Táningarnir í Fræðagerði*

Til heiðurs Þeofrastosi:

Ég þekki mann í fræðunum sem fer leynt með kynhneigð sína af ótta við að hún gæti komið niður á fræðaferli hans. Það versta er að sá ótti er ekki ástæðulaus í heimalandi hans.

Ég þekki mann í fræðunum sem er ofurgagnrýninn á flesta kollega sína, en gerir síðan sjálfur öll sömu mistök og hann ranglega sakar aðra um. Hann hlær að einhverjum og gerir síðan nákvæmlega það sama og hann, aðeins verr.

Ég þekki konu sem hætti í fræðunum af því hún fékk ekki af sér að fara fram á það við neinn að verða leiðbeinandi sinn.

Ég þekki mann í fræðunum sem enginn vill vita af. Hann var eitt sinn mjög efnilegur að sögn en hefur farið illa með sig. Hann er strandaglópur í námi, getur ekki útskrifast en ekki er hægt að loka hann úti heldur.

Ég þekki konu í fræðunum sem hefur svo miklar áhyggjur af að kennurum hennar og kollegum þyki hún vera fífl að hún þorir aldrei að tjá skoðanir sínar.

Ég þekki mann í fræðunum sem gerir ekki annað en tjá skoðanir sínar af lítilli þekkingu og enn minni reynslu. Kennurum hans og kollegum finnst hann vera fífl.

Ég þekki mann í fræðunum sem talar afar illa um fræðimenn sem heyra ekki til en smjaðrar svo fyrir þeim á ráðstefnum.

Ég þekki mann í fræðunum sem reynir stöðugt að þóknast leiðbeinendum sínum sem eru innbyrðis ósammála og hnakkrífast yfir tölvupóstinn svo hann sjái til. Hann skiptir um ritgerðarefni tvisvar í mánuði að meðaltali og veit varla sjálfur lengur hvað hann er að gera. Það sést á öllum umsóknum hans sem er hafnað hvert sem hann sendir þær.

Ég þekki mann í fræðunum sem heldur að námskeiðsritgerðir sem hann fékk bágt fyrir einu sinni hafi verið merkari fræði en öll samantekin ritaskrá kennara sinna.

–––––
* Þessi færsla heitir eftir barnaefni sem sýnt var í lok níunda áratugarins í íslensku sjónvarpi og nefndist Táningarnir í Hæðagerði. Þeir fjölluðu um ógeðslega rík forréttindabörn í Beverly Hills sem óku um á limmúsínum með sundlaug í stað skotts.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *