Í gær urðu ákveðin tímamót, sem mér síðan fipaðist við að koma í orð þess heldur sem tilefnið var meira. Ég ætla að gera aðra atlögu að því hér.
Haustið 2000 fylktu spenntir nýnemar í Menntaskólanum í Reykjavík liði úr skólasetningu í dómkirkjunni og dreifðust á stofur í hinum ýmsu byggingum skólans. Á stofu C-101 í Casa Nova var skipað ýmsu úrvalsfólki og þeirra á meðal voru þrjú töluvert lúðaleg ungmenni, gerólík um flesta hluti, sem náðu gríðarvel saman en í tveimur kippum þó: við Alli annars vegar, en Alli og Silja hins vegar.
Síðan féll ég um vorið og tók þriðja bekk aftur.
Ég kann ekki að skýra hvers vegna við Silja urðum ekki vinir fyrr en við lentum aftur saman í bekk haustið 2002 öðruvísi en svo að sennilega taldi hvort okkar hitt ekki hafa neinn áhuga á frekari kynnum. Dag einn bar það til að við tókum bæði fjarkann af Lækjartorgi og þá var ekki um annað að ræða en að ég settist hjá henni. Upp úr kafinu kom að bæði spiluðum við á hljóðfæri og þegar komið var fram í janúar höfðum við tekið upp lagið Permiscua musica í gervi hljómsveitarinnar Helþrymju með liðsinni Hallgríms Jóns Hallgrímssonar frænda míns og Smára tarfs. Það var eins og við hefðum aldrei ekki þekkst. Lagið má heyra hér.
Það var þennan vetur sem við fórum að hittast öll þrjú saman. Menntavegurinn hafði leitt Alla upp í Breiðholt og þegar voraði 2003 stóðum við Silja okkur nógu líkt á prófi að hvorugu okkar var lengur til setunnar boðið á þeim skólabekknum.
En þó að gamla miðbæjarskólanum hafi ekki haldist á okkur þá höfum við Silja og Alli alltaf haldist saman. Við höfum í öll þessi ár verið óbreytanlegur kjarni í misstórum vinahópum eftir tímabilum, en þessi síðustu ár hafa fundirnir verið færri og lengra á milli þeirra en við höfum haft vanda til. Svoleiðis kemur fyrir. En það er líka það eina sem hefur breyst. Einhvern veginn höfum við þessar ólíku manneskjur alltaf haldið tryggð hverjar við aðra; við höfum átt athvarf hvert í öðru andspænis erfiðleikum lífsins, leitinni að ástinni, og í því sem mestu máli skiptir í lífinu sem er að hafa það skemmtilegt.
Við grínuðumst stundum með það hvert okkar myndi gifta sig fyrst, og nú þegar við höfum öll gift okkur á rétt rúmu ári finn ég það sterkar en áður hvað við erum alltaf eitthvað svona samferða í þessu. Þegar ég gekk áleiðis heim í nótt eftir brúðkaup Silju og Dóra hennar leiddu fæturnir mig, á ef til vill lítt dularfullan hátt, inn á Þingholtsstræti þar sem ég staldraði við dularfulla byggingu sem lætur lítið yfir sér en geymir heilan heim sem mótaði mig, og við gluggann sem vísar inn að ganginum langa í Cösu Nova varð mér litið inn, þar sem eitt sinn gengu þrjú lúðaleg ungmenni og veltu fyrir sér undarlegustu hlutum sem aðeins ungu fólki kæmi í hug að hugsa um upphátt, Silja gestikúlerandi af innlifun og Alli flissandi í leðurjakka með einhverja græju í hönd og sígarettu bak við eyrað, ég frakkaklæddur og ofsmurður geli um hárið, bestu vinir sem nokkru sinni hafa verið til. Hvernig getur maður annað en velt því fyrir mér hvað í ósköpunum maður gerði til að eiga skilið að eiga svona minningar, hversu mikil heppni það var að við þrjú höfum einmitt ratað í þennan sama þriðja bekk B haustið 2000.
Það er það sem ég hugsa um núna á þessum tímamótum þegar Silja giftist síðust okkar (þvert á allar spár mínar varð ég fyrstur til) og flytur til Stokkhólms nú eftir helgi. Af okkur eru til ýmsar sögur misjafnlega viðeigandi endursagnar, og margar þeirra eru varðveittar á þessari bloggsíðu sem enn lifir frá þeim árum þegar við vorum í MR og hittumst daglega við okkar Stammtisch á Prikinu. Það er því við hæfi að setja punkt hérna í bili við ævintýrið af Silju, Alla og Agga hinum vammlausu, eins og við kölluðum okkur. Ævintýrin verða öðruvísi núna en sagan heldur áfram, enda eru vináttuböndin sterkari en svo að trosnað geti; þau hafa lifað af umbreytingu úr lúðalegum börnum í töluvert lúðalegt fullorðið fólk sem sjálft á börn. Við skiljum kannski ekkert hvað varð af árunum, en þau hafa að mestu verið góð.
Silju og Dóra bíður töluvert ævintýri í Svíþjóð, nýtt upphaf, og ég veit að lífið á eftir að leika við þau þar. Þeim sendi ég hamingjukveðjur og knús og loforð um að bresta ekki í grát í þetta skipti.