Fullveldissinnar

Mér var áðan boðið í Facebook hóp sem var hluti af keppni Evrópusambandsaðildarsinna og andstæðinga Evrópusambandsaðildar. Þar voru hinir síðarnefndu kallaðir fullveldissinnar. Nú er ég, eins og ég hef örugglega oft sagt áður, mjög óviss í afstöðu minni. Ég er hins vegar nokkuð viss um að ég móti afstöðu mína ekki út frá hugtakinu fullveldi enda er ég ekkert hræddur um það. En merkimiðar eru voðalega áróðurskennd.

Hinn hópurinn nefnir Evrópusinna og Evrópuandstæðinga. Það er eiginlega meiri flónska. Það að maður sé ekki hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur ekkert að gera með afstöðu manns til Evrópu sem heimsálfu. Ég held líka að þeir sem kalla sig Evrópusinna ættu að spá í hugtakinu. Ætti sá stimpill ekki að fela í sér að maður vilji sameina alla heimsálfuna í Evrópusambandinu? Nema að þetta sé bara almenn velvilji til Evrópu og þá er ég ægilegur Evrópusinni. Ég hef ekki einu sinni komið mér út fyrir þessa litlu heimsálfu og er voða hrifinn af henni.