Haldið upp á útskrift

Í gær hélt ég ekki upp á útskrift og ætla heldur ekki að gera það í dag. Ég hélt upp á þrítugsafmælið mitt fyrr á árinu og fannst það nóg. Á morgun fæ ég hins vegar nokkra í kvöldmat sem hafa fylgt mér í meistaranáminu og fæ mér Ouzo með þeim.

Þegar ég fékk BA-gráðuna hélt ég upp á það á sunnudeginum en fór bara í veislu hjá öðrum á sjálfan útskriftardaginn. Það var um kvöldið í Friðarhúsinu og það voru Sverrir Aðalsteinn og Auður Lilja sem voru að útskrifast. Mér þótti því skemmtilegt að mér var boðið í veislu í gær í Friðarhúsinu hjá Steinunni Rögnvalds (mágkonu Auðar) og Þórhildi (systur Sverris). Ég ákvað að mæta án þess þó að tilkynna að ég tæki þar á móti gestum og gjöfum.

Það var mikið af skemmtilegu fólki þarna. Aðallega róttæklingar. Hápunktur kvöldsins náðist með skemmtilegum söng anarkistana.

Ég lenti þarna í samræðum við mann sem ég hef oft heyrt um. Þessar samræður byrjuðu af alvöru þegar hann spurði mig hvor ég væri ekki mikill t…. og síðan heyrði ég ekki rest. Ég hugsaði með mér “ónei, einhverjar umræður um trúmál” en síðan endurtók hann þetta og var þá að spyrja hvort ég væri ekki mikill Týsaðdáandi. Það er nú eitthvað sem er mikið skemmtilegra að spjalla um og við eyddum miklum tíma í umræður um þessa uppáhaldshljómsveit mína. Spjallfélaginn var Márus, bróður Sverris og Þórhildar.

Ég fékk líka tækifæri til að sjá minn hluta af myndasýningunni sem hefur verið þarna uppi síðan í apríl. Þarna eru myndir úr Búsáhaldabyltingunni en mínar eru allar af hinum ýmsustu skiltum enda var ég þarna aðallega í hlutverki þjóðfræðings. Mínar myndir eru því alls ekki jafndramatískar og margar aðrar þarna heldur sýna sköpun almennings sem er að ganga í gegnum óvissutíma. Það heillar mig einmitt og það eru einmitt góð rök fyrir því að ég hafi valið mér rétt nám.