Ég er að lesa mjög góða bók sem heitir Flugdrekahlauparinn. Mæli með henni. Ég fékk hana þó á slæmum tíma því að núna eyði ég meiri tíma en góðu hófi gegnir við lestur hennar en ekki jafn miklum tíma við að læra eins og ég ætti að vera að gera.
Nú er ég samt að reyna að vera dugleg og læra, sjáum hvernig það gengur, ég sit allavega og hnerra og er með rauðsprengd augu, ég lít þá kannski út fyrir að hafa lært meira!
Ég fór á Draugasetrið á Stokkseyri um helgina, það var mjög gaman. Við vorum alveg búin að gíra okkur upp í það að einhver kæmi og hræddi okkur (það voru „draugar“ á setrinu sem voru í því að láta okkur bregða) og vorum alveg tilbúin með öskrin (allavega ég). Við fengum svo að kíkja í safnið sem er verið að útbúa þarna en það er um álfa, tröll og norðuljós og ég er ekki frá því að það verði eitt það flottasta sem ég hef séð.
Mamma mín átti afmæli á laugardaginn og af því tilefni fórum við út að borða á Horninu á sunnudaginn. Það var mjög ljúft. Reyndar fórum við líka í tilefni þess að Anna Rán á afmæli í dag. Hún er orðin 17 ára og fær því bílpróf við tækifæri.
Til hamingju með daginn sæta 🙂