Smásagnakeppni og annað smálegt

Fínn vinnudagur. Ekki að ég búist við að þið hafið nokkurn áhuga á því.

Hvað sem því líður þarf ég að létta aðeins af mér. Ég þoli ekki diskóbrandara. Í öllum myndum sem eiga að gerast á áttunda áratuginum, er alltaf sami ömurlegi brandarinn, þegar ein persónan segir eitthvað á þá leiðina, að diskóið sé komið til að vera eða diskóið muni aldrei deyja. Það á víst að vera fyndið því diskóið entist ekki neitt sérlega lengi.

Alls óviðkomandi: Ég hef ákveðið að reyna að halda smásagnakeppni á Bloggi satans. Tvisvar hef ég áður reynt það og tvisvar hefur það ekki gengið vegna dræmra undirtekta. Nú hyggst ég reyna á það hið þriðja sinn og, ef þátttakan verður eins og áður, mun ég aldrei aftur reyna að sameina ykkur og pennann. Þá eru það reglurnar:

1. Þetta verður að vera dulræn saga (þið megið sjálf túlka hvað það þýðir) með a.m.k. einu atriði sem tekur á samskiptum kynjanna (þið megið einnig túlka það sjálf hvað það þýðir). Sagan verður einnig að gerast á bókasafni.

2. Þessi orð og orðasambönd skulu öll notuð einhversstaðar í sögunni: Snati; ja, hver rækallinn; ommeletta með ananas; dagfarsprúður; bakverkur; þynnka; viský; málfræðingur; hvert í hoppandi helvítisdjöfulsinsandskota fór druslan hún mamma þín?!

3. Leturstærð á að vera 12 pt. og línubil 1,5. Skilist sem Wordskjal á arngrimurv@simnet.is.

Verðlaunin verða ekki af lakari endanum, en þau verða engin. Þannig geta verðlaunin ekki verið slæm þar eð þau eru ekki til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *