Ég bý milli tveggja einna mestu umferðaræða borgarinnar. Gatan sem húsið mitt liggur við gengur alla leið niður í bæ beinustu leið framhjá einu stærsta markaðstorgi Árósa á fyrri árum, Vesterbro Torv, og að Ráðhústorginu sem liggur steinsnar frá lestarstöðinni, en sé haldið enn lengra áfram götuna endar maður við umferðarmiðstöðina, sem ég nota mikið. Það er sannarlega þægilegt að geta hjólað niður eina götu og komist allra sinna ferða innan Danmerkur. Sé farið upp götuna endar maður á svonefndu Stjörnutorgi þar sem ég hef bankaþjónustu og þurrhreinsun. Það er því engin ástæða til að yfirgefa hverfið í raun.
Handan götunnar liggur Superkiosken. Hún er að vísu ekkert súper miðað við vöruúrval, en ég versla þar mikið. Eigendurnir eru Írakar og eru alræmdir fyrir að hundleiðast sjoppan og þeir sem versla þar, horfa ekki í augun á fólkinu sem þeir afgreiða og vera almennt tíkarlegir. Þetta er mikill misskilningur raunar, þeim er bara drullusama um fólk sem verslar þar einu sinni og kemur kannski aldrei aftur. Venji maður komur sínar þangað fær maður aftur á móti skemmtilegt spjall með innkaupunum, milli þess sem þeir lauma inn afslætti á verðinu og aukafalafel í pokann. Þegar ég versla þar um helgar tíni ég bjórana beint í pokann og segi þeim hversu marga ég er með, enda treysta þeir sínum fastakúnnum, og það þarf ekki að biðja þá um sígarettur, þeir leggja pakkann bara á borðið enda vita þeir hvaða tegund ég reyki. Svona eru nú múslímar mikil helvítis óargadýr.
Ef við hinsvegar snúum okkur aðeins að vestrænni hnignun þá þykir mér sýnt að eitístískan sé búin að hasla sér völl á nýjan leik. Það sannfærðist ég endanlega um í dag þegar ég sá lifandi eftirmynd Rick Astley ganga niður götuna með uppbrettar ermarnar á beislita frakkanum sínum. Hér ganga orðið allir um með uppbrettar ermar á of víðum yfirhöfnum, og í of víðum buxum, með undarlegar uppahárgreiðslur í merkilegum litasamsetningum. Yfirvaraskegg virðast komin í tísku aftur sem og of stór gleraugu. Mér sýnist með öðrum orðum að kynslóð foreldra minna sé þarna loksins að fá uppreisn æru.
Annars ver ég dögunum mest á hjólinu með nýja fína hattinn minn milli þess sem ég rannsaka skrímsli og viðlíka skemmtilegheit. Hattar virðast einnig komnir í tísku aftur sem að sjálfsögðu er fagnaðarefni. Ég myndi birta mynd af mér við minnismerki Margrétar I. Valdimarsdóttur drottningar (1353 – 1412), en einsog það var hallærislegt að standa þar með macbókina að taka sjálfsmynd þá varð útkoman ennþá verri.
Þeim sem áttu von á skemmtilegri bloggfærslu er bent á að fylgjast með Smugunni næstu daga þar sem ég mun fara mikinn. Engin ástæða til að fara mikinn hérna þegar ég get farið mikinn þar.