Kyn, einkunnir, þroski og árgangar

Best að byrja á því að taka fram að þetta eru meira pælingar heldur en niðurstöður.

Í kjölfar Gettu betur umræðunnar fór fólk að tala um þá staðreynd að kynjakvóti er notaður til þess að hleypa fleiri strákum að í Verslunarskólanum. Strákarnir eru sumsé að meðaltali með lægri einkunnir en stelpurnar. Þetta þykir ósanngjarnt gagnvart stelpunum sem komast ekki að þó þær séu með hærri einkunnir.

Þetta leiddi huga minn að einu sem ég hef hugsað reglulega um síðan við heimsóttum Árnýju og fjölskyldu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Þar var skólakerfið þannig uppbyggt að það var ekki hrein árgangaskipting í bekki heldur byrjuðu börnin skólagöngu þegar þau virtust vera komin með þroska til þess. Ég tek fram að ég er að endurorða eitthvað sem ég heyrði en ekki eitthvað sem ég kynnti mér sérstaklega.

En mér þótti þetta allavega rökrétt. Í fyrsta lagi út frá eigin reynslu þar sem ég man eftir miklum mun á þroska bekkjarfélaga minna. Sumir hefðu mátt vera í næsta bekk fyrir ofan en aðrir í næsta bekk fyrir neðan. Þetta var mun almennara en bara þannig að það dugi að færa til einn eða tvo. Ég held ég geti fullyrt að það hafi líka oftar verið strákar sem voru aftarlega og þó ég sé ekki sérfróður á þessu sviði held ég að þetta sé almennt.

Börn þroskast sumsé ekki í beinu samhengi við fæðingarár sitt  og mögulega er það þannig að drengir komi aðeins verr úr þessari beinhörðu árgangaskiptingu. Síðan er það víst þannig að meðaleinkunn barna er líka í samhengi við það hvenær á árinu þau fæðast. Þau sem fæðast síðar á árinu fá lægri einkunnir. Það gæti haft gríðarlega jákvæða áhrif á skólakerfið okkar að beygja frá hreinni árgangaskiptingu í bekki.

En ef við snúum aftur að Versló. Ef strákar eru að fara illa út úr skipulagningu skólakerfisins þá ættu framhaldsskólar að taka tillit til þess þegar verið er að taka nemendur inn. Væri annað ekki ósanngjarnt?
En rétt er að taka fram að þessar pælingar mínar væru líklega aðeins dýpri ef ég hefði menntun á sviðinu.

Leave a Reply