Væl yfir kynjakvóta í Gettu betur

Það var fullkomlega fyrirséð að fólk færi af stað væl yfir væntanlegum kynjakvóta í Gettu betur. M.a. er fullyrt að stelpur hafi einfaldlega ekki áhuga á því að taka þátt. Ef það er rétt þá getum við spurt hver sé ástæðan fyrir áhugaleysinu. Í fyrra lagi er hægt að svara því að þetta sé ekki stelpum eðlislægt á einhvern hátt. Í seinna lagi þá getum við svarað því að það sé eitthvað í menningu okkar sem fælir stelpur frá. Ég tel að við getum ekki litið til fyrra valkostarins fyrr en við höfum útilokað þann seinni og það höfum við alls ekki gert.

Fólk segir að það sé ekkert við valferlið í lið sem gerir stelpum erfiðara að komast í liðið. Ég er ekki fyllilega sannfærður. Maður gæti t.d. spurt hverjir eru það semja prófin og þá hvort það sé möguleiki á að prófið sé tengdara áhugamálum stráka en stelpna. En ég efast um að það skipti miklu máli.

Ef við lítum á menningarhlutann, annars vegar Gettu betur menninguna og hins vegar okkar eigin samfélagsmenningu, getum við kannski fengið einhver svör. Stefán Pálsson benti snemma á árinu á að Gettu betur hópar framhaldsskólanna væru strákaklíkur. Það er góð byrjun að lesa hans grein. Það er ekkert endilega spennandi fyrir stelpur að eyða vetrinum í að æfa fyrir spurningakeppni í hópi þar sem eru bara strákar. Mér finnst sumsé mun líklegra að stelpum þyki æfingarferlið lítið spennandi frekar en að þeim þyki keppnin lítið spennandi. En eins og Stefán bendir á þá hefur einn skóli oft skorið sig úr og það er MH. Þar myndaðist hefð fyrir því að stelpur væru með. Ég veit ekki hvort sú hefð er enn til staðar enda hef ég ekki nennt að horfa á Gettu betur í nokkur ár.

Ef maður vildi prufa strákaklíkukenninguna þá væri áhugavert að stofna tvo kynjaskipta Gettu betur hópa í hverjum skóla og síðan velja úr þeim þegar nær dregur keppni. Einfaldara væri væntanlega að fara þá leið að hafa einn hóp með nokkurn veginn jöfnum kynjahlutföllum.

En þetta er að sjálfsögðu flóknara. Þetta snýst líka um fyrirmyndir. Þegar stelpur mæta í framhaldsskóla þá hafa þær væntanlega alist upp við það að sjá að Gettu betur er strákakeppni. Það eru örfáar stelpur sem keppa og því ekkert skrýtið að aðrar stelpur dragi ómeðvitað þá ályktun að þetta sé nú bara fyrir stráka nema að rosalega klárar stelpur geti verið með.

Þetta er svo sem reglan í samfélaginu í heild. Karlkynið er normatívt. Karlkynið er sjálfgefið. Konur sem leggja í að fara í fjölmiðlun eða stjórnmál eða hvaðeina þar sem karlmenn hafa verið í meirihluta þurfa ekki bara að leggja í þessa karlaveldi heldur þurfa þær að gera það vitandi að þær eru stimplaðar sem fulltrúar síns kyns á meðan karlmennirnir þurfa nær aldrei að hugsa á slíkan hátt.

Ef á má orða þetta aðeins öðruvísi þá er það þannig að það er erfiðara að fá konur til að mæta í fjölmiðla eða bjóða sig fram (nema raunverulega jafnréttissinnuðum flokki). Ástæðan fyrir því er m.a. sú að konur eru hlutfallslega miklu færri í stjórnmálum og í fjölmiðlum. Þetta er sumsé vítahringur. Og þó það sé ósanngjarnt þá verða konur stundum að hugsa að þær skuli bjóða sig fram til að vera fyrirmynd og þær skuli mæta í viðtöl til að vera fyrirmynd.

Við getum spurt hvort samfélagið sé eins og kassar af Playmo leikföngum eða hvort Playmo endurspegli samfélagið. Kassar af Playmo leikföngum eru þannig samsett að það koma yfirleitt engar konur með fyrr en sem þriðja fígúran. Undantekning er þegar kassarnir eru frekar ætlaðir stelpum. Þá eru það ævintýrapersónur, fjölskyldur og allt sem tengist dýrum. Þarna læra stelpur og strákar að setja konurnar í aukahlutverk. Þetta getum við líka öll lært af fjölmiðlum og þ.á.m. Gettu betur.

Nú ætla ég að vona að þeir sem sjái um Gettu betur undirbúning í skólum taki verkefnið alvarlega. Fyrsti prófsteinninn er hvort þeir taki bara eina stelpu í hópinn eða hvort það verði tekið meðvitið ákvörðun um að hafa þær fleiri til þess að vinna gegn strákaklíku menningunni sem þar hefur ríkt og þar með gera keppnina meira heillandi fyrir þær stelpur sem geta orðið til þess að koma liði þeirra í úrslit.

0 thoughts on “Væl yfir kynjakvóta í Gettu betur”

  1. Mig langar að vekja athygli á rannsókn Bjargar Kristjánsdóttur sem ber yfirskriftina: Fræðileg samantekt á hreyfingu og lífsgæðum unglinga.

    Þar segir m.a.: “Í þessari rannsókn kom fram að stúlkur kusu frekar að stunda líkamlega hreyfingu í afslöppuðu andrúmslofti með vinum sínum án þess að vera í stöðugri keppni og líkamlega hreyfingu sem jók á andlega vellíðan þeirra.”
    Hvaðan kemur þessi áhersla á keppni og sigur? Ég ætla rétt að vona að skólastarf miðist ekki við páfagaukalærdóm og að fólk geti frussað út úr sér svörum á sem skemmstum tíma.

Leave a Reply