Jahá! Ótrúlegur draumur sem mig dreymdi í nótt, sumpart dásamlegur, sumpart vandræðalegur. Sumpart gjörsamlega fáránlegur og að mestu á skjön við veruleikann, eins og draumar eru jafnan. Að þessu sögðu ætla ég ekki að fjalla nánar um hann á þessum síðum, og brýt þarmeð grundvallarreglu í tjáningu: Ef maður ætlar ekki að tala um það, þá á maður ekki að minnast á það. En ég er nokkuð viss um að „Le menuette“ er ekki franska.
Dagurinn fer í að reyna að hrista af mér doða síðastliðinna daga og hella sér út í alvöru málsins, listasöguritgerð og sögulestur. Er kominn á áttundu blaðsíðu ritgerðarinnar og sækist vel skrifin, mér bara leiðist sjálfur verknaðurinn svo óhemju mikið, þótt efnið sé skemmtilegt, að ég tek mér fullmargar og fulllangar pásur milli efnisgreina til að gera ekkert. Ritgerðin fjallar um upphaf nútímalistar frá Cézanne til súrrealisma. Kominn að expressionismanum (tek þá gagnrýnisverðu leið að hafa expressionismann á eftir kúbismanum). En þá er stutt eftir.
Svo er það mörghundruðblaðsíðnalesturinn fyrir sjúkraprófið sem ekki er alminlega komið í ljós hvenær verður, á fimmtudag eða föstudag. Hann kemur í stað þess að lesa ensku. Það er hvort eð er ekkert að lesa fyrir þessa ensku, hvort eð er of seint í rassinn gripið fyrir flesta að lesa hana ef eitthvað væri hægt að lesa. Þeir sem ekki kunna hana, þeir kunna hana ekki. Það er svo einfalt.
Þessi draumur, maður …
Þú mátt ekki segja svona hálfa söguna Arngrímur! Allt eða ekkert, það er ástæða fyrir þessari grundvallarreglu!
En mér skylst að öll sjúkrapróf séu á föstudag og einstaka á mánudag hjá 4. bekk, aðeins yngri bekkir á fimmtudag. Sel það ekki dýrara en ég keypti það en hef upplýsingarnar frá móður minni…
Ekkert verið að stressa sig á ritgerðarskilum og svona þegar skólinn er nánast búinn!
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060516/LIFID01/105160028/1120
Hluti af draumnum gerðist á frönskum veitingastað, sem var í strætisvagni, þar sem ég leiðrétti kunnáttumanneskju í frönsku þegar hún bað um matseðilinn. Hið rétta samkvæmt draumnum var, að sjálfsögðu, le menuette. En það er raunar ómerkilegasti og jafnframt kjánalegasti hluti draumsins.
Ég yrði brjál ef prófið yrði á mánudaginn, svo ég ætla að gera ráð fyrir að það sé á föstudegi uns annað kemur í ljós. Nógu leiðinlegt að missa af lokadjamminu þótt ég þurfi ekki að bíða heila helgi í ofanálag.
Þorkell: Aldrei að stressa sig á ritgerðarskilum þegar skólinn er nánast búinn. Betra er seint en aldrei!
Brynjar: Mig langar að finna Tom Waits á eyðilegum sveitavegi undir fjallshlíð hjá hrörlegum kofa vart sæmandi mannabústað og taka í spaðann á honum.