Ég veit ekki hvers vegna það fór framhjá mér að Eiríkur Örn Norðdahl setti á netið bókina Ást er þjófnaður nú í vor. Bókin fjallar um höfundarétt nú á síðustu og verstu tímum en þó sérstaklega um rafbækur. Það er einfalt að stela henni en EÖN býður líka upp á að fólk borgi honum fyrir.
Engir kaupa síðan jafn mikið af tómum geisladiskum og sjálfstæðir indí tónlistarmenn í grasrótinni – þeir sem taka upp eigin músík heima hjá sér eða úti í bílskúr, brenna hana í tölvunum sínum og selja hana eða gefa. Þeir greiða 35 krónur fyrir hvern geisladisk sem þeir kaupa og peningarnir renna til STEF – og þar sem grasrótin er í sjálfu sér ólíkleg til þess að komast í spilun, fá þeir sennilega ekkert til baka. Þess í stað er peningunum skipt á milli Bubba Morthens og Bó Hall. Sem allir sjá auðvitað undireins að er mjög sanngjarnt.
Ég hef áður lesið bloggfærslur Eiríks um höfundaréttarmál og verið nokkuð ánægður með þær enda spegluðu þær mínar eigin hugmyndir og pælingar nokkuð vel. Hið sama má segja um bókina.
Í hvert einasta sinn sem þú spilar lag af Youtube fyrir vini þína deyr einn tónlistarmaður úr hungri.
Opinber umfjöllun um höfundaréttarmál í nútímanum er mest á forsendum hagsmunaaðila og þessir hagsmunaaðilar eru þá yfirleitt ekki höfundarnir heldur útgefendurnir. Þess vegna getur þessi bók verið ákaflega mikilvæg fyrir umræðuna.
Það hvort ég greiði fyrir plötu Ólafs Arnalds eða skáldsöguna Freedom er núna siðferðisleg spurning. Þannig var það ekki fyrir 30 árum, en þannig er það í dag – ég bjó ekki til veruleikann, ég er bara að segja að við verðum að horfast í augu við hann.
Þetta er raunveruleikinn sem Eiríkur fjallar um í bókinni. Við getum farið á torrentsíðu og tekið inn átta þúsund bækur fyrir rafbókalesarann okkar án þess að höfundurinn fái nokkuð fyrir sinn snúð.
Ég reikna ekki með því að það hafi nokkur grætt pening á að prenta ljóð Dags Sigurðarsonar og fari ég með fleipur eru það áreiðanlega fjarska litlar og ómerkilegar upphæðir.
Rafbókalesarar hafa á síðustu árum allt í einu gert rafræna útgáfu bóka mögulega. Við vissum að þetta hlyti að vera á leiðinni því þetta liggur svo beint við þegar við erum hvort eð er alltaf að lesa texta af skjá. Hins vegar nenna fáir að lesa texta af hefðbundnum tölvuskjám.
Tölvan mín er full af stolnum bókum. Þó hef ég engan svipt neinni bók; þvert á móti hef ég hugsanlega fjölgað bókum í (ólöglegri) eigu annarra.
Eiríkur játar líka á sig alvöru bókaþjófnað. Af bókasafni meira að segja – sem er versti glæpur sem hægt er að hugsa sér. Hann tekur þó fram að þetta hafi hvílt á samvisku hans. Ef það hefði hins vegar verið leið fyrir hann að eignast bækurnar án þess að svipta bókasafnið eintökunum þá hefði hann „aldrei hikað og aldrei litið um öxl.“
En óttinn við að fólk steli bókum í stað þess að kaupa þær er bara smá hluti af myndinni. Allt í einu er möguleiki fyrir höfunda að koma ritverkum sínum til almennings án þess að þurfa annað hvort að kosta sjálft prentun eða að fara bónarleið til útgefanda.
Ljóðskáld hafa yfirleitt meiri áhyggjur af því að einhver fáist til að prenta verkin þeirra (án þess að þeir þurfi sjálfir að greiða prentunina) en að það sé svo stórkostleg eftirspurn eftir bókum þeirra
Það eru ekki bara ljóðskáld sem (nær) aldrei sjá peninga fyrir útgefnar bækur. Hvað ætli séu margir fræðibókahöfundar sem græða á útgáfu? Ég man eftir prófessor í þjóðfræði sem sagði mér að háskólinn hans, sem er einn af þeim stærri í heiminum (ofarlega á topp 100), hefði samið forlag um útgáfurétt á bókum kennara skólans. Í samningnum kom fram að ef bókin seldist í yfir 500 eintökum þá fengi höfundurinn borgað. Frábær díll. Það voru aldrei prentuð nema rúmlega 400 eintök af bókunum.
Ég held að það hafi verið í fyrra sem ritröðin „Rannsóknir í félagsvísindum“ kom fyrst út rafrænt og á svipuðum tíma voru eldri bindin líka sett á netið. Þarna eru greinar eftir fjölmarga fræðimenn, til dæmis mig, sem hafa skrifað um rannsóknir sínar á sviði félagsvísinda síðustu fimmtán ár eða svo. Frábært framtak en dáltið gamaldags því þetta var á PDF formi. PDF er leiðinlegt form sem virkar ekkert sérstaklega vel fyrir rafbókalesara. Þetta verður alvöru útgáfa þegar ég get farið inn á síðu hjá Háskólanum þar sem er yfirlit yfir þessar greinar, merkt við þær sem ég vil lesa og að lokum valið á hvaða formi ég fæ þær (mobi, epub etc.). Það væri nútímalegt. Sjálfur tel ég reyndar að það ætti einfaldlega að vera regla að greinaskrif Háskólakennara séu opnar öllum.
Vandamálið er ekki að höfundarréttur sé í sjálfu sér rangur. Vandamálið er að fyrir sakir alþekktra valdahlutfalla í heiminum (sjá t.d.: „auðvaldið“, „aðallinn“ og „stjórnmálastéttin“) er hann sífellt meira og meira hugsaður út frá þörfum rétthafa frekar en höfunda, út frá þörfum útgefenda, dreifingaraðila og framleiðenda frekar en samfélagsins alls eða einstakra neytenda.
Hverjir eiga að vera fulltrúar almennings í umræðunni – eða stríðinu – um höfundarétt? Svar sem ég get nefnt er bókasöfn, bókasafnsfræðingar og bókaverðir. Ég man ekki hvernig þetta er orðað en alþjóðasamtökin IFLA skilgreina þetta alveg örugglega sem markmið sitt. Það er meira að segja stefnan að berjast fyrir því að höfundaréttur eftir andlát höfundar verði styttur. Því miður erum við ekki nógu áberandi í umræðunni.
Rafbækur eiga að vera á opnu, samræmdu og ólæstu formatti; og skýr lög þarf að setja um að engin megi fylgjast með því hvað er inni á tölvunum okkar, að meðtöldum rafbókalesurum. Bókaverslanir mega ekki vera lokaðar öllum nema eigendum ákveðinna tækja og bókum má ekki læsa með afritunarvörnum eða annarri neyslustýringu.
Bókasöfnin eru ekki heldur alveg nógu dugleg þegar kemur að rafbókum. Ég kíkti á Gegni og sá þar hvergi neitt minnst á bókina hans Eiríks Arnar. Ekkert safn virðist hafa keypt prentað eintak af henni – en það ættu þau öll að gera – enginn hefur gert tilraun til að skrá bókina í kerfið. Enginn hefur gert tilraun til að skrá bókina í kerfið. Það er tóm þar sem bókin ætti að vera.
Að lokum
Ef það er ekki ljóst af því sem ég hef þegar skrifað þá skal ég segja það hreint út: Farið og náið í bókina hans Eiríks Arnar og lesið hana – hvort sem þið borgið fyrir hana eða ekki. Sjálfur splæsti ég lágmarksupphæð á höfundinn þrátt fyrir að ég hefði getað réttlætt mig frá því þar sem ég er að skrifa um hana. Hún er einfaldlega nauðsynlegt innlegg í umræðuna um höfundaréttamál í dag og þeir sem hunsa hana eru viljandi að velja þann kost að vera óupplýstir.
Sjálfur þarf ég endilega að koma hugsunum mínum um þessi mál á eitthvað form þó ég efist um að það verði heil rafbók.
p.s.
(allir góðir bókabéusar lesa í baði, eigi þeir bað, en þeir gera það ekki með rafmagnstæki í höndunum).
Víst Eiríkur. Sjá næstu færslu á undan þessari.