Stóra hjólaferðin

Í vor fjárfesti ég í hjólafestingu sem er fest á skottið á bílnum. Það hefur nokkrum sinnum komið sér vel en aðalástæðan fyrir kaupunum var sú að mig langaði að hafa hjólið með mér í ferð í kringum landið.

Ég hjólaði smá á Akureyri og þegar ég var kominn á Vopnafjörð hjólaði ég í sund – sem er þægilegur 20 km rúntur sem endar á góðri afslöppun. Við vorum eina nótt í sumarbústað í Svartaskógi þar sem amma Eyglóar var að halda upp á afmæli sitt. Ég tók mig þá til og hjólaði þaðan inn á Egilsstaði. Það var ekkert sérstaklega langur túr (33 km) en þetta var í fyrsta skiptið sem ég hjóla einhverja leið á hringveginum og það er frekar brött brekka þarna um leið og maður kemur inn á þjóðveginn. Það er, skv. mælingum mínum, um 140 metra hækkun á rétt rúmlega tveimur kílómetrum. En þetta gekk bara vel. Á leiðinni mældist ég líka á hæsta hraða sem ég hef komist á sem var um 50 kmh. Yfirleitt er mér farið að líða frekar óþægilega þegar ég kemst nálægt 40 kmh. Á leiðinni tók Strætó frammúr mér. Ég held ég hafi ekkert hjólað á Neskaupsstað en þegar ég kom á Vopnafjörð tók ég nokkra 20 km rúnta.

Í vor, þegar ég var að ná mér eftir smávægilega aðgerð sem ég fór í, var ég að lesa mér til um forfeður mína á Langanesi. Aðallega hann Jóhannes Gíslason sem átti í útistöðum við einhverja Frakka. Ég var líka að skoða Árbók Ferðafélagsins sem fjallar um þennan landshluta (ótengt þessu þá er þar vísað í grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum). Mig langaði að heimsækja þennan landshluta. Ég man ekki eftir að hafa farið meira en á Þórshöfn. Ég fékk þá flugu í höfuðið að hjóla ofan af Langanesi niður á Vopnafjörð. Ég skoðaði vegalengdir og sá að þetta var geranlegt. Eygló var reyndar efins enda var ég ekki í miklu hjólaformi á þessum tíma.

Þann 19. júlí fórum við Eygló með drengina og Steinu tengdamömmu út á Langanes með hjólið fest aftan á bílinn. Við borðuðum á Grillskálanum á Þórshöfn sem má hiklaust mæla með. Þar skolaði ég líka Brekknaheiðina af hjólinu. Síðan keyrðum við aðeins lengra. Við ætluðum upprunalega að fara upp á Heiðarfjall (Hrolllaugsstaðafjall) þar sem ætti að sjást yfir gamla bæjarstæði langalangafa að Hrolllaugsstöðum og hefja túrinn þar. En við beygðum eitthvað vitlaust og síðan var vegurinn ekkert frábær þannig að mér var hleypt út úr bílnum dáltið frá rótum fjallsins. Þar hellti ég í mig vatni áður en ég lagði af stað. Veðrið var alveg ákaflega gott, eiginlega of hlýtt.

Ég bað Eygló að keyra á undan mér af stað en síðan náði ég henni strax aftur enda hjólið betra farartæki á svona slökum vegum en fólksbíll. En þegar vegurinn skánaði stakk hún mig af. Það er ákaflega fallegt þarna á Langanesi og ég efast ekki um að ég fari þangað aftur. Á leiðinni upplifði ég gleði að vera varinn með hjálm enda kríurnar mjög aðgangsharðar á köflum. Gargið samt eiginlega verra þannig að ég hækkaði í tónlistinni.

Á leiðinni frá Þórshöfn hafði ég séð smá veg sem leiddi út að Grenjanesi þar sem Jóhannes á að hafa lent í sínum útistöðum en ég komst ekki langt þar því það var hlið fyrir. Ég hjólaði því til baka. Fór síðan aftur framhjá Sauðanesi þar sem hann kallinn fæddist. Ég veit ekki til þess að kotið þar sem hann bjó með foreldrum sínum standi enn.

Þegar ég kom til Þórshafnar hafði ég augun opin og horfði eftir Freyju vinkonu okkar sem við vissum að væri á Þórshöfn og viti menn, þarna var hún úti á röltinni með krökkunum. Hún var augnablik að fatta því hún bjóst ekki við mér þarna og þar að auki var ég fúlskeggjaður með hjálm og sólgleraugu. Hún er ekki fyrst til að verða ringluð á því dulargervi. Ég spjallaði aðeins og fór síðan að skila aftur vatni á sjoppunni.

Þegar maður er að fara frá Þórshöfn til Vopnafjarðar byrjar maður á því að fara yfir Brekknaheiðina sem er ómalbikið (leið mín þennan dag var svona að hálfu leyti malbikuð). Það var ekki svo erfitt enda er hún ekki svo há. Ég man ekki eftir neinu sérstöku á leiðinni þar nema að Eygló tók frammúr mér.

Erfiðasti vegurinn á leiðinni var í kringum Miðfjörð. Þar var leirinn í veginum ennþá blautur þannig að mér leið eins og ég væri að sökkva ofan í hann. Ég tók stuttu eftir þetta og stoppaði við minnismerki um Kristján frá Djúpalæk. Það hitti í mark hjá mér því annars vegar er þar ákaflega trúleysislegt ljóð sem heitir Mitt faðirvor og hins vegar Strengir úr Pílu Pínu. Ég tók mig meiraðsegja til og söng Strengi fyrir sjálfan mig þarna. Þess ber að geta að Djúpilækur virtist ekkert sérstaklega djúpur.

Þegar ég byrjaði að klífa Sandvíkurheiðinni varð ferðin fyrst í alvörunni erfið. Hún er 275 m. og þó hún sé malbikuð eru brekkurnar dáltið þungar. Ég var líka búinn með vatnið mitt og leyst ekki alveg nóg á vatnið í lækjum og ám. Ég prufaði smá úr einni á og það var frekar slæmt (Gunnsteinn afi Eyglóar sagði mér eftir á að það væri ekkert gott vatn þarna á leiðinni). Verst var samt að mótvindurinn var orðinn svoltið kröftugur (Trausti sagði að það hefði víst verið verst 10-12 m/s). Ég tók og settist niður í smá tíma út í móa og hringdi í Eygló. Langaði smá að gefast upp en gerði það ekki. Ég neyddist á verstu köflunum að reiða hjólið sem ég geri annars aldrei. Það segist eiginlega mest að þegar ég var farinn að renna niðureftir aftur þá þurfti ég ekkert að vera á bremsunum – mótvindurinn hægði nógu mikið á mér.

Ég var alveg drepast á afleggjaranum út að Selárdalslaug en harkaði áfram. Eygló keyrði framhjá mér en ef hún hefði stoppað þá hefði ég gefist upp og þegið farið. Sem betur fer gerði hún það ekki og ég kom mér alla leið. Þegar ég kom á bílastæðið bað ég Eygló um vatn og hellti örugglega hátt í lítra í mig í einum teyg. Það var verulega gott að komast í sund og þá aðallega að slappa af í heita pottinum. Mér leið eiginlega bara vel eftir og fann varla fyrir neinum eftirköstum dagana á eftir.

Kort af leiðinni
Kort af leiðinni

Fyrir þetta hafði ég mest hjólað 50 km til Grindavíkur en þetta voru 83 km sem ég hjólaði með litlum stoppum. Þetta voru um 5 klukkutímar sem þetta tók miðað við þann tíma sem ég var að hjóla. Meðalhraðinn hefði verið mikið hærri ef ég hefði stoppað fyrir Sandvíkurheiðina.

Það er svolítið gaman að skoða þessa myndrænu framsetningu á leiðinni minni sem sést á þessum tveimur myndum. Á fyrri er fjarlægðin kvarðinn en á hinni tíminn. Það þýðir að landslagið sést nokkuð rétt á efri myndinni en á þeirri neðri sést ágætlega hve erfitt það var. Takið eftir hve Sandvíkurheiðin er mikið erfiðari heldur en Brekknaheiðin sem lítur mjög svipað út á myndunum. Rétt er að taka fram að hæðarmælingar í forritinu sem ég nota eru nokkuð vafasamar með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli þó mér sýnist það vera fínt í að mæla hve hátt maður er að fara upp og niður.

83-fjarl83-timi
Þetta var gaman. Reyni aftur seinna í minni mótvindi, með meira vatn, betur sofinn og byrja þá kannski upp á fjallinu.

Leave a Reply