Vandinn með prófkjör

Ég hef tekið eftir einum vanda með prófkjör. Það er til fullt af fólki sem hefur sterkar skoðanir á pólitík sem skráir sig ekki í stjórnmálaflokka sem það þó kýs af því að það getur ekki samþykkt stefnu flokksins í heild sinni. Um leið er til töluvert af fólki sem hefur ákaflega litlar skoðanir á pólitík sem er alveg til í að stökkva og skrá sig í flokka til að kjósa vini sína, kunningja og ættingja jafnvel þó það hafi ekki áhuga á að kjósa þann flokk. Ég veit augljóslega ekki hve viðtækt vandamál þetta er en þetta ergir mig.

Það er ein ástæða fyrir því að ég hef aldrei skráð mig úr VG þó flokkurinn ergi mig reglulega. Ég vil styðja gott fólk til að komast áfram í prófkjörum. Nú er ég mikill fylgismaður persónukjörs og vil helst að fólk geti farið í framboð án þess að vera í flokk. Um leið er það þannig að fjölmargir sem eru sammála mér í þessu skrá sig aldrei í flokka þó þar sé eina leiðin til að kjósa einstaklinga. Þó ég telji að best væri að breyta kerfinu þá er ég um leið á því að maður eigi að reyna að hafa áhrif með þeim leiðum sem maður þó hefur. Það að skrá sig í flokk til að koma góðu fólki áleiðis sem maður getur síðan kosið á þing er engin gríðarleg fórn. Ef maður er of þrjóskur til að gera slíkt þá er maður um leið að dæma sig til áhrifaleysis.