Meistaraverk æskuáranna VI: Gremlins

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King
V. Táningsstúlkan penetreruð hnífi

Ég hef áður skrifað smotterí um Gremlins hér. Ég ætla að taka þann séns núna, eftir góð viðbrögð við syrpunni um meistaraverk æskuáranna, að hætta öllum trúverðugleika og halda því fram að Gremlins og Gremlins 2 séu á vissan hátt þroskasaga sem fjalli um skil bernsku og gelgju, ungdóms og ábyrgðar. Aðallega eru þetta auðvitað skemmtimyndir um kínverska álfa eða púka sem gera allt vitlaust í Bandaríkjunum, en sitthvað má samt lesa á milli línanna. Svo er hitt sem hvergi liggur milli lína heldur er grátlega augljóst, eins og að Gremlins 2 er með langtum verri tæknibrellur en fyrri myndin þrátt fyrir að vera sex árum yngri, en það er önnur saga.

Enda þótt sjálfsvísanir séu aðall Gremlins 2, þá vísar Steven Spielberg í eigin verk í fyrri myndinni. Don Steele, sem fer með hlutverk Rockin Ricky Rialto, sést aldrei í myndinni. Velkunnugir munu þó þekkja svipinn og röddina og tengja við myndina Death Race 2000 (1975) með David Carradine og Sylvester Stallone.
Enda þótt sjálfsvísanir séu aðall Gremlins 2, þá vísar Steven Spielberg í eigin verk í fyrri myndinni. Don Steele, sem fer með hlutverk Rockin Ricky Rialto, sést aldrei í myndinni. Velkunnugir munu þó þekkja svipinn og röddina og tengja við myndina Death Race 2000 (1975) með David Carradine og Sylvester Stallone.

Í upphafi Gremlins sjáum við uppfinningamanninn Rand Peltzer reyna að selja eina af sínum lélegu uppfinningum kínverskum glingursala í New York (að maður skyldi ætla). Uppfinningin nefnist Baðherbergisfélaginn, handhægt box minna en snyrtitaska sem líkt og svissneskur vasahnífur inniheldur allt það helsta sem maður myndi þarfnast til sjálfssnyrtingar á ferðalögum. Salan gengur ekki sem skyldi en þess í stað gengur Peltzer á söng lítils álfs í búri, „mogwai“ heitir dýrið, og hann ræður ekki við sig. Hann verður að eignast álfinn sama hvað því hann vill gefa hann syni sínum, sem hann barngerir með því að kalla „my kid“. Kínverjinn vill ekki selja hann, en barnabarn hans svíkur afa sinn og selur hann Peltzer fyrir utan.

Óríentalismi að verki í Gremlins: Hinn spaki, pípureykjandi Kínverji veit betur um mystískar hliðar lífsins en kjánalegir Ameríkanar. Sítt skegg hans táknar visku og þroska; markmiðið sem aðalpersónur Gremlins eiga eftir að ná.
Óríentalismi að verki í Gremlins: Hinn spaki, pípureykjandi Kínverji veit betur um mystískar hliðar lífsins en kjánalegir Ameríkanar. Sítt skegg hans táknar visku og þroska; markmiðið sem aðalpersónur Gremlins eiga eftir að ná.

Áhorfandinn veit ekki betur en sonurinn hljóti að vera lítill strákur, en í reynd er hann fullorðinn, útskrifaður úr framhaldsskóla og vinnur í banka í smábænum sínum Kingston Falls (sem er sami bær og Hill Valley úr Back to the Future, enda þótt sá fyrri sé á austurströndinni og sá seinni á vesturströndinni – takið eftir bíóhúsinu sérstaklega – sem fær mig til að trúa því að báðar myndir, sem hvor um sig er sambærileg þroskasaga, gerist í eins konar limbói ameríska úthverfadraumsins fremur en eiginlegum veruleika, þar sem persónur beggja mynda lifa lífinu og arka um sömu götur án þess að vita hver af annarri). Ekki er nóg með þetta, heldur á Billy Peltzer þegar gæludýr – hund af einhverri loðsort sem var sérstaklega vinsæl í bíómyndum á níunda áratugnum (sbr. Honey, I Shrunk the Kids). Það er því óneitanlega sérstakt þegar pabbinn kemur heim og tilkynnir syninum að þessi álfur sé nýja gæludýrið hans, eins og hundurinn eigi að fara á haugana fyrir það, og hundurinn sýnir viðeigandi merki afbrýðisemi. Við sjáum það líka mjög snemma að sonurinn hefur gengið um dyr kynferðislegs þroska þegar faðirinn sýnir honum nýjustu viðbótina við Baðherbergisfélagann, sem er rakvél, og gefur sterklega í skyn að sonur sinn hafi nægilegan skeggvöxt til að það yrði vandræðalegt fyrir hann að fara órakaður á vinnufund.

Faðirinn viðurkennir karlmennsku Billys sem bregst við með því að sprauta hvítri raksápu yfir föðurinn úr hans eigin „Baðherbergisfélaga“ – samsvörun fallosins.
Faðirinn viðurkennir karlmennsku Billys sem bregst við með því að sprauta hvítri raksápu yfir föðurinn úr hans eigin „Baðherbergisfélaga“ – samsvörun fallosins.

Þrátt fyrir þetta er Billy „krakki“ sem býr hjá foreldrum sínum og fær gjafir eftir því – álfurinn sem hann fær, Gizmo, er sjálft tákn bernskunnar. Hann er í barnslegum hlutföllum, ógnarsmár, þarf stöðuga umönnun og umhirðu varðandi hvenær hann má éta, hvernig má ekki þvo honum, en jafnframt eins og einhvers konar leyndarmál má hann ekki líta dagsins ljós. „Ekki bleyta hann, ekki fóðra hann eftir miðnætti, ekki vippa honum út,“ mætti umorða reglurnar sem fylgja kínverska álfinum – sjálfri barnæskunni sem ekki má spilla með frumstæðum þörfum snemmunglingsáranna. Þörf föðurins fyrir að færa syni sínum álfinn verður ljós: hann vill halda honum heima sem lengst, hindra hann í að verða fullorðinn. Gallharðir freudistar myndu segja að faðirinn reyni að vana soninn með gjöfinni, en látum það liggja milli hluta. Billy skilur barnæskuna eftir heima sem best hann getur þegar hann fer í vinnuna, en þegar hann kemur heim bíður hún eftir honum – fyrst sem óhlutbundin nærvera foreldranna sem koma fram við hann eins og barn en síðar á formi Gizmo – og þar ver hann tíma sínum með álfinum og grunnskólakrakkanum Corey Feldman. Billy er barn heima hjá sér hvort sem honum vex skegg eða ekki, en leit hans að eigin fótfestu á sér öll stað utan heimilis. Kærastan sem hann óskar sér vinnur bæði með honum í bankanum og þess utan á bæjarbarnum og táknar þar með tvenna vídd fullorðinsþroskans: fjárhagslega ábyrgð og þroskann til að umgangast áfengi. Hún hefur einnig upplifað föðurmissi og hefur þar af leiðandi glatað æskunni, meðan Billy sýnir ítrekað að hann er lítt þroskaður og saklaus í hugsun. Það fær Billy þó ekki að vita fyrr en hann stendur sjálfur á tímamótum.

Billy sýnir Pete álfinn sinn, en Pete bleytir hann óvart og afleiðingarnar verða þeim ofviða. Eftir þetta sjást þeir ekki varla ræðast við.
Billy sýnir Pete álfinn sinn, en Pete bleytir hann óvart og afleiðingarnar verða þeim ofviða. Eftir þetta sjást þeir varla ræðast við.

Það sem gerist þegar Billy „bleytir álfinn“ er að álfurinn fjölgar sér og getur af sér enn óþroskaðri skepnur en sjálfan sig: líkamleg afkvæmi sjálfs sín sem líkjast honum mjög í útliti en eru alveg ábyrgðarlaus og hugsa ekki um annað en svölun frumþarfa sinna. Afkvæmin eru hreint út sagt á þermistigi, þau hafa ekki annað hugtak yfir föður sinn Gizmo en „ka ka“, það sem honum er fundið til foráttu nær hámarki í saursgervingu, og hitt sem þeim er hugleikið er „yum, yum“ – matur. Fyrst um sinn virðist Billy ekki þykja það sérlega slæm hugmynd að bleyta álfinn oftar, en hann er fljótur að komast að því að það er rangt og að afleiðingarnar eru skelfilegar. Þegar Billy „fóðrar álfinn eftir miðnætti“ – réttara sagt afkvæmi hans – þá tekur hin barnslega mynd þeirra umbreytingu og verður að ögn stærri, hreistruðum, afkáralegum verum sem tákna táningsárin – í raun sömu tímamót og Billy sjálfur stendur á. Þetta eru óheflaðar, ofbeldisfullar skepnur sem hika ekki við að „bleyta og fóðra álfinn“. Og sem fyrr hvílir forsenda tilvistar þeirra á því að frumþörfum þeirra verður ekki fullnægt nema í myrkri. Einn drýslanna birtist í gervi flassara (sem þótti sérstök velsæmisvá á níunda áratugnum) og fýsnir þeirra leiða þá út í svall, drykkjulæti og slagsmál á kránni. Og þegar Billy reynir að koma í veg fyrir að aðaldrýsillinn bleyti sig sjálfur í sundlaug KFUM verður kristilegur ótti hans við sjálfsfróun ljós.

Billy fylgist varnarlaus með athöfnum drýsilsins í KFUM.
Billy fylgist varnarlaus með athöfnum drýsilsins í KFUM.

Gremlins gefur ekki annað til kynna en að umbreyting barns í táning sé óafturkræf og því sé best að barnið sé barn að eilífu – sem Gremlins 2 á vissan hátt hafnar með þroskasögu Gizmos, sem nánar verður vikið að. Billy tekst að rífa sig úr þeim þrönga stakk sem honum er sniðinn með því að stríða beint gegn æskunni og mótþróaskeiðinu. Það gerir hann – í heldur gróteskri senu – með því að brenna inni þá drýsla sem fyrrum voru álfar inni í bíóhúsi meðan þeir horfa á Mjallhvíti og dvergana sjö, þar sem þeir sitja eins og börn og syngja með. Foringi drýslanna (sem að sjálfsögðu er með hanakamb) kemst undan en Billy tekst með aðstoð barnsins innra með honum – persónugerðu í Gizmo – að afhjúpa hið dimma leyndarmál frammi fyrir dagsljósinu og kveða það niður. Drýsillinn brennur og leysist upp í afleiðingu eigin hvata: óhugnanlegt gums. Billy hefur opinberað kenndir sínar og sýnt að hann er ekki barn lengur, og þar með er honum gert kleift að stíga út í nýja dögun sem fullorðinn maður með kærustu upp á arminn.

Drýslarnir verða að tákni æskunnar sem Billy þarf að yfirstíga til að verða maður.
Drýslarnir verða að tákni æskunnar sem Billy þarf að yfirstíga til að verða maður.

Táknmynd bernskunnar þarf hann að gefa frá sér. Billy hefur hegðað sér ósæmilega, hann hefur bleytt álfinn og fóðrað, svo kínverski glingursalinn tekur af honum Gizmo með þeim orðum að hann sé ekki tilbúinn, því mogwai fylgi mikil ábyrgð. En Billy er ekki lengur barn, hann er maður. Það er föðurhlutverkið sem hann er ekki tilbúinn í. Að lokum reynir Rand Peltzer aftur að pranga upp á Kínverjann gagnslausri uppfinningu: reyklausa öskubakkanum. Það er eins og að reyna að bjóða getnaðarlaust kynlíf. En sígarettu verður ekki stungið inn um það gat nema þar verði reykur; táknmynd getnaðar er færð frá föðurnum – ekki til sonar – heldur til mannsins sem hefur táknmynd æskunnar á brott með sér. Kínverjinn tekur við öskubakkanum og álfinum og hefur hvort tveggja með sér þar til Billy er reiðubúinn. Í næstu mynd er það enda skýrt að Kínverjinn (sem þá fyrst fær nafn, Wing) deyr hóstandi og táknmynd barnsins, Gizmo, færist yfir til Billy sem er þá í þann veginn að giftast kærustunni og er í barneignarpælingum.

Barnæskan kveður Billy.
Barnæskan kveður Billy.

Gremlins fjallar því um kynþroska og það að takast á við ábyrgð, en Gremlins 2 fjallar um hjónaband. Jafnvel tákn hins bernska, Gizmo, þarf að fullorðnast þegar hann er pyntaður af uppivöðslusömum drýslum og tekur að sér hlutverk Rambos þar sem hann tekur þátt í að stráfella unglingsmyndirnar þar sem þær djamma án afláts eins og á gamlárskvöldi. Gizmo stendur þar með í svipuðum sporum og Billy í lok fyrri myndarinnar en Billy í sporum föðurins. Einn drýsillinn drekkur gáfnavökva Doktors Þvagleggs (sem leikinn er af Christopher Lee), nánast eins og að éta af skilningstrénu og glatar eins og Eva og Adam við það sakleysi sínu. Hann reynir að leiða hina drýslana áfram til menningar, en samtímis því er augljóst að þeir eru ekki nema börn, svo yfirgengilega mikil börn að þeir hafa jafnvel sumir þyrluspaðahúfur á höfðinu eins og krakki úr teiknimynd, og sjálfur skýtur hinn vitri drýsill einn slíkan í höfuðið í sömu andrá og hann talar um siðmenningu. Í hliðstæðu atriði fyrr í myndinni kvartar eldri maður við Billy undan ungu kynslóðinni sem engu eirir og ber enga virðingu fyrir neinu; hann nefnir sérstaklega endurgerð Casablanca í lit sem sé villimannsleg. Þroski og bernska eru hinar hatrömmu stríðandi fylkingar hér sem fyrr.

„Skollans unga kynslóð með þeirra síða hár og Wham!“ segir Drakúla við Billy
„Skollans unga kynslóð með þeirra síða hár og Wham!“ segir Drakúla við Billy

Öll gerist myndin í fallísku háhýsi manns sem er að öllu leyti hvatvís og barnalegur rétt eins og skrímslin sem leika þar lausum hala; hann er engu betri en þau, ekki fyrr en í lokin að hann virðist varpa allri tilveru sinni á konu sem hefur fá áhugamál önnur en vinnu og ábyrgð. Myndin fjallar mjög skýrt um mörkin milli bernsku og fullorðinsára, svo þegar Kate kærasta Billy ætlar – líkt og í fyrri myndinni – að segja raunasögu úr æskunni, afskaplega óhugnanlega sögu sem virðist ætla að fjalla um tilraun manns í Lincolngervi til að misnota hana, þá er gripið fram í fyrir henni. Það er enginn í seinni myndinni sem hefur áhuga á því að hlusta á hana, hún er hunsuð eins og barn frammi fyrir fullorðnu fólki, barn sem þó hefur glatað æskunni.

Hlutverk Kate er að segja sem minnst og gera það sem Billy vill að hún geri, þar með talið að vera heima með barnið Gizmo meðan hann fer út að borða með spólgraðri yfirmanneskju sinni (og hefur rangt barn með sér heim í ofanálag). Hún er stöðugt í hættu, æpandi og ósjálfbjarga.
Hlutverk Kate er að segja sem minnst og gera það sem Billy vill að hún geri, þar með talið að vera heima með barnið Gizmo meðan hann fer út að borða með spólgraðri yfirmanneskju sinni (og hefur rangt barn með sér heim í ofanálag). Hún er stöðugt í hættu, æpandi og ósjálfbjarga.

Það er morgunljóst að myndin fjallar um djammárin sem eru að baki. Endalausar poppkúltúrvísanir eins og vinir fleygja sín á milli einkenna myndina (raunar svo mjög að þær verða þreytandi, t.d. er myndin sjálf mynd inni í myndinni sem fólk er að horfa á, en þar eru drýslar sömuleiðis að skemma fyrir áhorfendum í bíósal svo sjálfan Hulk Hogan þarf til að lækka í þeim rostann), djammskrímslin dansa konga útötuð í konfetti og syngja New York, New York. En nú er partíið búið og myndin undirstrikar það í síðasta atriðinu þar sem kvenkyns drýsill gengur á móti starfsmanni hússins í brúðarkjól og svipur hans gefur til kynna að hann felli sig við þessi örlög sín – en fyrr í myndinni hékk hún utan á honum og æpti að honum „why won’t you commit?“ Í enskri brúðkaupshefð er talað um að brúðurin þurfi að hafa eitthvað gamalt, eitthvað nýtt, eitthvað að láni og eitthvað blátt, og ef það var ekki augljóst að sá hræringur sem er Gremlins 2 er allt þetta – blanda úr gömlu Gremlins með nýrri sögu og sígildum dægurvísunum fengnum að láni – þá breytist bakgrunnslitur kreditlistans í lokin úr svörtu yfir í bláan.

Daffy mætir síðan til að fara í taugarnar á áhorfendum og undirstrika að hann heyrir til löngu liðnum heimi bernskunnar.
Daffy mætir síðan til að fara í taugarnar á áhorfendum og undirstrika að hann heyrir til löngu liðnum heimi bernskunnar.

Fleiri þemu eru vissulega til staðar, t.d. ótti við hið óþekkta og útlenda (sbr. Dick Miller í hlutverki Murray Futterman), andstaða við kapítalisma (Mrs. Deagle í fyrri myndinni, sem á sér þónokkurn skyldleika við Mr. Potter úr It’s a Wonderful Life, og svo Clamp í seinni myndinni og allur hans kapítalíski yfirgengileiki), og ótti við nýjungar andspænis gamaldags amerískum gildum að viðlögðu smábæjarblæti. En Gremlins er svo yfirgengileg metafóra fyrir kynþroska og hjónaband; andstæður frumsjálfs og yfirsjálfs, að varla verður litið hjá því.

Það er einmitt svona kjaftæði sem Billy þarf að vaxa upp úr til að verða ábyrgur eiginmaður á framabraut.
Það er einmitt svona kjaftæði sem Billy þarf að vaxa upp úr til að verða ábyrgur eiginmaður á framabraut.

Meistaraverk æskuáranna V: Táningsstúlkan penetreruð hnífi

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King

Árið er 1996, stórfenglegt ár á (bókstaflegu) breytingarskeiði í lífi mínu, fjögur ár eru liðin frá útkomu tímamótaritgerðarinnar Men, Women, and Chain Saws: Gender in the Modern Horror Film eftir Carol Clover, þar sem hún lýsir því yfir að „The slasher film proper has died down (even the sequel activity has subsided), not least because (as I have suggested) its salient contributions have been absorbed into the mainstream […] Whatever the cause, the effect is clear: the independent or off-Hollywood horror industry has fallen on hard times. And the effect of that effect seems inevitable. Deprived of the creative wellspring of the low tradition, I suspect, larger studios are more likely than before to imitate their own tried-and-true formulas, and less likely to take a flier on the kind of bizarre and brilliant themes that can bubble up from the bottom.“ Og viti menn: Scream kemur í bíó og breytir öllu. Wes Craven fann að vísu ekki upp metahryllingsmyndina, en hann gerði hana að því sem hún er í dag.

Það er ef til vill til marks um ástand mitt fremur en myndanna sem hér verða til umfjöllunar (Scream 1996; Scream 2 1997; I Know What You Did Last Summer 1997; I Still Know What You Did Last Summer 1998; Urban Legend 1998) að mér þykja þær ekki hafa elst hætishót. Vissulega eru kostuleg „gamaldags“ atriði eins og að þurfa að deila símalínu með herbergisfélaga sem hangir endalaust á netinu yfir módem, nema mér finnst það reyndar ekkert fyndið. Svona var þetta nú bara. Svo má reyndar sumpart hlæja að tónlistinni, eins og Save Yourself með Stabbing Westward, en aftur er þetta bara til marks um tíðarandann sem var.

Það sem er áhugavert við bylgjuna sem verður með tilkomu Scream, sem sjálf gengur út á ytri vísanir í hryllingsmyndahefðina (og sem slík byggð á þeirri hefð sem varð til með Halloween tæpum 20 árum fyrr og nefnd er „slasher“ á ensku – þ.m.t. eldri mynd frá 1981 sem einnig heitir Scream – en snýst í raun meir um stungur en högg eins og hér verða færð rök fyrir), að sá hópur mynda sem verður til fyrir sakir vinsælda Scream er með töluvert af innri vísunum hver til annarrar. Þannig hefst I Know What You Did Last Summer á hópi ungmenna á strönd sem heitir Dawson’s Beach þar sem þau segja hvert öðru draugasögur. Í einni þeirra heyrir stúlka eins og krafs ofan á þaki bílsins sem hún situr í og veit ekki að það er kærasti hennar sem búið er að hengja úr tré fyrir ofan (svo deila ungmennin um hvort sagan sé sönn). Í myndinni Urban Legend sem kom út ári síðar fer Damon (leikinn af Joshua Jackson) með aðalpersónunni Natalie (Alicia Witt) út í skóg. Þegar hann ræsir bílinn verður hann vandræðalegur því þemalag sápuóperunnar Dawson’s Creek spilast af kassettu í bílnum, og hann er fljótur að slökkva á útvarpinu, og vísar þá myndin bæði til þess að Joshua Jackson lék eitt aðalhlutverkanna í Dawson’s Creek (súrmúlinn Pacey, sælla minninga), og svo vísar hún einnig til I Know What You Did Last Summer með því að benda á nafnið Dawson og hengja í næstu senu hinn fremur óviðkunnanlega Damon úr tré svo fæturnir rétt nema við þak bílsins sem Natalie situr í – og ekur af stað í geðshræringu.

Vesalings drengurinn
Vesalings drengurinn

Munurinn er þó sá að Natalie er ekki kærasta Damons, sem beitir óheiðarlegum meðulum í tilraun til að sænga hjá henni. Í myndum sem þessum er penetrasjón stúlkunnar af völdum karls jafnan undanfari þess að hún er penetreruð með hníf af öðrum – stundum sama – karli, og þannig má þekkja söguhetjuna að hún hleypir ekki hverjum sem er upp á sig. Að vísu er Damon annar til að deyja í Urban Legend (á eftir stúlku sem er afhöfðuð úr aftursæti bíls), en hann er kvengerður þannig að hann er sagður hafa lélegt skegg (áhorfandinn verður þess tæplega var að hann hafi nokkurt skegg) og hann bregst við með því að lýsa því yfir að það hafi tekið hann heila átta mánuði að safna því. Ennfremur leggur hann allt í sölurnar til að fá sofið hjá Natalie og uppfyllir þar með annað skilyrði þess að deyja: lauslæti. Honum verða einnig á þau mistök að fara úr bílnum til að skvetta úr skinnsokknum úti í skógi, með orðunum „Ég kem strax aftur,“ sem allir vita að merkja að hann komi aldrei aftur. Í Urban Legend fer að vísu lítið fyrir penetrasjón með hníf enda morðingi hennar, ólíkt hefðinni, kona. Ástæða þess að morðinginn gengur berserksgang um háskólasvæðið og myrðir þá sem verða fyrir henni er sú að hún ætlar að drepa þær stúlkur sem urðu valdur að dauða unnusta hennar með því að leika eftir flökkusögu um hættulega ökuþóra og blikka stöðugt á hann háu ljósunum uns hann missir stjórn á bílnum og ekur út af veginum, en sjálf myrðir hún einatt með því að líkja eftir sambærilegum flökkusögum (annað dæmi er sagan um köttinn í örbylgjuofninum). Þannig tengist myndin aftur I Know What You Did Last Summer og framhaldsmynd hennar I Still Know What You Did Last Summer (sem ætti að vera „the summer before last,“ en látum það eiga sig), sem báðar hefjast á því að Freddie Prinze Jr. í hlutverki hins flata og óáhugaverða Ray ekur á eða fram á morðingjann (í seinna tilfellinu er morðinginn á BMW, alveg eins og þeim sem Ray ekur upphaflega á morðingjann með, sem endurspeglar viðsnúninginn á aðstæðum þeirra – og í þetta sinn er það Ray sem skilinn er eftir til að deyja).

Ef einhver ætti aldrei að keyra, þá væri það Ray.
Ef einhver ætti aldrei að keyra, þá væri það Ray.

Líkt og Julie (Jennifer Love Hewitt) bendir á í upphafi fyrri sumarsmellsins, þá eru hryllingssögur af ofsóttum táningsstúlkum ekkert annað en aðvörun til ungra stúlkna að stunda ekki kynlíf fyrir hjónaband, og krókurinn sem notaður er sem morðvopn í einni af sögum þeirra segir hún að sé hreint og klárt reðurtákn – og hér vísar myndin til forvera sinnar Scream og ítarlegrar hryllingsmýtólógíu hennar sem áreiðanlega þiggur ýmislegt frá fyrrnefndri bók Clover. Julie er ekki hjátrúarfyllri en svo að hún leggst með Ray af öllum mönnum á Dawson’s Beach og í beinu framhaldi aka þau niður manninn sem mun hundelta þau allar götur síðan, symbólískt vanar hinn karlmennskulega Barry (Ryan Philippe) fyrir framan kærustu hans Helen (Sarah Michelle Gellar, öðru nafni Buffy vampírubani) áður en hann penetrerar systur hennar og loks hana sjálfa í sérlega óhugnanlegri senu í húsasundi, en áður hefur hann svipt hana kvenleikanum með því að klippa af henni hárið meðan hún svaf (og hér er ágætis vísun í fyrstu myndina um Guðföðurinn, þar sem kvikmyndaleikstjóri vaknar og finnur stolt lífs síns afhöfðað í rúmi sínu), og hann hættir ekki fyrr en hann hefur sjálfur verið aflimaður af Ray.

Í framhaldsmyndinni mætir hann svo með krók í stað handarinnar sem hann missti („Gimme a hand!“ segir hafnarstjóri og er penetreraður með fallískum krók sem áður var hönd), og hér kemur sonur hans við sögu einnig sem framlenging á sadískum vilja föðurins, en faðirinn hefur getið hann við konu sinni sem hann myrti vegna gruns um framhjáhald og sonurinn því í senn afsprengi tvöfaldrar penetrasjónar króks og lims. Allt er þetta myndmál sem myndin gengst blákalt við með fullyrðingu Julie í upphafi: krókurinn er reður, hann er gjaldið sem greiða þarf fyrir kynlíf utan hjónabands – eða til hliðar við það (ekki síður en gjaldið fyrir að vera lélegur í landafræði, en söguhetjurnar vinna ferð til Bahama – fyrir tilstuðlan morðingjans – með því að giska rangt á höfuðborg Brasilíu). Ekki síður er áhugaverð sena í framhaldsmyndinni þegar karl fellur ofan á konu með skutul í bakinu; konan kemst ekki undan honum og morðinginn grípur um skutulinn og rekur alla leið í gegnum karlinn og inn í konuna. Aftur birtist hér myndmál nauðgunar, eins og senan í húsasundinu í fyrri myndinni þar sem Helen er þvinguð bak við dekkjastæður meðan heil skrúðganga fer hjá án þess að verða neins vör.

helen-s-death-helen-shivers-22335006-852-480

Allt eru þetta þó persónur sem áhorfandinn hefur litla ástæðu til að hafa samúð með, og engin þessara mynda nær í raun þeim áhrifum sem Scream setur í öndvegi, en þar er lykillinn dramatísk fjölskyldusaga sem virðist hálfsótt í harmleikinn um Ödipus konung en hinn helmingurinn úr Halloween – sem ungmennin sjást horfa á í myndinni, á meðan þau fara yfir reglur um hvernig eigi að hegða sér í hryllingsmynd, vitandi það að reglur hryllingsmyndarinnar gilda nú einnig um raunverulegt líf þeirra. Þar eru illmennin tvö, annars vegar ósköp venjulegur lúði sem hefur séð of margar hryllingsmyndir (Matthew Lillard), hins vegar hinn sjálfselski Billy Loomis (Skeet Ulrich, ójá) sem er kærasti söguhetjunnar Sidney Prescott (Neve Campbell).

Eftir nokkrar tilraunir tekst honum að vekja upp í henni nægilegt samviskubit gagnvart sambandi þeirra til að hún sofi hjá honum, og litlu síðar kemur hinn hræðilegi sannleikur í ljós að hann er orsök allrar angistar hennar: hann er stjúpbróðir hennar! Og hann nauðgaði og myrti móður hennar, vegna þess að faðir hans hélt við hana og hrakti hina raunverulega móður í burtu, sem bjó til öfund í hjarta hans. Í framhaldsmyndinni er það móðir Billys sem er (aftur) annar tveggja morðingja, en hinn er (aftur) lúði sem hefur séð alltof margar bíómyndir. Í söguheimi annarrar myndarinnar er verið að kvikmynda atburði fyrri myndarinnar eftir sögu fréttakonunnar Gale Weathers (Courteney Cox, sem er stórfenglega vanmetin dramatísk leikkona, þökk sé Friends), og þar sést Luke Wilson leika Billy Loomis og Tori Spelling Sidney í sprenghlægilegri senu.

Billy Loomis mundar framlengingu karlmennsku sinnar framan í stjúpsystur sína
Billy Loomis mundar framlengingu karlmennsku sinnar framan í stjúpsystur sína

Í þriðju myndinni sem best væri gleymd, eins og oft vill vera um þriðju myndir, er morðinginn bróðir Sidney, og það verður nánast hallærislega ljóst að rýtingur/reður morðingjans snýst í raun ekki um hreinlæti æskunnar og spillingu þess heldur er hann tákn fyrir sifjaspell, og þar eru tengsl mæðra og sona sýnu brengluðust. Þó er brugðið á leik með reðurtáknið; í annarri myndinni leggur maður eyra við svonefnt gloryhole (gat í vegg sem hægt er að þiggja munnmök í gegnum) á salerni kvikmyndahúss (þar sem hann horfir á myndina um atburði fyrri myndarinnar) og fær rýting inn í eyrað – reður í næsta op í höfðinu. Þetta er hlægilegt og á að vera það. Í hallærislegu grínmyndinni Scary Movie frá árinu 2000 er það einmitt ekki hnífur sem penetrerar eyra mannsins á salerninu, heldur reður. Þá má velta fyrir sér merkingu senunnar í fyrstu myndinni þegar morðingjarnir tveir Billy og Stu stinga hvorn annan til skiptis til að líta út eins og fórnarlömb en ekki gerendur, og Stu fer að sundla og telur sig hafa verið stunginn of oft, hann sé að deyja, og grætur sáran.

Piltar stinga hvorn annan
Piltar stinga hvorn annan

Þessar myndir innihalda hér um bil allt fallega fólkið af X-kynslóðinni sem þá var mest áberandi og sum þeirra leika í fleiri en einni syrpu (t.d. Sarah Michelle Gellar sem bæði er í Scream 2 og I Know What You Did Last Summer); eina ástæða þess að Joshua Jackson er með aflitað hár í Urban Legend, svo dæmi sé nefnt, er sú að hann lék náunga með aflitað hár í Cruel Intentions. Samanlagt eru þessar myndir framlag Dawson’s Creek kynslóðarinnar til hryllingsmyndageirans (gleymum þó ekki hliðrænum myndum á við The Skulls, Gossip eða spin-off draslinu American Psycho 2, allar frá árinu 2000) og nýlundan við þessar myndir er í raun sú að þær iðka bókmenntafræði hikstalaust – þær eru suðupottur tákna og sjálfsvísana og dýrkunar á hefð og formgerð sagna. Allar byggja þær á sömu forsendum og hafa sambærilega lausn. Í heimi þeirra er engin undankomuleið frá óðum mönnum sem vilja brjóta á ungum stúlkum.

ae6b378f6421410f6259df6162c204ea

Í I Still Know What You Did Last Summer er löng lokasena þar sem Ray þjónustar munninn með rafmagnstannbursta meðan eiginkona hans Julie eigrar ein og yfirgefin um efri hæð húss þeirra og óttast um líf sitt. Á sömu stundu og Ray klárar að bursta í sér tennurnar með hinu langa tákni og hrópar upp yfir sig „I love this thing!“ birtist krókur undan hjónarúmi þeirra og kippir Julie á náttkjólnum undir rúmið, þar sem morðinginn bíður í leyni. Óbragðið sem þetta skilur eftir er tilgangur sögunnar: konur skulu ekki halda að þeim leyfist sama frjálsræði og körlum, þeim skal refsað fyrir það sem þær gera, og þeim skal refsað fyrir gerðir karlanna líka, þær eru einar og yfirgefnar í heimi sem stjórnað er af hinu fallíska, hið kvenlega er viðfang góns og kynferðislegra óra. Hitt þema myndanna er svonefnt „gaslighting“ – að rengja sífellt upplifun kvenpersónanna af veruleikanum, að hafna skýringum þeirra og spyrja hvort þær séu ekki bara að ímynda sér ógn hins penetrerandi manns sem aldrei er hægt að festa hendur á. Framlag X-kynslóðarinnar er að draga þetta upp á yfirborðið og æpa það framan í áhorfandann. En ég er ekki viss um að við höfum endilega skilið boðskapinn. Yfirgengilega líkingamálið þegar Julie syngur „I Will Survive“ í karókí andspænis endalokum myndarinnar skilur nefnilega eftir þá spurningu hvort konur geti yfirleitt lifað af í þessum heimi.

Meistaraverk æskuáranna IV: The Lion King

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.

Tveim og hálfu ári eftir síðustu umfjöllun um meistaraverk æskuáranna bregður nú svo við að orðið meistaraverk er ekki notað í háði. Hér er komin mynd sem hafði áhrif á mig og sem ég hafði miklar mætur á í mörg ár; ég lenti meira að segja nærri því í handalögmálum við leikarann Þorvald Davíð sem fór með hlutverk Simba vegna þess að ég kaus frummálið fram yfir talsetninguna og sameiginlegur vinur okkar ákvað að túlka það á sinn hátt og etja honum á mig (hvorugur okkar er sérlega þekktur núorðið fyrir að vera æsingamenn, en svona geta menningarátökin magnast upp).

Hvað er hægt að segja um Konung ljónanna sem ekki hefur verið sagt áður? Ábyggilega ýmislegt en ég held ég verði ekkert voðalega frumlegur hérna. Númer eitt, tvö og þrjú er þetta Hamlet með ljónum, nokkuð sem mér tókst að ergja vel lesna tólf ára stjúpdóttur mína með því að benda á, því það verður ekki aftur tekið þegar maður veit það og sumt vill maður fá að hafa í friði fyrir bókmenntafræðingum. En af því þetta er Disney þá fá Hamlet og Ófelía að lifa og eignast börn sem fengu sínar eigin beint-á-vhs-myndir sem best eru gleymdar. Maður toppar ekkert Shakespeare með soddan gróðahyggju og svínaríi.

Sagan hverfist um hinn unga prins Simba (Hamlet prins) sem fæðist inn í fullkomna veröld þar sem allt er í jafnvægi (Danmörk þykist vera hamingjusamasta land heims um þessar mundir, en hér er hún sýnd ískyggilega lík afrískum sléttum). Upphafsatriði myndarinnar er stórfenglegt og tónlistin ótrúleg: sólin rís á sléttunni og öll dýrin flykkjast af stað til að verða viðstödd athöfnina þar sem framtíðarkonungur þeirra er fyrst sýndur þegnum sínum (sebrahestar að hylla ljón, aðeins í Disneymynd).

„Ó, vesalings Jóríkur, ég þekkti hann!“
„Ó, vesalings Jóríkur, ég þekkti hann!“

Konungur ljónanna, Mufasa (Hamlet konungur), er dyggur fylgjandi Bangsapabbapólitíkurinnar að undanskildu því að ljónin virðast ein dýra hafa guðsgefinn rétt til að veiða sér önnur dýr til matar, innan hóflegra marka að vísu. Öll dýr eru jöfn þótt sum séu jafnari en önnur, og enn önnur dýr eru útlæg ger úr konungsríkinu: hýenurnar. Hýenur í raunveruleikanum eru einstæður og nauðsynlegur þáttur í vistkerfi Afríku, en í Konungi ljónanna eru þær úrhrök; þær eru eiginlega of líkar ljónunum, eins og bjöguð spegilmynd þeirrar hliðar sem ljónin helst óttast í sjálfum sér: þörf þeirra fyrir kjöt sem þarf að beisla til að viðhalda hinu viðkvæma jafnvægi lífsins þar sem hýenurnar eru fulltrúar gráðugs frumsjálfs sem kann sér engin mörk. Fyrir vikið eru þær sveltar og jaðarsettar og það gerir þær enn hættulegri, sem færir þær að lokum í faðm hins fláráða Öra (Claudius) eða Scar, sem er svo illur að foreldrar hans nefndu hann eftir útlitslýti sem varla er einu sinni mögulegt að fæðast með, og þar með tilheyrir hann miklu safni einhentra, eineygðra og annarra illmenna hverra fatlanir sýna innri brenglun þeirra (nafnið var illa þýtt í íslenskri talsetningu sem „Skari“; það er ekki eins og illmennið heiti Óskar).

Óskar Friðbertsson, illmenni.
Óskar Friðbertsson, illmenni.

Jaðarsetningin er fullgerð þannig að ljón sjást aldrei borða annað en pöddur meðan hýenurnar sjást rífa í sig læri af sebrahesti og síðar heilt ljón. Að vísu kemur fram í máli Simba að ljón borði antilópur og Nala reynir síðar að éta villigöltinn Pumba, og jafnvel þótt markötturinn Timon reyni að benda á þennan tvískinnung breiðir myndin snyrtilega yfir þá staðreynd að ljónin éta þegna sína. Þegar Claudius hefur með dyggilegri aðstoð hýena myrt Hamlet konung með því að hrinda honum ofan í hjörð af trylltum gnýjum (það má sjá fyrir sér að annað eins gerist reglulega í Helsingør) sannfærir hann unga prinsinn Hamlet um að allt sé þetta honum að kenna, sigar svo hýenunum á hann þar sem hann flýr í útlegð sína, en hann kemst undan óétinn (sem fyrr eru hýenurnar allar í kjaftinum, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu).

Svikinn, negldur gegnum loppurnar, nánast eins og krossfestur fellur hinn dýrlingslegi Mufasa/Hamlet/Kristur aðeins til að vitrast arftaka sínum síðar
Svikinn, negldur gegnum loppurnar, nánast eins og krossfestur, fellur hinn dýrlingslegi Mufasa/Hamlet/Kristur fram af ætternisstapanum til þess eins að vitrast arftaka sínum síðar.

Á meðan Hamlet (Simba) er í útlegðinni krýnir Claudius (Scar) sjálfan sig konung og tekur upp einkennilegt samband við drottninguna Geirþrúði (Sarabi) sem áhorfendum Disneymyndarinnar er blessunarlega hlíft við. Þau ár vex Ófelía (Nala) úr grasi og stundar veiðar fyrir konunginn sem sýnir á meðan afleiðingar óbeislaðrar nýtingar landkosta; hýenurnar hafa verið teknar inn í samfélagið og hinu viðkvæma jafnvægi vistkerfisins hefur verið raskað. Jafnvel gróðurinn deyr vegna lélegrar stjórnar konungsins, af alveg óútskýrðum orsökum (kannski gleymdi hann að vökva?).

Föðurmorð og vönun Simba – tákn reðursins brotið í baksýn.
Föðurmorð og vönun Simba – tákn reðursins brotið í baksýn.

Þar kemur til kasta Ófelíu (sem undir venjulegum sjeikspírskum kringumstæðum væri drukknuð) og bavíanans Rafiki (sem hefur lengi vantað í sviðsuppfærslur á Hamlet, grunsamlegt sem það er) að fá Hamlet til að snúa aftur úr útlegðinni og fóðra Whoopi Goldberg og fleiri hýenur á illa frændanum sem myrti föðurinn, táknrænt vanaði soninn og gerði sig breiðan við móðurina, en það er hægara sagt en gert þar sem hann telur sjálfan sig hafa myrt föðurinn og óttast það sem hann er orðinn: morðingi, engu betri en hýena. Að vera, eða ekki? Þar er efinn (eða „hakuna matata“ eins og það er kallað hér).

Kristur/Mufasa vitrast lærisveini sínum rétt áður en hann talar tungum.
Kristur/Mufasa vitrast lærisveini sínum rétt áður en hann talar tungum.

Þá grípur draugur föðurins í taumana og eggjar soninn áfram og áhorfandinn sannfærist um ágæti þessarar ráðagerðar vegna þess hvað tónlistin er frábær. Þetta getur ekki klikkað. Enda er ekki fyrr búið að éta frændann en hellidemba skellur á Helsingørkletti, sem einhverra hluta vegna logar allur ólíkt því hvernig grjót hegðar sér í raunveruleikanum, og nálega kortéri seinna er landið allt gróið og dýrin öll snúin aftur og allt er orðið frábært. Þannig hverfist myndin um hæðir: í upphafi er prinsinum haldið hátt uppi yfir öðrum dýrum á konungsklettinum, næst fellur konungurinn niður í gljúfur og deyr, og í lokin tekur prinsinn aftur völdin af illa frændanum og varpar honum fram af konungsklettinum en tekur sér þar stöðu sjálfur.

Róa sig
Róa sig

Enginn getur orðið konungur, heldur fæðist ljón konungur. Aðeins hið rétta ljón getur vammlaust troðið hið torrataða einstigi milli þess að éta þegna sína og þjóna þeim, gert brottræk hin óæskilegu dýr og getið afkvæmi sem hægt er að gera lélegar framhaldsmyndir um sem í hræsni sinni fjalla um fordóma. Stemningin kringum Simbahamlet er eins í ríkisstjórn leiddri af Dansk folkeparti; hin óæskilegu bíða á landamærunum tilbúin að tæta sundur þjóðfélagið í einni sviphendingu og ógna þar með valdajafnvægi hinna H.C. Andersen hvítu fyrir innan. Tökum hvaða jaðarhóp sem er: múslima, gyðinga, svarta, Flæmingja, læmingja, snorkstelpur og hemúla, og Konungur ljónanna sýnir okkur hvað gerist ef við hleypum þeim inn. Myndin lofar þá sem fæddir eru til forréttinda og fer hvergi í grafgötur með það að aðrir megi þakka fyrir að fá að heyra undir samfélag þeirra. Það má éta hvaða svín sem er svo lengi sem það er ekki vinur konungsins, og hýenur, þær mega bara hoppa upp í rassgatið á sér.

Danmörk, fyrir og eftir innflytjendastrauminn.
Danmörk, fyrir og eftir innflytjendastrauminn.

Þótt undarlegt sé bragðið sem tvíhyggjuheimsmynd Disney skilur jafnan eftir, þar sem allt er gott eða illt og pólitískur undirtónn virðist eftir á að hyggja yfirleitt alvarlega vanhugsaður ef ekki meira, þá er ekki hægt annað en að dást að Konungi ljónanna, stórbrotinni hreyfilist hennar og óviðjafnanlegri tónlist sem er sennilega með því betra sem nokkru sinni hefur verið samið fyrir kvikmynd. Þá hverfur seint sá rýtingur sem myndin stakk í hjarta barna árið 1994 þegar við uppgötvuðum öll sem eitt að örótt illmenni gæti fyrirvaralítið myrt pabba okkar, sem er litlu skárra en sú vitneskja sem Bambi færði okkur að mæður okkar gætu fyrirvaralaust verið skotnar í miðjum lautartúr, og hvorki bavíanar sem kunna kung fu né fuglar sem líta út eins og Rowan Atkinson geta fært neina huggun við því. En mikið er myndin óskaplega góð fyrir því.