Tristram og Ísold

31.
Runnu upp af leiðum þeirra
lundar tveir.
Upp af miðri kirkjunni
mætast þeir.
– Þeim var ekki skapað nema að skilja.

úr Tristranskvæði.

Klassískur rómans og afskaplega fallegt kvæði. Hinsvegar má deila um hvort sýn Salvadors Dalí hafi verið sérstaklega rómantísk eða falleg. Raunar má deila um hvort nokkuð af því sem hann gerði hafi verið fallegt, þótt óumdeilanleg sé snilld hans. Hvað sem því líður má finna nálgun Dalís hér.

Þá nær málverk Rogelio de Egusquiza, „Tristan et Isolde (La Mort)“ frá 1910, ef til vill anda kvæðisins betur. Það má finna hér. Misjöfn er listin.

Viðauki um Tristranskvæði
Síðast uppfært þann 22. febrúar kl. 15:15
Tristranskvæði er líkast til ort á 14. öld eftir Tristrams sögu ok Ísöndar, sem aftur er rituð á 13. öld að enskri fyrirmynd. Tristrams saga er raunar talsvert ævintýralegri en kvæðið. Sagan rekur uppruna sinn til keltneskra þjóðflokka í norður-Frakklandi og elstu heimildir um söguna eru frá tólftu öld. Hún hefur verið til í ýmsum útgáfum, þær heillegustu afrit af útgáfu Gottfrieds von Straßburg, en upphaflega sagan mun vera löngu glötuð. Hér má finna upplýsingar um tilurð sögunnar og hér má sjá hvaða útgáfur spruttu upp af ljóði Tómasar breska. Tristranskvæði hefur að mestu verið þýtt yfir á rússnesku, Баллада о Тристраме (Ball’ada ó Trístramje), og það má finna hér. Erindið sem ég vitna til hér að ofan er númer 22 í rússnesku útgáfunni og þýðingin er nokkuð nákvæm. Sjálfsagt er tilviljun að það rímar:

22.
На могилах их два древа
взросли тогда,
они встретились пред церквью
навсегда.
(Им судьба судила разлучиться.)

Til eru a.m.k. þrír rithættir á nafni Tristrans (Tristans, Tristrams) og jafnvel fleiri á nafni Ísoddar (Ísöndar, Ísoldar, Ísólar). Sjálfur tala ég iðulega um Tristram og Ísold. Ísönd mun þó vera upprunalegastur íslenskra ritháttu.

4 thoughts on “Tristram og Ísold”

  1. Fyndið raunar, að ég fann þetta að mestu við leit að viðeigandi mynd til að fylgja ljóði dagsins. Þetta er hérumbil 40% Wikipedia, 20% Google og afgangurinn gisk eða misviturlegar ályktanir af því sem ég fann þar.
    Síðasta erindi rússneska kvæðisins þýddi ég raunar sjálfur orð fyrir orð og komst að því að það er bein þýðing úr íslenska fornkvæðinu. Náunginn sem þýddi það fæst greinilega við þetta. Hér má t.d. finna Íslendingasögur ásamt fleiru á rússnesku.
    Ísönd tel ég að sé elsta íslenska útgáfa nafnsins einfaldlega vegna þess að Tristrams saga ok Ísöndar er elsta íslenska útgáfa sögunnar.
    Aðrar ályktanir sem ég hef dregið eru fullkomlega óáreiðanlegar og meira grúsk þyrfti til áður ég gæti haldið þeim fram af nokkurri alvöru (öll „líkast til-in“ og „það mun-in“ eru fyrirvarar sem ég set). Ég hinsvegar nenni því ekki, þótt það sé skemmtilegt. Nóg er að gera í skólanum þótt ég standi ekki í sjálfstæðri rannsóknarvinnu sem þegar er áreiðanlega unnin. Ég var bara í einhverju stuði …
    Og já, kvæðið er afskaplega fallegt.

  2. Það er þá satt þegar sagt er um þig Arngrímur að þú sért heima hjá þér að þýða ljóð þegar þú mætir ekki í skólann !!!?!!

Lokað er á athugasemdir.