Við hverja deilum við um tekjur okkar?

Ég fór á málþingið Með hverjum deilum við tekjum okkar? um höfundarétt. BÍL stóð fyrir því. Fyrir Eirík Örn blogga ég. Þetta er unnið uppúr punktum á staðnum og því biðst ég afsökunar á því ef málfarið er mögulega klúðurslegt – ég nenni ekki almennilegri yfirferð.

Fyrst talaði Katrín Jakobsdóttir. Hún ræddi um ýmislegt en dró fáar ályktanir. Hún talaði um SOPA/PIPA og lagði áherslu á að vanda ákvörðunina við valið á leið til að bregðast við höfundaréttarbrotum á netinu. Hún talaði meðal annars um “STEf” leiðina sem gerir ráð fyrir gjaldi fyrir netteningar en nefndi þann vankant að það er erfitt að dreifa þeim greiðslum á sanngjarnan hátt til listamanna. Það verður víst frumvarp um breytingar á höfundaréttarlögum núna í haust. Hún nefndi líka nauðsyn þess að gera fólki kleyft að borga fyrir efni á netinu.

Næst kom hins danska Pia Raug. Hún lagði áherslu á að listamenn þyrftu að taka þátt í umræðunum um þessi mál en ekki bara treysta á útgáfafyrirtækin eða stjórnmálamennina (mér datt í hug landi hennar Lars Ulrich en er þó mjög sammála því). Hún talaði líka um að hún sjálf reyndi að tala við “sjóræningjana” og reyna að skilja þá. Hún benti þá á að málstaður þeirra væri oft tengdur andúð á stórfyrirtækjunum. Hún virtist reyndar sjálf ekki sjá neina leið fyrir listamenn að frelsa sig frá stórfyrirtækjunum og um leið ná að fá greiðslur fyrir list sína. Hún nefndi Creative Commons kerfið en gaf lítið fyrir það. Hún taldi að talsmenn þess væru bara prófessorar og blaðamenn sem hefðu aðrar öruggar tekjur. Hún benti líka á að það væri undarlegt að sætta sig við að borga netþjónustuaðilum fyrir nettengingar en ekki höfundum fyrir efnið sem er neytt á netinu. Síðan talaði hún um nauðsyn þess að halda á lofti og verja muninn á höfundarétti og afritunargerðarréttinum (copyright).

Þá kom GErla sem talaði um að Listasafn Reykjavíkur hefði sent póst á listamenn þar sem talað var um að senda myndir af verkum þeirra á netið. Gallinn var að listamennirnir áttu bara að gefa frá sér réttinn án þess að fá neina greiðslu fyrir. Hún talað um að það hefði verið rangt hjá listasafninu að fara á þennan hátt fram hjá Myndstef sem ætti að sjá um slík samningamál. Það sem ég hugsaði í þessu samhengi var reyndar að listamenn gætu þarna fengið alveg frábæra auglýsingu sem myndi skila sér til þeirra með auknum áhuga og sölu.

Ólöf Ingólfsdóttir danshöfundur ræddi um höfundarétt á dansi í tengslum við myndband eftir Beyonce þar sem tekin voru beint upp atriði úr frægri kvikmynd eftir danshöfund. Mér datt í hug sagan sem ég var nýlega að lesa um drenginn sem kenndi Michael Jackson tunglgönguna og fékk þúsund dollara eingreiðslu fyrir þá kennslu. Ólöf talaði líka um að Netið væri ómetanlegt fyrir aðgengi að allskonar list.

Á milli erinda kom Kristín Atladóttir menningarhagfræðingur með pælinguna hvað hefði sært helst við “stuld” Beyonce. Var það sæmdarrétturinn? Áhugaverð pæling.

Síðan kom Sigtryggur Baldursson. Hann nefndi að tekjutap vegna “ólöglegs” niðurhals væri um 1,7 milljarðar. Hann vísaði þar í könnun Capacent en ég fann þessar tölur ekki fljótu bragði þar þannig að ég veit ekki á hverju hún er byggð. Hann nefndi þá leið að setja gjald á nettengingar (100 kr. á hverja) en lagði líka áherslu á að búa til betri efnisveitur þar sem fólk gæti keypt löglega tónlist. Mér þótti votta fyrir þekkingarleysi hjá Sigtryggi þegar hann fór að tala um að þar sem það væru svona fá netfyrirtæki á landinu þá ætti að vera frekar auðvelt að loka fyrir veitur sem deila efni ólöglega. Ég get bara ekki séð að fjöldi netfyrirtækja hafi nokkur áhrif. Það sem hefur áhrif er fjöldi þeirra sem dreifa efni á slíkan hátt og það hve auðvelt er að komast fram hjá aðgangstakmörkunum sem netfyrirtæki gætu sett upp. Þetta yrði alveg rosalegur vindmyllubardagi og allar líkur á að um leið myndu fyrirtækin þurfa að stöðva aðgang að miklu magni af efni sem er dreift löglega. Hann nefndi líka að það hentaði vel tónlistarmönnum sem hafa ekki eigin útgefendur að setja upp eigin síður til að selja efni.

Síðast var erindi Guðmundar Andra Thorssonar flutt af Jakobi Frímanni Magnússyni. Í erindinu var listamönnum líkt við pípulagningarmann sem kemur heim til manns, lagar þvottavélina, spjallar og er skemmtilegur og fær að lokum borgað af því að eiganda þvottavélarinnar líkaði vel við hann en ekki af því að hann vann vinnuna sína. Þetta þótti mér frekar gölluð líking alveg eins og “þú myndir ekki stela bíl”. Þetta minnti mig á ræðuna sem predikarinn Jonas (persóna Steve Martin) flytur í Leap of Faith þar sem hann líkir þeim sem gefa honum pening eftir vakningarsamkomur við áhorfendur á Broadway söngleik. Munurinn er að hans áhorfendur borga ef þeim líkar “sýningin” en Broadway áhorfendurinn borga hvort sem sýningin er góð eður ei. Manni dettur í hug fólk sem kaupir bók eftir einhvern höfund (ekkert þó endilega Guðmund Andra) og gefst upp í miðjum klíðum af því bókin er svo léleg. Það grey fólk fær ekki peningana sína frá höfundi eða útgefenda. Ég veit ekki hvernig bíóstjórar myndu bregðast við ef ég gengi út í miðri mynd og heimtaði endurgreiðslu. Væri það ekki sanngjarnt? En allavega gera sjóræningjastarfsemi það að verkum að neytendurnir hafa völdin til að verðlauna þá sem gera vel og refsa þeim sem standa sig illa.

En þegar Guðmundur Andri (í líki Frímanns) fór að tala um rafbækur varð ég alveg gáttaður. Hann var vægast sagt tortryggin í garð þessarar tækni. Honum virtist sérstaklega illa við Kindle-tilraunina í Vogaskóla og sagði um hana að það væri bara hægt að setja efni af Amazon á tækin og, ég skrifaði þetta strax þannig að ég vona að þetta sé orðrétt, “stolnu efni sem kennararnir setja inn”. Ég bara skil ekki hvað hann átti við og vona að hann skýri það einhvern tímann. Það er náttúrulega rétt að benda á að, nema að þessi tæki séu eitthvað frábrugðin stöðluðu útgáfunni, þá er hægt að kaupa efni til dæmis af vefnum Emma.is og fá frítt efni frá Rafbókavefnum, Gutenberg eða Rúnatý (og fleiri stöðum). Guðmundur Andri virtist helst vilja tefja rafbókavæðinguna sem lengst. Hann virtist þó vera á því að sagnalistin myndi lifa allt af. Sjálfum finnst mér það augljóst, ef sjóræningjastarfsemi setti heilu greinarnar á hausinn þá væri enginn að framleiða klám í dag.

Ég lagði ekki í pallborðsumræðurnar þegar ég sá að fólk ætlaði að taka sér eilífðartíma í kaffipásuna – nógu mikil var töfin þegar orðin á þessu.

En já, af gjaldinu á netteningar. Ég sé strax tvo stór galla á þeirri leið. Önnur er sú sem Katrín nefndi, og mér finnst mikilvæg, og það er erfitt (eiginlega ómögulegt) að dreifa afrakstrinum á sanngjarnann hátt til höfunda. Hin er að ég tel að svona gjald sé á við að gefa skotleyfi á allt höfundavarið efni og muni þá minnka virðingu fólks fyrir höfundarétti. Ég tel að sú hafi verið raunin með STEF gjöldin á geisladiska. Allavega þakkar maður fyrir að engum datt í hug að styðja þá leið að taka netaðganginn af fólki sem tekur inn höfundavarið efni.