Mér datt svona til hugar að skoða endurútgáfuflokkinn í síðustu Bókatíðindum. Þessar sá ég sem voru fyrst gefnar út á síðustu öld.
Elsta bókin í kaflanum, sem enn fellur undir höfundarétt, er Svartar fjaðrir eftir Davíð Stefánsson kom fyrst út 1919.
Fjallkirkjan eftir Gunnar Gunnarsson – fyrsta bindi hennar kom upphaflega út árið 1923.
Fljótt sagði fuglinn eftir Thor Vilhjálmsson kom út 1968.
Gerpla eftir Laxness kom út 1952.
Litlu greyin eftir Guðrúnu Helgadóttur kom út árið 1993.
Lífsjátning : endurminningar Guðmundu Elíasdóttur söngkonu eftir Ingólf Margeirsson kom út 1981.
Maður lifandi eftir Gest Þorgrímsson kom fyrst út 1960.
Moli flugustrákur (nr. 7 og nr. 8) eftir Ragnar Lár kom fyrst út 1968.
Á þessum lista eru fimm höfundar sem eru mjög frægir á Íslandi. Ég veit ekki hvað ég myndi að lokum telja að margir tilheyrðu þessum hóp en þetta er fólkið sem má búast við að bækur þeirra séu endurútgefnar nokkuð reglulega. Hinar endurútgáfurnar eru síðan bækur sem hafa notið nokkurra vinsælda þegar þær komu út. Af þeim myndi ég helst veðja á að bækurnar um Mola seljist í einhverju magni en ég veit svo sem lítið um það.
Hvað ætli sé stórt hlutfall bóka sem munu aldrei verða endurútgefnar? Ég held að 90% sé alveg hógvært mat. Ef það er rétt hjá mér þá sé gildistími höfundaréttar (líf+70) langoftast algjörlega gagnslaus. Líklegt er að flestar þessar bækur séu í besta falli í meðallagi og í versta falli vel fyrir neðan meðallag í gæðum. Ég held því hins vegar fram að þarna hljóti líka að leynast perlur sem einhverjir elska en verða aldrei endurútgefnar vegna þess að það er flókið að leysa höfundaréttarmál og af því að enginn á eftir að græða neina peninga á útgáfunni.
Það hlýtur að vera til einhver betri útfærsla á höfundalögum en sú sem gagnast örfáum en dæmir langflesta til gleymsku. Sjálfur teldi ég, eins og ég nefnt áður, að útgáfuréttur verði frjáls fimmtíu árum eftir útgáfu verks. Það yrði reyndar mikil framför jafnvel þó þessi tími væri frá „síðustu“ útgáfu þannig að bók sem hefur verið endurútgefin 49 árum eftir fyrstu útgáfu yrði enn varin (upp að líf+70).
En hvernig væri ef höfundarréttur félli sjálfkrafa úr gildi hjá látnum höfundum á bókum sem hafa verið out of print í t.d. 20 ár? Til að fá undanþágu frá þessu þyrftu aðstandendur einfaldlega að endurnýja höfundarréttinn formlega. Ég held nefnilega að afkomendur látinna skálda vilji flestir sjá verkin lifa – en aftur á móti hafa fæstir nógu mikla hugsjón (eða þekkingu) fyrir útgáfu að þeir séu að fara að standa í þessu öllu sjálfir.
Stóri vandinn er að þetta er allt saman tilkomið vegna Bernarsáttmálans þannig að Íslendingar geta ekki breytt neinu einhliða.