Myndir af Laugarneshverfi 1992-1993

Fyrsta september 1992 mætti ég á fyrsta skóladegi, öllum að óvörum, í kennslustofu 3.S. Fyrstu vikurnar þar einkenndust af þeirri tilfinningu að ég ætti ekki heima þar. Enda þótt ég vissi upp á hár hver væntanleg bekkjarsystkin mín voru, þá hafði ég ekki haft nein raunveruleg kynni af nema litlum hluta þeirra, sér í lagi Ásgeiri Sigurjóns og Inuk Má Rannveigarsyni. Sigga Ben þekkti ég eingöngu útfrá eigin fordómum. Ég var þó fljótur að kynnast krökkunum, Sigga kynntist ég vel fyrstu vikurnar mínar í S-bekknum, og hinir krakkarnir fylgdu fljótlega í kjölfarið: Alma, Arna, Dóra, Sæunn, Unnur, Gunni, Reynir, og svo mætti áfram telja. Fljótlega fann ég minn samastað í bekknum, eins fljótlega glataði ég þeim sem ég átti meðal gömlu félaganna úr N-bekknum.

Það var þennan vetur að ég fór fyrst að láta verulega til mín taka í teikningu. Segja mætti að veturinn allur hafi einkennst af sífelldu kroti og pári á pappírskost skólans. Strax fyrstu vikuna tók ég upp á að búa til allskonar skírteini, fólki til sárs gagns og nauðsynjar. Það voru spariskírteini ríkissjóðs (mjög auglýst á þeim tíma, þaðan hefur hugmyndin komið), sprengjuskírteini, bolabítsskírteini (!) og í raun allt sem hægt er að ímynda sér. Fljótlega vildi hálfur bekkurinn fá hjá mér Visakort, og þau útbjó ég nostursamlega og af mikilli ánægju.

Ég tók talsvert að leika mér við Ásgeir og Sigga, iðulega hvorn í sínu lagi þó. Þá kynntist ég teiknistíl beggja og varð fyrir talsverðum áhrifum frá báðum. Þá skóp Ásgeir einhverja þá langlífustu snilld æskuáranna: Drauga DV. Eins og dagblaðið. Blaðið samanstóð iðulega af einnar blaðsíðu (A4) eða opnumyndum af hinum ýmsasta hryllingi. Þarmeðtalið var alveg hreint dásamleg mynd af tveimur sitjandi mönnum að útbúa draugaskírteini ríkissjóðs (jamm), en af hæðinni fyrir ofan lak blóð í lítravís, niður eftir ljósakrónunni og sullaðist niður á borðið þar sem mennirnir sátu við iðju sína, og þaðan niður á gólf. Inni í skáp hægra megin á myndinni var eitthvert hræðilegt skrímsli. Hvað það hafðist við þar veit ég ekki. Ég held að síðasta tölublað Drauga DV hafi komið út tveimur árum seinna. Þá höfðum við vaxið upp úr þess háttar teikningu.

Það var þennan vetur að körfuboltamyndirnar tóku smám saman að breiðast út meðal krakka. Æðið sprakk þó ekki út meðal minnar kynslóðar held ég fyrr en haustið þar eftir. Bróðir minn eignaðist þó sínar fyrstu myndir þennan vetur og ég sömuleiðis, því ég vildi auðvitað ekki verða eftirbátur hans í myndaeign. Ég minnist þessa því það var kvöldinu áður en ég fór fyrst heim til Sigga að ég eignaðist mínar fyrstu körfuboltamyndir. Það man ég vegna þess hversu afdrifarík sú ferð átti eftir að reynast.
Það var nefnilega svo að við vorum í skólanum frá um tíu (held ég) til um það bil fjögur eða fimm. Svo þegar ég varð samferða Sigga heim til hans var talsvert liðið á daginn. Utan við farfuglaheimilið við Sundlaugarveginn földum við okkur í háa grasinu (sem ég held sé horfið undir bílastæði núna) og njósnuðum um Kristínu Helgu og Ylfu, bekkjarsystur okkar, að áeggjan Sigga að sjálfsögðu. Sjálfur skildi ég ekki löngun hans til þessarar iðju, en ég lét tilleiðast, og þannig fór sá spennandi atburður fram að við sátum á hækjum okkar í háa grasinu og horfðum á þær vinkonur ganga meðfram gangstétt, uns þær hurfu sýnum. Þá stóðum við upp og héldum af stað á Kleppsveg 66, þar sem Siggi bjó. Þetta var talsvert langt frá Laugarnesveginum, svona miðað við aldur og gönguhraða, húsið verandi rétt austanmegin við Laugarásbíó.
Ég hafði varla eytt heilum klukkutíma heima hjá Sigga þegar mamma mín hringdi þangað, froðufellandi af reiði yfir að ég hefði hvergi látið vita af mér, klukkan orðin átta um kvöld, og ég skyldi drulla mér heim med det samme. Ég náttúrlega hlýddi og arkaði af stað eftir Kleppsvegi vestur að Laugarnesvegi. Þegar ég var um hálfnaður mætir mér leigubíll og mamma nær stekkur úr honum á ferð, dregur mig inn og lætur reiðulesturinn dynja á mér. Þegar við komum heim tók hún lítið eitt að sefast og smurði mér samloku með reyktum laxi annarsvegar, aðra með hangikjöti og salati hinsvegar. En þar sem ég lá uppi í rúmi með samlokurnar og lét mér líða hræðilega fyrir að hafa valdið móður minni slíkum áhyggjum, voru körfuboltamyndirnar mínar níu það eina sem gat létt lund mína það kvöldið. Þess vegna minnist ég þeirra sérstaklega, þótt æðið sjálft hafi sem fyrr segir ekki raunverulega sprungið út fyrr en seinna.

Ég held það hafi verið á vorönn 1993 að við Ásgeir og Reynir byrjuðum í 7. flokki handboltadeildar Fram. Með okkur í liði var Arnór Atlason, sem nú spilar hjá Magdeburg. Hann átti einn heiðurinn af því að við unnum þrenn peningaverðlaun og loks bikarverðlaun í einhverri keppni sem ég kann ekki nógu góð skil á. Ég var veikur þegar úrslitaleikurinn var, en ég fékk að hafa bikarinn heima hjá mér í nokkra daga. Fannst skelfilegt að skila honum, en þetta var raunar minnst heilu ári utan tímaramma þessarar færslu, þar sem við strákarnir entumst dálítinn tíma í handboltanum. Held mér hafi þó lítið farið fram þann tíma sem ég eyddi þar. Þá hafði Arnór vafalítið meira erindi í íþróttinni en ég.

Þennan vetur sá ég hryllingsmyndina It, eftir bók Stephens King. Það var svosum sök sér að horfa á hryllinginn, ef hefði ekki verið fyrir afar ljóta rangfærslu í sjónvarpsbæklingi Stöðvar 2, þar sem sagði að myndin væri sannsöguleg. Ef sjálfur trúðurinn var ekki nógu hryllilegur, þá getið þið rétt ímyndað ykkur hvað vitneskja átta ára barns um tilvist hans var. Mér hætti fljótlega að lítast á blikuna þegar kom að því að labba heim frá vinum mínum á kvöldin, og ég fann fyrir mínum fyrsta votti af myrkfælni. Ég trúði þessu í heilt ár. Aðrar myndir af svipuðum toga höfðu engin áhrif á mig, því ég vissi að þær voru bara myndir. Þetta var allt öðruvísi. Enn hef ég ímugust á trúðum.

Umsjónarkennari okkar var Jörundur Ákason, en hann kenndi okkur einnig veturinn eftir. Þessi vetur var að því leytinu skemmtilegur, að Jörundur lék við hvurn sinn fingur, sagði okkur sögur úr æsku sinni, þjóðsögur eins og þá af djáknanum á Myrká og spilaði þjóðlög, áreiðanlega öll í G-dúr. Jörundur var gamall fyrir aldur fram, en þó hinn allra skemmtilegasti og talsvert frjálslyndur í kennslu. Hann fór lítið eftir námsskránni og beitti sér fremur fyrir þess háttar uppfræðslu sem ég hef þegar minnst á, semsagt tengdri gamallri og góðri íslenskri menningu. Hinsvegar brá stundum við að nemendur reittu Jörund til reiði og þá kárnaði heldur á dalnum. Þann sið hafði hann á, að ef nemandi lét óstýrilega, þá var hann dreginn inn í tóma kennslustofu. Þessu lenti ég tvisvar í. Þá sneri Jörundur í átt til glugga, baki í nemanda, og þuldi rólega upp sakirnar. Að því loknu sneri hann sér snögglega við og lét öll mestu fúkyrði helvítis dynja á nemandanum. Þetta gat staðið í tvær til þrjár mínútur. Að því loknu var nemandinn aftur leiddur inn í kennslustofuna.
Gamall bekkjarbróðir minn frá þessum tíma hélt því nýverið fram við mig að Jörundur hefði barið nemendur sína. Það er ekki mín reynsla af þessum ágæta manni, síður en svo, og þykir mér alvarlegt mál ef fyrrum nemendur hans ætla að halda uppi slíkum rógi.

Við lærðum heilmikið um Tansaníu í samfélagsfræðinni hjá Jörundi. Það fannst okkur afskaplega skemmtilegt. Magnaðasta vitneskja sem mér áskotnaðist þann veturinn var þó án efa að komast að sannleikanum um sjávarföllin. Þetta hafði mér aldrei dottið fyrr í hug, og ég man að ég var fullkomlega impóneraður yfir þessu lengi eftir.

Eins og segir hér að ofan voru kennsluhættir að flestu frjálslegir, og þegar skólinn eignaðist sínar fyrstu tölvur (að ég held) þá um veturinn, þá fengum við krakkarnir oft að spila í þeim tölvuleiki. Rockford var uppáhaldsleikurinn okkar (má sækja hann hér, 177 kB). Þá fengum við okkar fyrstu kynni af Minesweeper og Solitaire. Ekki skil ég enn hvernig Nintendokynslóðin gat sætt sig við slíka leiki, en kannski var það meira spennandi en bókin um Tansaníu.

Eitt hefur mér alltaf gramist sem Jörundur lét út úr sér þennan vetur, en það snerti Inuk vin minn, sem jafnan var fremur óstýrilátur í tímum (eitt sinn réðist hann á mig með skærum – ég hef aldrei fengið fullnægjandi svar um hvers vegna í ósköpunum hann gerði það). Augljóslega voru aðstæður hvergi fullnægjandi þessum nemanda, sem átti við margvísleg vandamál að etja (þó ekki geðræn, ég ítreka það sérstaklega). Þá segir Jörundur eitt sinn, að honum hafi uppfundist græja í huganum: Tvöfalt rör sem tengja mætti við munn Inuks og beina hvorum enda í sitt eyrað, svo hann gæti notið öskra sinna í friði frá okkur hinum og við í friði frá honum. Athugasemdin var að mínum dómi fullkomlega tillitslaus og óréttlætanleg. Inuk hætti í skólanum að loknum vetri, af margvíslegum ástæðum.

Jörundur gerði eitt sinn þá gloríu að senda mig og nokkra aðra krakka til sérkennara. Ég var í þeim hópi því hann áleit mig þroskaheftan. Það fór víst framhjá honum að ég hafði verið hjá talkennara, og því hefur hvergi hvarflað að manninum að talandi minn tengdist andlegum þroska ekki á nokkurn hátt. Sem betur fór slapp ég frá frekari sérkennslu, þar eð konan varð þessa áskynja. Ég get þó ekki sagt hið sama um alla hina sem ég varð samferða í sérkennslustofuna þann daginn.

Einn daginn fótbrotnaði Inuk við einhverja andskotans íþróttaiðkun og neyddist til að ganga við hækju í fleiri mánuði á eftir. Við Ásgeir urðum sjálfskipaðar hjálparhellur hans og hjálpuðum honum jafnan upp og niður stigana. Hækjurnar fengum við að leika okkur með þegar Inuk þurfti þeirra ekki við, t.d. þegar hann sat, sem var eins oft og við gátum komið við vegna áfergju í hækjurnar góðu. Það var ekki laust við pínu öfund vegna brotsins, þó með þeim fyrirvara vissulega að það væri afar vont að brjóta sig svona. Það var þess vegna spurning hvort hægt væri að verða sér úti um hækjur með öðrum leiðum.

Sumarið eftir þriðja bekk er eitthvert það allra besta í minningunni, en því eyddi ég að mestu heima hjá Inuk að spila Megaman 2. Afar minnisstæð er mér ferð ein í Húsdýragarðinn, í tilefni af níu ára afmæli Inuks. Við Ásgeir og Inuk eignuðumst hver sína skeifu og okkur sagt að þær væru happagripir. Lengi á eftir hékk skeifan á herbergisveggnum mínum, þar til einn daginn að máttur hennar þvarr, fannst mér, en þá gaf ég hana náunga sem mér þótti eiga stórfellda ógæfu skilið. Að lokinni ferðinni í Húsdýragarðinn var farið heim til Inuks, þar sem við strákarnir lékum okkur við að sveifla hver öðrum í hengirúmi úti í garði, og svo fengum við vöfflur og spiluðum tölvuleiki. Það var æðislegur dagur.

Síðar sama sumar besserwisseraðist ég við ömmu hans Inuks um Gretti sterka og Reynistaðabræður. Það var mitt fyrsta besserwiss, án efa, og fjandi gott líka. Ég fæ enn að heyra söguna í hvert sinn sem ég hitti hana.

———————————
Aðrar færslur í efnisflokknum Myndir af Laugarneshverfi:

1990-1991,
1991-1992.

Allar þessar færslur taka stöðugum breytingum, eftir því sem meira rifjast upp fyrir mér.

3 thoughts on “Myndir af Laugarneshverfi 1992-1993”

Lokað er á athugasemdir.