Stjórnarmyndunarviðræður

Minnihlutastjórn VG og Samfylkingar var stofnuð til þess að stjórna í tæpa þrjá mánuði. Allt miðaði við það. Við tók erfitt tímabil þar sem flokkarnir héldu landsfundi og háðu kosningabaráttu jafnframt því að reyna að ná erfiðum málum í gegn á þingi sem stóð nærri til kosninga. Maður getur því rétt ímyndað sér að það hafi verið lítill tími aflögu til þess að skipuleggja þá stjórn sem tæki við eftir kosningar.

Nú eru kosningar liðnar og allir hljóta að átta sig á að verkefni þessarar ríkisstjórnar eru erfiðari en nokkur ríkisstjórn í allavega áratugi. Það er því ekki skrýtið að það sé erfitt að skipuleggja væntanlegt starf hennar. Ég held í raun Evrópusambandsmál séu auðveld úrlausnar miðað við margt annað sem þarf að taka fyrir.

Miðað við orð Katrínar Jakobsdóttur í fréttum í dag þá eru allar líkur á að þetta verði einhver fljótmyndaðasta ríkisstjórn allra tíma á Íslandi. Það er ekki mikið að taka þrettán daga í þetta starf og ég yrði ekki hissa þó það tæki aðeins lengri tíma.

Mér þykir það því skrýtið hve menn eru  óhóflega óþolinmóðir yfir þessu öllu. Margir eru augljóslega bara að reyna að fella pólitískar keilur en aðrir virðast einlægir. Vissulega vill fólk svör fljótt en málin eru bara ekki svo einföld að það sé hægt.

Ég er ákaflega rólegur. Ég held að innan tíðar fáum við svör. Ég held að við séum loksins að fá ríkisstjórn sem getur raunverulega brugðist við og gert áætlanir vegna vanda landsins. Þetta verður augljóslega ákaflega erfitt en ég tel að við séum að fá bestu mögulegu stjórn miðað við aðstæður.