Frá föstudegi til laugardags (Jón Hnefill, bústaður, Gettu Betur, álver, lærdómur og videospólur)

Mig vantar flatan tölvuskjá til eigu og gott videotæki til láns, sjá neðst.

Þetta er efni í nokkrar færslur en ég læt vera að deila þessu niður.

Á föstudaginn var þá fór ég á áttræðisþing til heiðurs Jóni Hnefli Aðalsteinssyni. Það var virkilega skemmtilegt. Get ekki nefnt neitt eitt sem stóð meira upp úr en annað. Þó var nú sérstaklega gaman að Cottingley álfarnir hafi komið við sögu. Ég var settur í myndbandsupptökuhlutverk og var frekar aumur eftir á enda var þessi vél aðeins þyngri en mín. Ég var síðan í því að taka upp síðasta hluta þingsins fyrir Rás 2.

Eftir að hafa minglað svoltið á Þjóðminjasafninu þá fórum við heim að undirbúa okkur fyrir bústaðaferð. Eftir að hafa tekið til draslið okkar lögðum við af stað. Það gekk ekki vel. Misstum af einni beygju þegar við vorum að reyna að stilla útvarpið á Gettu Betur. Það fór svo að við náðum ekki að hlusta né horfa á Gettu Betur. Þegar ég kom inn í bústaðinn eftir að hafa ferjað dótið okkur yfir sundurskorinn stíginn þá kveikti ég á sjónvarpinu og sá úrslitin. Bömmer. Daginn eftir sáum við reyndar endursýninguna.

Ég held að MK hafi hiklaust verið betra liðið í keppninni. Það kom töluvert á óvart. Ég nefndi það ekki fyrirfram en ég hélt að MR myndi valta yfir þá. Mér þóttu bráðabanaspurningarnar full léttar, það er ekki gott að úrslit ráðist á því hver er fljótari á bjölluna. Annars þá var Davíð bara góður spurningahöfundur, ætti að halda áfram í því. Hins vegar er eiginlega óþolandi hvernig Sigmar dregur að segja hvort svör séu rétt að röng. Hann ofnotar það svo gríðarlega.

Ég var hálfpirraður þegar ég kom í bústaðinn eftir allt vesenið. Ég var pirraður þegar ég fór ofan í pottinn en þegar ég kom upp úr var ég orðinn afslappaður. Missti mig eiginlega í því að tala um rannsóknarverkefnið mitt og það hressti mig.

Eins og síðast þegar við fórum í bústað þá náði ég að læra helling. Ég skrifaði upp eitt og hálft viðtal, gekk alveg frá því fyrra og ég ætti að geta skilað hinu í fyrramálið. Fyrir einni og hálfri viku var ég búinn að taka eitt viðtal fyrir Eigindlegar og núna er ég búinn með fjögur og þar að auki búinn að gera vettvangsathugun. Efnið er líka að taka yfir höfuðið á mér.

Við glöddumst mjög yfir álverskosningunni. Ólíkt flugvallarkosningunni um árið þá var nægileg þátttaka til að þetta væri almennilegt. Það hjálpaði kannski að í þetta sinn var enginn sem sá hag sinn í því að láta eins og að kosningarnar skiptu engu máli. Gaman að hugsa um alla peningana sem var svo greinilega sóað í að reyna að kaupa Hafnfirðinga. Annars þá finnst mér undarlegt að íbúar á Völlunum hafi ekki haft meira vægi í þessum kosningum heldur en þeir sem búa lengst frá álverinu. Ég fór annars í Hafnarfjörð um daginn og sá aðeins brot af áróðrinum sem var þar í gangi. Það virðist vera munur á því hvernig þetta fór fram þar miðað við annars staðar.

Þegar við komum heim þá enduðum við einhvern veginn í tiltekt. Ég gekk frá öllu tölvudraslinu sem hefur fylgt björgun efnis af biluðum hörðum diski. Þegar því lauk fórum við í gegnum videospólur og hentum fjölmörgum en þó ekki öllum. Videotækið mitt var einmitt að drepast en ég tók ekki eftir því fyrren áðan. Núna vantar mig að fá lánað gott myndbandstæki hjá einhverjum sem er ekki að nota það (sem eru væntanlega flestir sem eiga slíkt tæki).

Þar að auki væri gaman ef einhver sem á flatan tölvuskjá sem hann er hættur að nota gæti látið mig fá hann, jafnvel fyrir einhvern smápening. Ég þarf nefnilega alltaf að ná í stóra 17 tommu hlunkinn minn þegar ég er í einhverju meiriháttar veseni með borðtölvunni minni (sem þjónar aðallega því hlutverki að vera afar stór iPod).