Smásagnakeppni og annað smálegt

Fínn vinnudagur. Ekki að ég búist við að þið hafið nokkurn áhuga á því.

Hvað sem því líður þarf ég að létta aðeins af mér. Ég þoli ekki diskóbrandara. Í öllum myndum sem eiga að gerast á áttunda áratuginum, er alltaf sami ömurlegi brandarinn, þegar ein persónan segir eitthvað á þá leiðina, að diskóið sé komið til að vera eða diskóið muni aldrei deyja. Það á víst að vera fyndið því diskóið entist ekki neitt sérlega lengi.

Alls óviðkomandi: Ég hef ákveðið að reyna að halda smásagnakeppni á Bloggi satans. Tvisvar hef ég áður reynt það og tvisvar hefur það ekki gengið vegna dræmra undirtekta. Nú hyggst ég reyna á það hið þriðja sinn og, ef þátttakan verður eins og áður, mun ég aldrei aftur reyna að sameina ykkur og pennann. Þá eru það reglurnar:

1. Þetta verður að vera dulræn saga (þið megið sjálf túlka hvað það þýðir) með a.m.k. einu atriði sem tekur á samskiptum kynjanna (þið megið einnig túlka það sjálf hvað það þýðir). Sagan verður einnig að gerast á bókasafni.

2. Þessi orð og orðasambönd skulu öll notuð einhversstaðar í sögunni: Snati; ja, hver rækallinn; ommeletta með ananas; dagfarsprúður; bakverkur; þynnka; viský; málfræðingur; hvert í hoppandi helvítisdjöfulsinsandskota fór druslan hún mamma þín?!

3. Leturstærð á að vera 12 pt. og línubil 1,5. Skilist sem Wordskjal á arngrimurv@simnet.is.

Verðlaunin verða ekki af lakari endanum, en þau verða engin. Þannig geta verðlaunin ekki verið slæm þar eð þau eru ekki til.