Höfundavarið efni í limbó – mögulegar lausnir

Ég hef undanfarið eytt töluverðum tíma í að ræða um vandann sem felst í því að góðar bækur sem enn er varið með höfundarétti hverfur í limbó þar sem enginn hefur hag af því að gefa efnið út. Ég hef hins vegar ekki nefnt neinar praktískar lausnir. Nú er komið að þeim hluta pælinga minna.

Ég nefndi að því mig minnir í fyrri færslu um rafbókaráðstefnur að Hannes Eder hinn sænski hafi stungið upp á því að bókasöfn hefðu frumkvæði af því að „stafræna“ efni sem enn er í höfundarétt með einhvers konar samkomulagi við höfundarétthafa. Ég hef raunar verið að hugsa á svipuðum slóðum sjálfur.

Landsbókasafnið ætti að gefa höfundarétthöfum möguleika á því að gefa safninu leyfi til að skanna inn bækur og gera aðgengilegar á netinu. Safnið er nú þegar með skönnunarverkefni í gangi á vefnum Bækur (og augljóslega á Tímarit). Þar eru rit sem komin eru úr höfundarétt skönnuð og sett inn. Reyndar þá væri betra ef það væri hægt að keyra efnið út sem nútímalega rafbók og mér finnst ekkert ólíklegt að það sé verið að vinna í slíkum hugmyndum þar.

Erfiðasti þátturinn er augljóslega prófarkalestur en það væri hægt að reyna ýmsar hugmyndir í því sambandi. Það væri til dæmis hugsanlegt að þegar bók hefur verið skönnuð inn og ljóslesin til að búa til textaskjal þá gætu höfundarétthafar sjálfir lesið yfir textann og leiðrétt. Það væri sérstaklega viðeigandi ef höfundurinn sjálfur er enn á lífi. Þá væri líka hægt að hugsa sér að fá verkefnastyrki eða bjóða upp á sumarstörf fyrir námsmenn sem myndu taka að sér yfirlestur. Að lokum finnst mér alveg hægt að hugsa sér að bjóða almenningi að lesa yfir bækur. Eftir að hafa skoðað sjóræningjamarkaðinn á rafbókum veit ég vel að það er til fólk sem er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu án greiðslu til þess að koma á framfæri efni sem því þykir áhugavert. Ég get ekki ímyndað mér hvers vegna þetta fólk, og margir fleiri, væru ekki tilbúnir að gera þetta í þágu þess að varðveita bækur til framtíðar.

Samningar milli safnsins og höfundarétthafa gætu verið þess eðlis að þeir síðarnefndu héldu réttinum til þess að gera pappírsútgáfur af bókum. Sú vinna sem færi því í að gera textann rafrænan gæti því nýst til þess að gera prentútgáfur. Slíkt verður mikils virði í framtíðinni þegar hin svokallað „book-on-demand“ tækni verður orðin betri og þróaðri. Þá er hægt að prenta bók í stökum eintökum. Það er hærri prentkostnaður en dreifingar- og lagerkostnaður hverfur. Um leið má benda á að þegar búið er að rafvæða bók þá er auðveldara að búa til uppfærðar útgáfur af þeim en það á kannski meira við um fræðibækur.

Ég hef í færslum mínum um þessi mál líklega verið með of mikinn fókus á skáldsögur því ég held að rafbókavæðing fortíðarinnar (og til framtíðar) gæti orðið jafnvel dýrmætari í fræðiheiminum. Það er frekar vonlaust að ætla að græða á því að gefa út fræðibækur – nema að þú heitir til dæmis Árni Björnsson. Ég man eftir samtali við skoska þjóðfræðiprófessora sem sögðu frá því að skólinn þeirra hefði gert samning við útgáfufyrirtæki sem gerði ráð fyrir að þeir gætu fengið peninga þegar búið væri að selja fleiri en fimmhundruð eintök. Það voru aldrei prentuð svo mörg eintök og enginn græddi neitt á því að skrifa þessar bækur. Staðan er líklega ekki betri á Íslandi og ég hef heyrt af fræðimönnum sem hafa tapað peningum á útgáfum. Það er ekki heldur mikið um endurútgáfur af fræðibókum. Einstaka bækur lifa áfram þannig en flestar fara í limbó.

Ef ég tek dæmi úr minni fræðigrein þá lést Jón Hnefill Aðalsteinsson prófessor fyrir réttum tveimur árum. Hann hafði skrifað margt merkilegt á sviði þjóðfræði. Það er hins vegar erfitt að ímynda sér að það sé nokkur peningur í því að endurútgefa það en það er hins vegar mikið á því að græða að gera þetta efni aðgengilegt almenningi. Það væri því viðeigandi að gerður yrði samningur milli erfingja hans og Landsbókasafnsins um að rafvæða bækur hans. Það er reyndar sérstaklega viðeigandi þar sem Jón Hnefill var prófessor við Háskóla Íslands og Landsbókasafnið er líka bókasafn Háskóla Íslands. Ég get líka ímyndað mér að það séu ótal kennarar við Háskólann sem myndu glaðir gefa bókasafninu réttinn til að rafbókavæða rit þeirra. Það þarf bara að búa til grundvöll til þess að slíkt sé mögulegt.

Í færslunni hef ég reyndar gefið mér þá forsendu að það þurfi að skanna inn bækurnar til að búa til rafrænar útgáfur af þeim. Hins vegar eru örugglega til ótal bækur á rafrænu formi sem mun auðveldara væri að gera aðgengilegar. Það er mikilvægt að höfundar haldi upp á slík skjöl en um leið áberandi að þeir gera það ekki.

Sjálfur tel ég að það ætti að breyta skilaskyldulögum þannig að þegar skilað er inn prentútgáfum af bókum á Landsbókasafnið þá sé einnig skilað inn handriti á rafrænu formi. Þetta rafræna form bókarinnar yrði ekki gert aðgengilegt nema með samningi við höfundarétthafa en það býr til ákveðinn grundvöll til þess að þegar að því kemur þá sér hægt að gera rafrænar útgáfur aðgengilegar með lítilli fyrirhöfn.