Að sýna skrímslið

Í hryllingsbókmenntum og -kvikmyndum er alltaf viss togstreita á milli eftirvæntingar viðtakanda og sjálfs hápunktsins: þegar hið illa er leitt fyrir sjónir viðtakandans. Þegar maður loksins sér skrímslið þá getur það sjaldnast verið eins hryllilegt og maður hafði ímyndað sér það, að sýna veldur nær alltaf vissum vonbrigðum (ég myndi halda því fram að geimveran í Alien sé á þessu meginundantekning; hún er með því skelfilegasta sem sést hefur í bíómynd), en á hinn bóginn er varla hægt að sýna ekkert heldur. H.P. Lovecraft var alræmdur fyrir hæga og spennuþrungna uppbyggingu sinna sagna en síðan skirrist hann nær undantekningalaust við að afhjúpa skrímslið í lokin, með þeirri skýringu að það hafi verið svo hræðilegt að menn misstu vitið ef þeir svo mikið sem reyndu að gera sér það í hugarlund. Stephen King tókst hið þveröfuga í skáldsögunni It: að sýna skrímslið þegar í upphafi og gera það svo óhugnanlegt að lesandinn kvíðir því að því bregði fyrir aftur.

En meginreglan er að viðtakandinn finnur fyrir vissum létti þegar skrímslið birtist, því það er sjaldnast eins hryllilegt og sjálft ímyndunaraflið. Ýmsir höfundar hafa leikið sér að þessu. Drakúla greifi kemur til dæmis lítið fyrir í samnefndri skáldsögu þó að nærvera hans sé alltumlykjandi í textanum, og skrímsli Frankensteins, þegar Mary Shelley leyfir lesandanum loksins að kynnast því, umturnar öllu og sýnir okkur að það er skaparinn sem er skrímslið, en skrímslið sjálft er ekki nema afurð þeirrar fyrirlitningar sem mannfólkið sýnir því.

Ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér þegar það rifjaðist upp fyrir mér þáttur úr sjónvarpssyrpunni Tales from the Darkside sem ég sá í sjónvarpinu eitthvað um tíu ára aldurinn. Þessi tiltekni þáttur heitir „Inside the Closet“ og fjallar um háskólanemann Gail sem leigir herbergi hjá deildarforseta dýralækninga við sama háskóla. Herbergið hafði tilheyrt dóttur hans, segir hann, sem mun vera flutt að heiman til einhvers kærasta sem deildarforsetanum er sýnilega í nöp við (hann spyr Gail sömuleiðis hvort hún eigi kærasta, segist ekki vilja sjá svoleiðis gerpi koma í heimsóknir, en hún fullvissar hann um að hún eigi ekki svoleiðis). Í herberginu er lítil hurð á veggnum, tæpur metri á hæð eða þar um bil, og þegar Gail spyr deildarforsetann hvað þetta sé þá segir hann að þetta sé skápur en lykillinn sé löngu glataður.

Um nóttina heyrir hún töluvert krafs í skápnum og ályktar að það sé rotta þar, en áhorfandinn veit betur þótt hann viti ekki hvað býr í skápnum í raun. Einhverju sinni kemur hún að skápnum opnum og sér að það er alls ekkert í honum, en hún setur rottugildru inn engu að síður. Um kvöldið heyrir hún smell inni í skápnum en þegar hún ætlar að gá inn reynist hann aftur læstur.

Við sjáum fyrst glitta í skrímslið þá um nóttina þegar skápurinn opnast skyndilega og eitthvað fer út úr honum, eitthvað lítið og fölt, og það fer undir rúm Gail. Hún vaknar og sér að skáphurðin er opin, dregur fram vasaljós og gægist inn í skápinn. Þar er ekkert, rottugildran er meira að segja horfin. Hún lokar aftur skápnum og fer upp í rúm, og rétt sleppur undan náhvítum hrömmum sem skjótast undan rúminu og reyna að grípa hana. Hún tekur ekki einu sinni eftir því, en þetta fer ekki framhjá áhorfandanum – eða ímyndunarafli hans sem nú er komið á yfirsnúning.

Deildarforsetinn þrætir stöðugt fyrir að nokkuð búi í þessum skáp, rotta eða annað, og segir Gail sífellt að hætta að vesenast þetta við skápinn. Þegar eldri karlmaður sem býr aleinn vill ekki að einhver stelpa sé að gægjast í skápinn sinn þá þarf ekki mikinn freudista til að draga ályktanir. Hvað um það, næsta dag opnast skápurinn aftur og Gail gáir inn og sér að hann er fullur af dúkkulegum telpukjólum og leikföngum, en viðbrögð hennar eru merkilega hversdagsleg því hún virðist ekki átta sig á því að hún er persóna í hryllingssögu. Í stað þess að æpa og hlaupa út fer hún að gramsa í skápnum. Smellur heyrist og hún gólar, og þá sjáum við að hún hefur lent í sinni eigin rottugildru og jafnvel brotið fingur.

Deildarforsetinn hlær að frásögn hennar og gefur í skyn að þetta séu allt saman hugarórar. Þá um nóttina opnast skáphurðin aftur. Gail skríður varfærnislega að skápnum, þetta er atriði sem tekur heila eilífð að manni finnst, og hikar drykklanga stund áður en hún kveikir á vasaljósinu og beinir inn í skápinn. Hvað er þar inni?

ÞETTA!

Ekki fyrir hjartveika

 

Ég fraus þegar ég sá þetta sem krakki, hefði sennilega öskrað af hræðslu ef ég hefði komið upp einu einasta hljóði. Gail öskrar líka. Eftir alla þessa hægu framvindu er framhaldið leiftursnöggt: hún reynir að forða sér, en skápaskrímslið stekkur á hana og hálsbrýtur í snöggri hreyfingu, dregur hana síðan inn í skápinn.

Ég sat stjarfur á eftir.

Morguninn eftir er deildarforsetinn í símanum við áhyggjufulla móður Gail (sem virðist fríka út ef hún heyrir ekki í dóttur sinni á nokkurra mínútna fresti) og við sjáum skrímslið lulla niður stigann fyrir aftan hann. Ég stirðnaði aftur. Skrímslið er nú úr augsýn því það er svo smávaxið en deildarforsetinn er lengi enn í símanum. Áhorfandinn óttast að skrímslið sé komið alveg að honum þegar hann loksins leggur á og það stendur heima: deildarforsetinn æpir skyndilega og lítur niður.

En skrímslið hafði ekki ráðist á hann, kannski bara nartað ofurlétt í hann til að láta hann vita af sér. Því skrímslið reynist vera „dóttir“ hans og hann tekur lillabarnið í fangið og vaggar því og talar dúllulega við það, segist ætla að fara með það upp og segja því sögu. Þarna hellist loks ógeðstilfinning yfir áhorfandann og þar lýkur þættinum. Skrímslið í skápnum kann að vera myndhverfing fyrir hans eigin „náttúru“ ef svo má segja, sem er rökstudd með óþoli hans fyrir því að stelpur standi í því að tæla stráka og morði hinnar ungu konu. Að auki er gefin í skyn sú skýring að dýralæknir eins og hann (sem er með hús fullt af uppstoppuðum óhugnanlegum dýrum) kunni að hafa skapað sér þennan skápabúa sjálfur, sem raunar ýtir ekki síður undir fyrri túlkunina: maður sem ekki getur eignast barn með konu, hann leitar kannski á náðir vísindanna um afkvæmi. Skrímslið er oft við sjálf og í þessu tilfelli er það hið innra sjálf sem helst má ekki hleypa út úr skápnum í augsýn annarra.

Hvað byggingu snertir er þetta skápaskrímsli að mínu viti gott dæmi um ófreskju sem er frestað rétt nógu lengi að sýna, en sem er samt skelfileg þegar hún sést og heldur áfram að vekja óhug í lengri skotum ef það er gert í réttu magni. Þessum þætti tekst að sýna nákvæmlega eins mikið af skrímslinu og við þurfum.

Hvernig eldist svo þessi þáttur? Hann er eitthvað um 36 ára gamall og þið getið dæmt um það sjálf með því að horfa hérna. Einhverra hluta vegna er myndin spegluð um lárétta ásinn en það truflar ekki nema rétt á meðan kreditlistinn er í gangi.

3 thoughts on “Að sýna skrímslið”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *