem þekkt væri meðan þeir biðu eftir endalokunum (sem enn láta bíða eftir sér).

Sjálfstæð sagnarit sem saman mynda hluta úr eins konar stórri veraldarsögu hafa varðveist, svo sem Rómverja saga, Alexanders saga og Gyðinga saga. Þá mætti telja til svonefnd gervisagnfræðirit á við Trójumanna sögu, sem þýdd er eftir uppdiktaðri fyrirmynd Daresar Phrygiusar. Það er alveg ljóst að frumsamin íslensk sagnarit eru ekki rituð utan samhengis við hina þekktu veraldarsögu, en að hve miklu leyti þau eru framhald af henni eða viðbót við hana verður aldrei komist að með vissu. Það er einmitt í samhengi við þessa vitneskju um heiminn sem ég tel að eðlilegast sé að lesa konungasögur, Íslendingasögur og fornaldarsögur. Veraldarsögur eru okkur ekki síður ómetanlegar heimildir um hugsunarhátt miðaldamanna einmitt þess vegna.

Afstaða páfa til gyðinga 1120—1593 (gróflega mörkuð)

Það getur verið áhugavert og upplýsandi að fletta í gömlum skjölum. Internetið hefur ekki síst gert það auðveldara og þótt ekki sé hægt að reiða sig á Wikipediu þá eru þar margir gagnlegir listar. Ef við skoðum lista yfir páfabréf á Wikipediu, sem þó er fjarri því að vera tæmandi, getum við til dæmis fengið grófa hugmynd um afstöðu kirkjunnar til tiltekinna mála. Ég hef áhuga á afstöðu hennar til gyðinga. Sjáum hvað fæst út úr því (ártöl eru misnákvæm):

1120, Sicut Judaeis, Callixtus II
Gyðingar sem fóru illa út úr fyrstu krossferðinni njóta nú verndar páfa.

1205, Etsi Judaeos, Innocentius III
Gyðingum leyfist að hafa eigin bænahús og þurfa ekki að taka kristna trú. Gyðingar mega þó ekki snæða með kristnum eða halda kristna þræla.

1218, In generali concilio, Innocentius III
Gyðingum er gert að klæðast auðkennisbúningum til aðgreiningar frá öðrum og greiða tíund.

1233, Etsi Judaeorum, Gregorius IX
Gyðingar skulu njóta sömu virðingar í kristnum löndum og kristnir vilja njóta í heiðnum löndum.

1239, Si vera sunt, Gregorius IX
Gyðingleg rit skulu gerð upptæk, sérstaklega Talmúd, vegna gruns um guðlast.

1244, Impia Judeorum perfidia, Innocentius IV
Gyðingar mega ekki ráða kristnar hjúkrunarkonur.

1247, Lachrymabilem Judaeorum, Innocentius IV
Ofsóknum á hendur gyðingum sakir falskra ásakana um blóðfórnir kristinna barna í ritúölum sínum skal hætt.

1348, Quamvis perfidiam, Clement VI
Tilraun til að stöðva orðróm um að gyðingar hafi valdið Svarta dauða með því að eitra brunna.

1442, Dundum ad nostram audientiam, Evgenius IV
Alger aðskilnaður kristinna og gyðinga.

1442, Super Gregem Dominicum, Evgenius IV
Forréttindi Kastilíugyðinga eru afnumin og ýmis höft sett á þá. Kristnir Kastilíumenn mega ekki snæða, drekka, búa eða baða sig með gyðingum eða múslimum. Sérhver vitnisburður gyðinga eða múslima gegn kristnum er ógildur.

1447, Super Gregem Dominicum, Nikulás V
Ákvæði Evgeniusar endurtilskipað til Ítalíu.

1451, Super Gregem Dominicum, Nikulás V
Ítrekun og endurtilskipun sama ákvæðis.

1555, Cum nimis absurdum, Páll IV
Trúarleg og efnahagsleg höft lögð á gyðinga í umdæmi páfa.

1569, Hebraeorum gens sola, Píus V
Gyðingar í umdæmi páfa mega nú aðeins búa í Róm og Anconu.

1586, Christiana pietas, Sixtus V
Gyðingar mega nú aftur búa sem þeim líkar í umdæmi páfa.

1593, Caeca et obdurata, Clement VIII
Gyðingar gerðir brottrækir á ný úr umdæmi páfa.

Þetta er sem fyrr segir ekki nærri því allt er varðar gyðinga, en gefur ákveðna hugmynd um togstreituna og þá sífelldu jaðarsetningu sem gyðingar hafa mátt búa við í árþúsundir. Mér finnst þetta áhugavert.

Miði til Kaupmannahafnar

Ég á flugmiða til Kaupmannahafnar. Slíkir flugmiðar, þótt þeir kosti ekki (rosalega) mikið, eru með því dýrmætasta sem ég veit. Miði til Kaupmannahafnar er ekki aðeins aðgöngumiði að þriðja heimalandinu, heldur að vinum, kunningjum og samstarfsfólki hér og þar í Danmörku sem ég hitti sjaldnar en ég vildi.

Í Kaupmannahöfn verð ég í þrjá mánuði að rannsaka miðaldahandrit, eitt af þessum sem menntamálaráðherra man eftir þegar hann þarf að semja ræðu en lætur þess utan sem hann kannist ekki við. Ótrúlegt að honum sé enn boðið að halda þær.

Þeim sem vilja kynna sér hvaða handrit ég ætla að rannsaka er bent á bls. 92–95 í bókinni 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, einkum á fallegu opnumyndina á bls. 94–95. Þetta er (meðal annars efnis) veraldarsaga frá 14. öld. Það vita það fáir en veraldarsögur eru með merkilegustu bókum sem til eru. Þeir sem vilja vita hvað Snorri Stull og höfundar Íslendingasagna héldu um heiminn ættu að byrja á að lesa veraldarsögu.

Þetta er ekki allt sem ég ætla að skoða, en það helsta.

Í Árnasafni úir og grúir af ómetanlegum gömlum bókum sem búa yfir ótal leyndardómum um löngu horfna tíð. Ég finn oft fyrir virðingarleysi gagnvart þessum viskuauð, ekki síst hjá þeim sem fara með æðstu yfirstjórn menningar- og menntamála í þessu landi. Hefði bókunum ekki verið bjargað í brunanum í Kaupmannahöfn forðum mætti líkja missinum við hið glataða bókasafn í Alexandríu, bara á smærri kvarða.

Íslendingar komust ansi nærri því að verða sögulaus þjóð. Kannski ekki síst þess vegna eru Íslendingar margir mjög áhugasamir um eigin sögu. Vandinn er kannski helst sá að flestir telja sig þekkja hana til hlítar þegar við vitum í raun sáralítið, að Árnastofnun sé minjasafn en ekki rannsóknarstofnun, og að óþarfi sé að veita peningum í handritin því þau verði alltaf til — sem þau verða einmitt ekki. Þekkingin verður heldur ekki alltaf til. Hún hverfur með vísindafólkinu. Vísindafólkið hverfur þegar peningarnir hverfa.

Ég hef rannsakað miðaldatexta á eigin kostnað síðustu árin og varið til þeirrar iðju fjárhæð sem talin verður í nokkrum milljónum króna. Ég hef ekki efni á því út starfsferilinn.

Nú á ég miða til Kaupmannahafnar þar sem mér verður í fyrsta skipti á ævinni beinlínis borgað fyrir rannsóknir fremur en að ég snari því úr eigin vasa. Það verður tilbreyting. Fyrir margt löngu hafði ég orðið mér úti um litla íbúð á góðum stað í borginni. Það verður einmanalegt án Eyju og stelpnanna, en ég hlakka engu að síður til. Þeir sem ekki sjá spennuna í því að fletta skinnhandriti frá 14. öld er einfaldlega fólk handan míns skilnings.

Upp úr tóminu reis … bloggið

Ég byrjaði að blogga árið 2003 í þá daga þegar Bloggari dauðans var og hét, Beta rokk gaf út „bloggbók“ og Stefán Pálsson var „frægasti og besti bloggari Íslands“. Bloggið var fyrirlitinn miðill fyrst um sinn, ekkert nema sjálfhverf fífl að fjalla um eigin tær og sveppinn í baðkerinu heima. Svo ég hálfskammaðist mín fyrir að byrja á þessu líka.

Bloggið hefur breyst síðan; ekki miðillinn, heldur innihaldið. Maðurinn sem áður stærði sig af því að hafa „skrifað á netið síðan löngu áður en bloggið var fundið upp“ og þó aldrei verið bloggari, enda væri auvirðileg iðja að blogga, hann er núna frægasti (en ekki besti) bloggari Íslands.

Innihaldið hefur að því leytinu breyst að núna þurfa blogg helst að „fjalla um eitthvað“. Það dugar ekki lengur að búa í litlu múmínhúsi í vesturbænum og hjóla í vinnuna til að hægt sé að blogga um það. Blogg voru svosem alltaf pólitísk, en nú eru þau orðin vettvangur pólitískra greinaskrifa fremur en styttri athugasemda. Þar kemur tvennt til: annars vegar nýting dagblaðanna á bloggsíðum til að koma í stað hinna hefðbundnu viðhorfspistla, hins vegar Facebook sem orðinn er aðalvettvangur þessara styttri athugana. Ef ég fyrir tíu árum bloggaði um að George Bush væri stríðsglæpamaður þá gátu umræðurnar tekið marga daga og innleggin skipt tugum. Núna skrifar maður bara status og flestir læka til að „kvitta fyrir lesturinn“ (frasi af Moggablogginu gamla) frekar en að tjá sig.

Blogg verða auðvitað miklu minna spontant ef maður á allt í einu að byggja þau upp einsog fimm paragrafa esseiur. Þess vegna hefur gengið illa að halda Blogginu um veginn við. Stundum langar mig kannski að varpa einhverju fram í hálfkæringi um það sem ég vinn við, rannsóknir á miðaldatextum. En þegar til kemur þá ræð ég ekki við það. Hálfkæringurinn og nákvæmnisáráttan eiga í stöðugum erjum og á meðan er ekkert bloggað nema kannski um hversu erfitt er að blogga á Facebooköld. Einsog þessi færsla er.

Nú er að sjá hvað gerist með nýju upphafi. Ég byrjaði að blogga hjá Blogger og flutti mig svo yfir til Kaninkunnar 2005. Um líkt leyti flutti Óli Gneisti sig þaðan og stofnaði Truflun. Kaninkunni var einhverju sinni þannig lýst á spjallþræði að hún væri „vinstri bloggorgía“. Þar bloggaði enda mikið til það sama fólk og stofnaði og skrifaði á Múrinn meðan hann var og hét. Þótt ég kæmi seint inn var ánægjulegt að tilheyra þeim góða hópi.

En nú er langt um liðið. Múrinn hætti 2006 eða 2007 og nú er Kaninka að renna sitt skeið á enda. Sjálfur er ég fluttur á Truflun, sem sjá má. Og nú er bara að sjá hvað verður úr. Kannski mér takist að yfirstíga vandvirknina og leiðindaham pólitískra dálkaskrifa til að skrifa um eitthvað annað en þetta eilífa argaþras. Til að nálgast aftur það sem bloggið var án þess samt að það fari út í heimilisstörf og tannlæknatíma. Þetta blogg er fyrir alla og engan, einsog segir í undirtitli bókar einnar sem aldrei hættir að koma mér á óvart að hafi verið skrifuð fyrir nokkurn. Sennilega munu margir undrast á líkan hátt um þau skrif sem hér verða og þegar eru: ellefu og hálft ár af engu sérstöku.