Símabær, óheiðarleikinn og ofsókninar

Ég er formaður félags sem er ekkert sérstaklega vinsælt. Mér finnst allt í lagi að vera óvinsæll. Ég er sáttur við málflutning minn og félagsins míns og held að það hafi nú þegar gert mikið fyrir þessa þjóð. Án þess að vera vinsæl fyrir vikið.

Ég er hins vegar ósáttur við þegar fólk lýgur og dylgjar um félagið mitt. Það er ótrúlega algengt. Andstæðingum okkar hefur tekist ágætlega að skapa frekar afbakaða mynd af okkur í hugum margra. Ég er tilbúinn að standa á bak við það sem ég, og yfirleitt við, höfum sagt og gert hjá þessu félagi. Mér leiðist þegar ég þarf að eyða tíma í að svara dylgjum og lygum óheiðarlegra manna.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég er svona náungi sem vill endilega versla við litla manninn jafnvel þó það sé aðeins dýrara. Símabær er eitt af þeim fyrirtækjum sem ég hef beint viðskiptum mínum til. Þangað til í gær.

Í gær benti Matti í athugasemd á að náungi sem hafði verið að rugla um félagið okkar á Moggabloggi væri eigandi Símabæar. Ég ákvað þá að hætta að versla við hann. Matti skrifaði síðan færslu þar sem hann segist hættur að versla við fyrirtækið, hvetur vini sína til að gera hið sama og leikur sér aðeins á því að skjóta á eigandann á svipuðum, en þó ekki jafn grófum nótum, og hann gerði um okkur.

Merkilegt nokk þá telur eigandinn þetta ofsóknir gegn sér. Það að hann ljúgi og dylgi um okkur er ekki einu sinni athugavert en að skjóta á hann eru ofsóknir. Hann vill að það gildi aðrar reglur um sig en okkur.

Mér er alveg sama þó fólk sé ósammála mér og mínu félagi og ósátt við málflutning okkar en ég geri þá einföldu kröfu að það sé heiðarlegt í gagnrýni sinni eða allavega rökstyðji hana einhvern veginn. Hvers vegna ætti ég að versla við lygara?